Þar sem þetta er eina fríkvöldið mitt í vikunni ákvað ég að fara með félögunum í bíó. Myndirnar eru margar sem verðar eru áhorfs í bíósölum landsins um þessar mundir en ótrúlegt fátt sem ég hef eða félagarnir höfum ekki séð. Við ákváðum að skella okkur á einhverja létta mynd og varð Hitch fyrir valinu. Ég bjóst ekki við miklu af henni og fór með það viðhorf í bíóið að skemmta mér.
Myndin fjallar um mann að nafni Alex Hitchens sem hefur það að atvinnu að hjálpa karlmönnum að vinna ástir kvenna. Alex er vinnur sitt starf vel og kúnnum hans gengur allt í haginn. Milli þess sem hann hjálpar klaufskum fjárhagsráðgjafa að eltast við ríka ofurdömu er hann einnig að eltast við konu. Auðvitað flækjast málin og ýmis vandamál koma upp og við fylgjumst með sögupersónunum reyna að leysa úr flækjunni.
Hitch er í rauninni bara þessi týpíska ástarmynd þar sem allt fer í flækju en allir lifa svo hamingjusamir til æviloka. Hún er frekar fyrirsjáanleg og grínið oft á tíðum frekar ódýrt. Samtölin eru óáhugaverð og alltof dramatísk. Venjuleg atriði eru gerð ofur dramatísk með hægu “zoom-i”, hetjulegum ræðum og dramatískri tónlist. Það sem mér fannst best við myndina var að grínið heppnaðist alveg ágætlega og Will Smith og Kevin James nokkuð skemmtilegir. Fyrri hluti myndarinnar fannst mér heppnast ágætlega og nokkuð skemmtilegur, en þegar líða fer á seinni hlutann fer myndin að snúast eingöngu út á ástarflækjur og verður að mínu mati afskaplega leiðinleg.
Leikararnir eru rétt yfir meðallagi að mínu mati, sem og í raun myndin. Það er hugsanlega vegna frekar slakrar leikstjórnar og handrits. Tónlistin var mjög léleg og alltof dramatísk alltaf. Mér hefur alltaf leiðst svona hægt “zoom” eins og kemur alltaf í þessum einræðum sem leyndust víða í myndinni.
Yfir heildina litið er Hitch meðal mynd. Ástarvella beint eftir bókinni. Ég gef myndinni **/**** og tæplega það.