Útgáfuár: 1994
Leikstjóri: Robert Zemeckis
Aðalhlutverk: Tom Hanks, Robin Wright Penn, Gary Sinise, Mykelti Williamsson, Sally Field.
Einkunn á IMDB: 8,2/10 (108. sæti)
Árið 1994 lögðu Bob Zemeckis og Tom Hanks krafta sína saman og út kom ein besta kvikmynd sögunnar, nefnilega Forrest Gump. Þetta var þó ekki eina myndin þar sem kapparnir unnu saman, því samstarf þeirra hefur einnig getið af sér myndirnar Cast Away og nú nýlega The Polar Express.
Forrest Gump er seinþroska drengur frá Suðurríkjunum í Bandaríkjunum sem býr einn með móður sinni því faðir hans hefur yfirgefið þau. Allt frá barnsaldri er Forrest langt eftirá börnum á sínum aldri og hlýtur líka mikla stríðni fyrir vikið. Forrest veit í rauninni ekki mikið hvað er að gerast í kringum hann, t.d. þegar hann verður ruðningsstjarna skilur hann leikinn í raun ekkert en veit bara að hann á að hlaupa.
Í raun má segja að það séu 4 persónur sem eru mikilvægastar í lífi Forrests og hafa mest mótandi áhrif á hann:
1) Móðir hans (Sally Field)
Móðir hans vill að Forrest lifi eðlilegu lífi, burtséð frá “fötlun” hans og gerir allt til að kenna honum að hann sé alveg eins og allir aðrir og eigi rétt á sömu tækifærum. Lífsspeki hennar kemur Forrest oft að góðum notum og hún veitir honum þann styrk sem hann þarf til að komast gegnum allt á fyrstu árum lífs hans. Móðir Forrests trúir að allir geti smíðað eigin örlög og reynir því að gera allt til að láta Forrest trúa á sjálfan sig og eigin hæfileika.
2) Jenny (Robin Wright Penn)
Forrest hittir Jenny á fyrsta deginum í skólann og strax er hún sú eina sem vill umgangast hann og hún veitir honum verndarvæng. Þau verða strax góðir vinir og það er þessi klassíska lína hennar “Run Forrest, run” sem verður til þess að Forrest fær skólastyrk út á spretthraða sinn og einnig á það þátt í því að hann fær heiðursorðu fyrir hetjudáðir í Víetnamstríðinu. Þegar Forrest og Jenny eldast áttar Forrest sig á að hann er ástfanginn af henni en Jenny hefur sínar eigin brautir til að ganga eftir og lendir í rugli. Þegar Forrest kemur að heimsækja hana reynir hann alltaf að gera allt sem hann getur til að vernda hana á sinn barnalega hátt og Jenny er ekkert ánægð með það, þ.a. hún afneitar honum í raun. Að lokum verður Jenny þó barnsmóðir hans og drengurinn, Forrest Gump jr., veitir Forrest mikla hamingju.
3) Bubba (Mykelti Williamsson)
Ástæðan fyrir að vinskapur verður milli Forrests og Bubba er líklega sú staðreynd að Forrest er sá eini í hernum sem nennir að hlusta á Bubba tala um rækjur allan daginn. Bubba er samt stór áhrifavaldur í lífi Forrests að því leyti að út af honum fer Forrest út í rækjuveiðaiðnaðinn og verður milljónamæringur fyrir vikið. Eins góðhjartaður og Forrest er sendir hann fjölskyldu Bubba alltaf 50% af sínum ágóða af Bubba - Gump rækjufyrirtækinu.
4) Lt. Dan (Gary Sinise)
Forrest lítur upp til Lt. Dan og bjargar lífi hans þegar hann liggur hjálparlaus eftir árás Víetkonga og í raun bíður eigin dauða. Lt. Dan trúir, þvert á skoðanir mömmu Forrests, að við séum öll bundin örlögum og að það hafi verið hans örlög að deyja í bardaga. Með því að bjarga honum gerði Forrest honum því mesta grikk sem hann gat hugsað sér, því Lt. Dan missti báða fætur sem gerði það að verkum að hann gat aldrei uppfyllt örlög sín, að deyja í bardaga, eins og allir forfeður hans höfðu gert. Síðan verður Lt. Dan meðeigandi Bubba - Gump og með góðmennsku Forrests lærir Dan að sætta sig við hið nýja líf sitt og er frábært að fylgjast með persónulegum þroska hans gegnum myndina. Fyrst er hann í afneitun, síðan kennir hann Guði um og býður honum birginn í storminum sem þeir lenda í og að lokum lærir hann að sætta sig við eigið hlutskipti.
Hvað er það sem gerir þessa mynd svona sérstaka?
Kannski er það sú staðreynd að allir geta fundið Forrest innra með sér, þennan saklausa, barnalega dreng sem nær samt svo miklum árangri. Það gefur fólki ef til vill von að sjá strák sem á við svona mikla erfiðleika að stríða og hefur svo margar hindranir í vegi sínum ná svona langt. Forrest verður ruðningshetja, stríðshetja, heimsþekktur fyrir borðtennishæfileika og að lokum milljónamæringur. Hann hittir forseta Bandaríkjanna held ég 3x og það er eitthvað sem gerist ekki á hverjum degi. Það er örugglega sú hugsun að sama hvaðan þú kemur og hvaða vandamál standa í vegi þínum, getirðu náð langt sem er svo huggandi að myndin nær til allra.
Svo er örlagatrúin annað meginþema í myndinni. Laufblaðið í byrjun myndarinnar lýsir því í raun vel. Þarna fylgjum við laufblaði sem virðist svífa mjög stefnulaust um en síðan lendir það akkúrat við fætur Forrests. Átti laufblaðið að enda þarna eða var það bara tilviljun að það lenti einmitt á fæti hans? Það eru þessar tvær lífsskoðanir, sem endurspeglast í sýnum mömmu Forrests, sem trúir að við sköpum okkar eigin örlög og Lt. Dan, sem trúir að við séum bundin fyrirframákveðnum örlögum, sem skapa þetta frásagnarþema. Erum við algjörlega hjálparlaus og lifum eftir einhverjum ákveðnum fyrirmælum eða stjórnum við okkar eigin örlögum? Þessari spurningu er velt upp fyrir áhorfandann til að velta fyrir sér.
Allt í allt er þetta stórkostleg og falleg mynd og ég tek algjörlega undir einkunnina á imdb.com og gef henni því ****/*****.