Anthony Quinn látinn Óskarsverðlaunaleikarinn Anthony Quinn lést sunnudaginn 3. júní 2001, 86 ára að aldri. Quinn fæddist 21. apríl 1915 í Chihuahua í Mexíkó og var faðir hans írskur en móðir hans mexíkönsk. Hann ólst upp í fátækt í Los Angeles. Quinn hóf langan kvikmyndaferil sinn árið 1936 en hafði áður starfað sem hnefaleikakappi. Hann lék í fjölmörgum myndum á fjórða og fimmta áratugnum. Quinn hlaut Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki í myndinni Viva Zapata! (1952). Hann hreppti aftur Óskar sem besti aukaleikari fjórum árum síðar fyrir kvikmyndina Lust for Life (1956) þar sem hann lék listmálarann Paul Gauguin. Í millitíðinni hafði hann m.a. leikið í Fellini myndinni La Strada (1954). Árið 1958 leikstýrði hann kvikmyndinni The Buccaneer. Quinn lék í ýmsum þekktum myndum á sjöunda áratugnum, m.a. The Guns of Navarone (1961), Barrabas (1962), Requiem for a Heavyweight (1962), Lawrence of Arabia (1962) og síðat en ekki síst myndinni Grikkinn Zorba (1964) og er hann líklega einna þekktastur fyrir það hlutverk. Quinn átti þrettán börn. Hann var kvæntur þrisvar sinnum en fyrsta eiginkona hans, Katherine, var ættleidd dóttir Cecil B. DeMille. Hjónin léku saman í myndinni Black Gold árið 1947. Anthony Quinn lést á sjúkrahúsi í Boston.

með sorg í hjarta,
Fabio