Harrison Ford Ég var lengi að ákveða hvort ég ætlaði að senda þessa grein inn á ‘Fræga fólkið’ eða ‘Kvikmyndir’. En þar sem að ‘Fræga fólkið’ virðist uppfullt af slúðri og upplýsingum um uppáhalds liti og mat Lindsay Lohan, ákvað ég að greinin ætti betur heima hér á ‘Kvikmyndum’, hvort að þið teljið þá ákvörðun rétta eða ekki er síðan annað mál.
—————————-
Harrison Ford er einn af mínum uppáhaldsleikurum, og hér kemur smá grein um ævi kappans og afrek.

Hann fæddist þann 13. júlí 1942 í Chicago. Hann var aldrei sérstaklega góður nemandi. Einkunnir hans voru í meðallagi og stóð sig ekkert alltof vel í íþróttum. Hann var ekki vinsæll hjá kvenþjóðinni heldur og hefur lýst sjálfum sér sem “late-bloomer” hvað það varðar. Það var þess vegna aðallega til að kynnast stelpum sem Harrison skráði sig í leiklistartíma í framhaldsskóla. Þar fékk hann hins vegar leiklistarbóluna og hætti í skóla til að reyna fyrir sér í Hollywood.

Það gekk hinsvegar ekki eins og skildi. Eftir nokkur lítil og ómerkileg hlutverk, sem dugðu engan veginn til að gerast atvinnuleikari, gafst Harrison upp. Hann tók upp fyrri vinnu sína, sem var atvinnusmiður. Hann hélt sig frá leiklist í fáein ár, eða þangað til að George Lucas réð hann í aukahlutverk í ‘American Graffiti’ árið 1973. Þá komst leikferillinn aftur í gang, en það dugði skammt. Það var nefnilega ekki fyrr en árið 1977 að Ford tókst að sannfæra George Lucas um að ráða sig í hlutverk Han Solo í Star Wars (Lucas vildi upphaflega aðeins ráða algjörlega óþekkta leikara í aðalhlutverkin), að ferill Harrison Ford sem leikari komst fyrir fullt og allt á skrið.

Leikferilinn upp frá því þekkja flestir. Ford hefur leikið í kvikmyndum af ýmsu tagi, allt frá spennu og ævintýra myndunum um Indiana Jones og að dramatískum myndum á við ‘Regarding Henry’. Hann hefur fyrir löngu skipað sér í sess vinsælustu og þekktustu leikara allra tíma, og á sína velgengni svo sannarlega skilið.

Einkalíf hans hefur ekki verið mikið í fréttum upp á síðkastið. En eins og margir vita hafa hann og leikkonan Calista Flockhart verið saman um nokkurt skeið. Hann er tvískilinn, en var giftur Mary Marquardt frá árinu 1964 til 1979, og handritshöfundinum Melissu Matheson frá 1983. Þeirra skilnaði lauk í ársbyrjun 2004, sem reyndist verða sá dýrasti í sögu Hollywood. Harrison á 2 börn með hvorri eiginkonunni.
————————-
Nokkrir athyglisverðir punktar:

* Ein stjarna gömlu þöglu myndanna hét Harrison Ford, og því var sá Ford sem greinin fjallar um skrifaður sem ‘Harrison J. Ford’ fram að árinu 1970, þótt að hann hafi í raun ekkert millinafn.

* Atriðið í lok ‘The Empire Strikes Back’ þegar Leia segir ‘I love you.’ við Han Solo, er að hluta til hugmynd Fords. Í handritinu stóð að hann ætti að svara með einföldu ‘I love you too.’ En Harrison stakk uppá því að láta breyta því í sjálfumglatt ‘I Know’-ið sem hentar persónunni í raun betur :).

* Annað frábært atriði í mynd Harrisons sem er að vissu leiti úr hans smiðju er í Raiders of the Lost Arc. Þar er um að ræða fræga atriðið í Cairo þar sem Indiana Jones er að drepa/rota mann og annan á miðju torgi. Eins og margir kannast við birtist einhver skilmingameistari þarna þegar atriðið stendur sem hæst. Hann byrjar að leika listir sýnar með sverðið til að ógna Indy, sem einfaldlega dregur upp byssu og skýtur manninn án frekari vandræða. Þarna áttu mikil átög að eiga sér stað samkvæmt handritinu, en Ford stakk upp á þessum breytingum vegna meiðsla sem mundu gera honum erfitt fyrir í frekara bardagaatriði.

* Af 10 vinsælustu kvikmyndum sögunnar hefur hann leikið í 4; Öllum 3 fyrri Star Wars myndunum og Raiders of the Lost Arc.

* Var ekkert alltof hrifinn af klæðnaði Indiana Jones, hvað varðar notagildið. Hann sagði meira að segja sjálfur: “Whoever had the bright idea of putting Indiana Jones in a leather jacket and a fedora in the jungle ought to be dragged into the street and shot.” Sem mundi lauslega þýðast sem: “Sá sem fékk þá frábæru hugmynd að láta Indiana Jones klæðast leðurjakka og hatti í frumskóginum ætti að vera dreginn út á götu og skotinn.”
————

Harrison Ford hefur leikið í 47 kvikmyndum á leiklistarferlinum, ef með eru taldar þær sem enn eru í vinnslu. En það eru þær Firewall, Godspeed, og svo að sjálfsögðu 4. Indiana Jones myndin, sem væntanleg er árið 2006 ef allt gengur að óskum…og ég veit ekki með ykkur, en ég er spennt ;)

Takk Fyrir
'The entire Fleet knows that this man tried to stab me through the neck. And you missed! Butterfingers!'