Ég er ekki alveg að skilja þessar sorp hryllingsmyndir sem flæða inn í bíóin alltaf. Núna eru það til dæmis Valentine og Cherry Falls sem ég myndi ekki fara á þótt mér væri borgað fyrir það. Ég skil bara ekki í leikurum að leika í svona myndum. Þetta er alltaf sama gamla rútínan: Rosa gellur sem eru á einn hátt eða annan ofsóttar af einhverjum psycho morðingja með hníf yfirleitt, það eru allavega aldrei byssur í þessu rusli, það væri of snyrtilegt. Stelpurnar eru náttla svo klókar að þær komast undan með því að setja kommóðu fyrir dyrnar sínar eða henda blýanti í morðingjann og svo næsta dag eru þær komnar aftur út eins og ekkert hafi í skorist og farnar í partý. Á meðan ákveður morðinginn að höggva mann og annan og alltaf eru það vinir stelpunnar sem er inni að drekka bjór. Svo eru þær drepnar líka en yfirleitt ekki fyrr en í endann nema þær nái að henda sjónvarpi ofan á morðingjann eða drepa hann með regnhlíf. Ég er ekki nógu sátt við þennan afrakstur Hollywoood manna og þar sem ég er mikill hryllingsmyndaaðdáandi finnst mér ömurlegt að það komi ekki nema kannski ein GÓÐ hryllingsmynd á hverju ári. En þessar unglinga ”hrollvekjur” sem skilja ekkert eftir sig streyma inn í bíó. Það versta af öllu eru framhaldsmyndir. Nýjasta dæmið er framhaldið af Blair witch. Sjálf hef ég ekki séð Blair Witch og þess vegna ekki númer tvö heldur en mér sýnist á öllu að þetta sé einhver cheap mynd þar sem miklu meira er lagt upp úr því að drepa heldur en að trylla áhorfandann. Mér fannst Blair witch einmitt svo sniðug og ég hélt lengi vel að hún væri sönn. Svo eru komnar þrjár Scream myndir og svona 78 Nightmare on Elm street myndir, tvær I know what you did last summer og blablabla. Ó já, það sem pirrar mig líka rosalega er að það sé að koma framhald af Scary movie. Mér fannst hún reyndar hálfleiðinleg en það var bara tekið svo skýrt fram í trailernum: NO SEQUAL svo ég er ekki alveg að fatta.
Það eru þrjár myndir á síðustu tveimur árum sem ég hef séð sem hafa alveg skarað fram úr hjá mér. What lies beneath, Sixth sense og Shining. Shining er mitt uppáhald þar sem allt við þessa helvítis mynd var svo creepy að það hálfa hefði verið nóg til að láta ömmu fá hjartaáfall. Alveg frá því að bjallan silaðist upp fjallaveginn langaði mig helst að fara út úr salnum. Undir lokin leið mér svo illa að ef einhver hefði brugðið mér eða eitthvað þá hefði ég klikkast. Jack Nicholson var líka svo ógeðslegur að hann hefur verið mjög vinsæll hjá mér síðan þá. Allt við Shining er scary og ég ráðlegg þeim sem hafa ekki séð hana að sjá hana fljótt en alls ekki að vera einir heima. What lies beneath kom mér á óvart og byggði upp spennuna alla myndina þannig að manni stóð sko ekki á sama um eigin geðheilsu undir lokin. Sixth sense: þarf að segja meira?? Ef ég stend lengi fyrir framan rúmið mitt tekst mér alltaf að hræða sjálfa mig með því að það gæti einhver verið undir því og gripið um ökklann á mér. Þá hoppa ég alltaf beint upp í rúm og fer ekki þaðan í smá tíma.
Ég spyr bara: Hvar eru fleiri svona myndir? Það er kannski ekkert gaman að vera svefnlaus eina nótt en maður lætur sig hafa það af því að næsta dag er frábært að tala um myndina og hlæja að því hvað maður var hræddur.
Það væri mjög gaman ef Filmundur myndi setja upp hryllingsmyndaviku þar sem væru sýndar klassískar myndir eins og Shining og Exorcist.
Burt með sorpið úr bíó.