The Matrix Ef þið eruð að hugsa: “Þessi mynd kom út fyrir 5 árum, get over it” þá vil ég taka það fram að ég hef sjálfur aldrei lesið neina grein beint um heimspekina og fleira í The Matrix og þar sem The Matrix er uppáhaldsmyndin mín og mér finnst gaman að pæla í heimspeki ætla ég að skrifa um heimspekina í henni o.fl.

*SPOILER* Ég ætla ekkert að segja beint frá efninu en ég mun tala um heimspeki o.fl. svo að þeir sem eru ekki búnir að sjá The Matrix (ef það er hægt) ættu að líta undan NÚNA

Orðið matrix er tekið úr latínu of þýðir leg. The Matrix, eða “draumaheimurinn” sem mér finnst miklu meira viðeigandi og flottari þýðing en “fylkið”, gegnir einmitt sama hlutverki og leg. Þegar þú ert tengdur inn í The Matrix ertu tengdur með ýmsum snúrum sem minna mjög á fylgjuna í spendýrum og auk þess færðu alla þá næringu sem þú þarft til að lifa í gegnum snúrurnar. Hylkin sem þú liggur í eru svo fyllt með vökva sbr. legkaka.

Þegar-tölvurnar-taka-yfir efnið hefur verið mjög vinsælt í vísindaskáldsögum (t.d. The Terminator). Mun mannkynið einhvern tímann skapa vélmenni eða tölvur sem eru í alla staði fullkomnari en mannkynið og muni að lokum stjórna okkur? Til að glöggva sig frekar á hvernig þetta gerist í The Matrix verður að horfa á Animatrix-stuttmyndirnar “The Second Renaissance Part I & II” þar sem sagt er frá því hvernig deilur mannkyns og vélmenna byrjaði með B-166-ER.

"What is the Matrix? Control. The Matrix is a computer-generated dream world built to keep us under control in order to change a human being into this [tekur upp batterí]"

Morpheus segir þarna að tilgangur draumaheimsins sé að halda stjórn á mannfólkinu og kallar hann “a prison for your mind” á öðrum stað. Eðli mannsins er mjög margbreytt og alls ekki víst að allir litu á þetta sem prísund.

You have to understand, most of these people are not ready to be unplugged. And many of them are so inured, so hopelessly dependent on the system, that they will fight to protect it.

Þetta er mjög áhugaverður punktur; af hverju ætti fólkið að vilja yfirgefa “The Matrix”. Fólkið í honum er undir ósýnilegri stjórn, þeir vita ekki einu sinni af því (hellislíking Platós). Þar sem hið mannlega eðli kýs yfirleitt auðveldu leiðina út er mjög sennilegt að mest af fólkinu kysi frekar að búa áfram í “The Matrix” í staðinn fyrir að fara í “hinn raunverulega heim” þar sem þeir borða einhvern horbjóð (ég geri mér grein fyrir því að þetta orð er ekki til) og eru sífellt á flótta undan vélunum. Ég tel að Cypher standi í raun fyrir hið mannlega eðli í hnotskurn. Flestir mundu örugglega velja eins og Cypher. Það eru ekki margir eins og Morpheus og Trinity sem kjósa frekar að búa í “hinum raunverulega heimi”.

(Takið einnig eftir því að þegar Cypher hittir Agent Smith ávarpar Smith hann sem “Mr. Reagan” og seinna kemur fram að Cypher vill verða “someone important, like an actor”. Þetta minnir skuggalega á Ronald Reagan, fyrr. forseta Bandaríkjanna, sem var vissulega mikilvægur og var einnig leikari. Eru Wachowski bræðurnir að segja okkur að Cypher sé leiðtogi meirihlutans, þ.e. þeirra sem að velja frekar Draumaheiminn? Pæling.)

En þá er hægt að spyrja sig: Hvað er raunverulegt? Ef fólk hefur lifað í blekkingu í kannski 100-200 ár, þ.e. í Draumaheiminum, byrjar þá Draumaheimurinn ekki að vera hið rétta og allt annað blekking? Hver getur sagt að það sé eitthvað raunverulegra að lifa í “hinum raunverulega heimi”? Fyrir fólkið sem lifir í Draumaheiminum er Draumaheimurinn tvímælalaust raunveruleiki. Mér finnst skrítið að ásýn Morpheusar og fleirra á málið sé svona þröngsýn því að hver gaf þeim það vald að ákveða fyrir allt fólkið í Draumaheiminum hvað sé raunverulegt? (sjá grein eftir sama höfund um The Truman Show)

Margir mundu telja slíkan sýndarheim vera einhvers konar fangelsi og talað er um í myndinni að mannkynið hafi verið hneppt í þrældóm. En þessi þrældómur er þjáningarlaus (að sjálfsögðu þjáist fólk í Draumaheiminum, kem að því síðar, en samt ekkert meira en þau mundu hvort sem er þjást venjulega; þrældómur þýðir meiri þjáningar) og auk þess mundi mörgum finnast lífið betra í Draumaheiminum því þar er heimurinn ennþá heill og fólkið lifir ekki á sífelldum flótta undan vélunum og aðeins ein borg. Svo má spyrja sig að því hvar Morpheus og félagar ætluðu að koma öllu þessu fólki fyrir því íbúapláss fyrir 6 milljarða manna finnst ekki auðveldlega, sérstaklega í heimi sem hefur verið eytt, og ég leyfi mér að efast um að hægt væri að sjá fyrir fæðu fyrir allt þetta fólk.

Did you know that the first Matrix was designed to be a perfect human world? Where none suffered, where everyone would be happy. It was a disaster.

Agent Smith kemur þarna inn á áhugavert mál. Þjáning virðist einhvern veginn vera óhjákvæmilegur hluti lífsins og fólk lítur á það bara sem hvert annað viðfangsefni dagsins. Svona algjör útópía eins og fyrsti Draumaheimurinn virðist hafa verið gæti einfaldlega aldrei átt sér stað sökum eiginleikum mannlegs eðlis. Mannlegt eðli bæði sækir í og veldur þjáningu. Allir morðingjar, ræningjar, nauðgarar o.fl. o.fl. valda fólki mikilli þjáningu og fólk sjálft veldur sjálfur sér óþarfa þjáningu með t.d. óþarfri streitu og kvíða. Það er því ekki erfitt að ímynda sér að væri fólk tengt í fullkominn heim (þ.e. án þjáninga) mundu flestir ekki taka við þessu og neita að trúa því því að þjáning er mjög einfaldlega hluti lífsins.

Þema The Matrix má segja að sé fæðingin. Neo er tekinn út úr Draumaheiminum og kenndir eiginleikar hans og áhorfendur sjá hann vaxa í gegnum alla myndina. Atriðið í lokin þegar hann stoppar byssukúlurnar er að mínu mati besta atriði kvikmyndasögunnar, ég leyfi mér að nota svo stór orð. Ástæðan fyrir því er að kjarni myndarinnar fellst í þessu 30 sekúndna atriði og allt er að gerast á þeim tímapunkti. Þarna uppgötvar Neo loks eðli Draumaheimsins, “he's beginning to believe” og það er rosalega sterkt þegar hann segir einfaldlega “No” og stoppar byssukúlurnar í loftinu. Þetta atriði hafði og hefur enn ólýsanleg áhrif á mig því í þessu atriði fanga Wachowski-bræður kjarna mannlegs eðlis; trúna og uppgötvunina. Alla tíð hefur mannkyn verið að prófa sig áfram til að auka við þekkingu sína, gert uppgötvanir, og svo spilar trúin gríðarlega stórt hlutverk í lífi margra. Svo má ekki gleyma að áður en þetta gerist endurfæðist Neo og en í rauninni “fæðist” hann á umræddu augnabliki því þá byrjar hann að átta sig á Draumaheiminum. Þetta mjög svo kraftmikla augnablik uppljómunar er hrein snilld. Þetta er ein ástæðan fyrir því að framhaldsmyndirnar gátu aldrei verið jafngóðar; þú skapar ekki svona töfra 2x.

Sameiginleg einkenni Neo og Krists eru augljós. Neo er hreint útsagt frelsari mannkyns sem deyr og rís aftur upp frá dauðum. Neo hét í raun Thomas Anderson. “Neo” þýðir “hinn nýi”, “Anderson” þýðir mansonur og “Thomas” er tilvitnun í Biblíuna en þar var Tómas sá postuli sem efaðist. Neo taldi alla tíð um að það væri eitthvað að heiminum sem hann lifði í þ.e. hann efaðist en í lokin fékk hann uppljómun og varð þá hinn nýi mansonur sem frelsar mannkynið. Í byrjun myndarinnar kemur líka kúnni, Choi, til Neos að kaupa af honum eitthvað hack og takið eftir orðum hans:
“You need to unplug”
"Hallelujah, you're my saviour, man, my own personla Jesus Christ"
Ég veit að þessi grein fjallar einungis um The Matrix en ef þið horfið vel í Revolutions á mómentið þegar vélarnar senda einvhers konar bylgjur gegnum Neo þegar þær eru að cancela hann og Agent Smith út myndast kross á líkama hans.

Það sem er líka skemmtilegt við The Matrix að hvert einasta orð er útpælt, margt fólk sem finnst The Matrix ekki góð er ekki að fylgjast með öllum samtölunum. Þau eru hreint út sagt stórkostlegt því það felst ákveðin tvíræðni í nánast öllum orðunum eins og dæmið með Choi sýnir vel. Þegar þið, kæru lesendur, horfið á The Matrix verðið þið að taka eftir hverju einasta orði því þau koma nánast öll söguþræðinum og þar með heimspekinni við. Einræðan hjá Agent Smith við Morpheus í stjórnvaldabyggingunni er líka algjört konfekt.

They are everyone, and they are no one

Persónulega finnst mér þetta mjög töff setning. Ég vil nota aðeins tækifærið til að tala aðeins um agentana. Margir sem ég hef talað við skilja ekki af hverju agentarnir deyja aldrei þótt þeir séu oft skotnir til bana í myndinni. Ástæðan er einföld. Þeir eru forrit sem hakka sig inn í einstaklinga og ef einstaklingurinn deyr flytur forritið sig bara yfir í annan einstakling og þess vegna er tilvitnunin hér að ofan mjög svo viðeigandi.

Ég vona að þið hafið haft gaman að að lesa þessa grein; auðvitað er miklu meira sem ég gæti komið inn á hérna en þetta er gott held ég í bili. Auk þess vil ég benda á að þetta er aðeins mín túlkun á Matrix-fyrirbærinu; ég er ekkert að halda því fram að þetta sé “rétt” enda í raun ekki til “rétt” eða “rangt” þegar kemur að heimspeki. Ef ykkur dettur einhver góð heimspekimynd sem ég get skrifað um næst endilega sendið uppástungur!


Að lokum vil ég geta þess að Ég tek vel í hvers kyns málfars- og stafsetningarleiðréttingar.

Takk fyrir lesturinn