Það er kominn dágóður tími síðan ég sendi inn kvikmyndagagnrýni á þennan vef og ætla má að ég sé farinn að ryðga eilítið.

En hvað um það, ég skellti mér á forsýningu Mr. And Mrs. Smith á miðvikudagskvöldið, og ég verð að viðurkenna það að ég vissi ekki alveg á hverju ég átti von á.

Það er óhætt að segja það að myndin byrjaði vel, hún byrjaði strax á góðum brandara hjá hjónabandsráðgjafa þeirra Angelinu Jolie og Brad Pitt sem leika aðalhlutverkin í þessari mynd í leikstjórn Doug Limans (The Bourne Identidy). Myndin fjallar sem sagt um John Smith (Brad Pitt) og Jane Smith (Angelina Jolie) sem eru föst í ömurlegu hjónabandi sem er byggt á lygum frá A-Ö. Þau þola ekki hvort annað en vilja ekki viðurkenna það fyrir hvort öðru. Í myndinni leika þau bestu leigumorðingja heimsins sem vinna fyrir sitthvoran aðilann og þau vita ekki að makinn er leigumorðingi. Málin vandast þegar þau fá boð um að myrða hvort annað og þá fyrst byrjar myndin fyrir alvöru.

Mr. and Mrs. Smith er 100% skemmtun. Hún er í anda Bad Boys myndanna sem seint verða þekktar fyrir að vera góðar og vandaðar kvikmyndir en það er eitt sem þær gera vel: þær skemmta fólki. Mr. and Mrs. Smith er þar engin undantekning. Hún skemmtir og gerir það vel. Hún er ógeðslega fyndin á köflum og sæmilega spennandi en það sem gerir myndina skemmtilega er söguþráðurinn, leikurinn, kjaftæðið og skotbardagarnir. Myndin er langt frá því að vera frumleg enda fer hún eftir sömu formúlu og Bad Boys en það kemur á óvart hvað tókst vel að spila úr handritinu. Þar fær leikstjórinn Doug Liman hrós en hann er orðinn nokkuð sjóaður í að leikstýra myndum í þessum dúr.

Leikararnir í myndinni eru ekki af verri endanum. Brad Pitt fer á kostum og sýnir á sér skemmtilega hlið. Angelina Jolie á sínar góðu hliðar en hennar hlutverk er aðallega að vera falleg og sexí í myndinni. Þó ég vilji ekki blanda því inn í gagnrýnina, þá stenst ég ekki mátið; mér finnst Angelina ekki flott. Vince Vaughn á skemmtilega innkomu en hann leikur þó sama karakter í þessari mynd og öllum sínum myndum, en munurinn á þessari mynd og hinum er sá að í þessari mynd passar þessi karakter vel inn í myndina og eykur skemmtanagildið.

Fyrir þá sem eru að leita að pottþéttri afþreyingu í bíói, þá mæli ég hiklaust með Mr. and Mrs. Smith en fyrir þá sem eru að leita að “góðri” kvikmynd í alvarlegri kantinum, þá mæli ég með einhverri annarri, t.d. Crash.

8/10.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.