Það er ekki hægt annað en að hafa gaman að Óskarsverðlaunahátíðinni. Þó svo að úthlutun verðlaunanna séu stundum frekar heimskuleg er alltaf gaman að horfa á þetta, sjá alla helstu kvikmyndagerðarmenn Hollywood hópast saman á einn stað í sínum fínustu fötum. Fínustu föt fólksins eru nú samt yfirleitt mjög svo misfín og nær hátíðin jafnt til tískuáhugamanna sem bíða með fiðring í maganum eftir að fá að sjá hvernig hinar og þessar stjörnur eru klæddar - og kvikmyndaáhugamanna. Fötin eru þá ekki aðalástæðan fyrir árlegum spenningi mínum fyrir hátíðinni, verðlaunaúthlutunin er sá hluti sem ég bíð hvað spenntastur eftir og er alltaf gaman að spá í spilin fyrir athyglisverðustu flokkana. Þess má nú til gamans geta að ég reyndist sannspár um öll verðlaunin nema þau stærstu - bestu myndina.
Fyrir þá sem eru einhverra fáránlegra hluta vegna ekki enn búnir að frétta af úrslitum hátíðarinnar þá ætla ég að smella þeim aðalverðlaununum hingað inn.
Besti Leikstjóri: Clint Eastwood - Million Dollar baby
Besta mynd: Million Dollar Baby
Besti leikari í aðalhlutverki: Jamie Foxx- Ray
Besta leikkona í aðalhlutverki: Hilary Swank -Million Dollar Baby
Besti leikari í aukahlutverki: Morgan Freeman - Million Dollar Baby
Besta leikkona í aukahlutverki: Cate Blanchett - The Aviator
Ég nenni ekki að hafa fyrir því að fara eitthvað út í leikaraverðlaunin þar sem þau voru öll frekar fyrirsjáanleg og að mínu mati vel valin. Ég hélt þó meira með Virgina Madsen úr Sideways heldur en Cate Blanchett úr The Aviator sem börðust um verðlaunin fyrir aukahlutverk kvenna en ég er alveg vel sáttur við það að Cate hafi fengið þau, enda var hún ansi góð í myndinni.
Flest allir spáðu The Aviator fleiri verðlaunum heldur en hún fékk á hátíðinni. En þau voru minnir mig 5, án þess þó að ég nenni að telja þau saman. Þau voru flest öll fyrir tæknivinnu á myndinni og varð hún útundan í baráttunni um stærstu verðlaunin. Það fór fyrir hjartað á mörgum að Martin Scorsese skyldi ekki hafað unnið fyrir leikstjórn sína í The Aviator. Ég persónulega hélt aðeins meira með Martin heldur en Clint í þessu. Aðallega vegna þess að Clint hefur unnið áður og var það fyrir vestrann Unforgiven en leikstjórar eins og Martin Scorsese, sem er auðvitað einn af betri leikstjórum allra tíma á auðvitað skilið að vinna verðlaunin á sínum ferli. Þetta var í fimmta skiptið sem honum var sleppt eftir að hafað fengið tilnefningu. Eftir að hafað hugsað um þetta eftir á var þetta ekki árið sem Marty átti að fá verðlaunin, mér persónulega finnst Million Dollar Baby aðeins betri mynd heldur en The Aviator. Hann átti auðvitað að fá verðlaunin árið 1990 fyrir Goodfellas, en þá tapaði hann, ótrúlegt en satt fyrir Kevin Costner sem gerði Dances With Wolves það ár. Mér reyndar finnst það virkilega góð mynd og hefur verið ein af mínum uppáhalds síðan ég var lítill polli, fimm ára að aldri. Ég skil reyndar alveg af hverju hún vann en ekki Goodfellas. Mér fannst nefnilega Goodfellas ekkert rosalega góð við fyrstu tvö áhorf, en í svona fjórða eða fimmta áhorfi byrjaði ég virkilega fíla hana og finnst mér hún núna frábær - betri heldur en Dances With Wolves. Svo hefði hann getað fengið verðlaunin 1980 þegar hann gaf út Raging Bull, en hann tapaði þá fyrir Ordinary People, sem ég hef því miður ekki séð og veit því voða lítið um hvort hún hafi átt það skilið eða ekki. Ég veit allavega að mér finnst Raging Bull örlítið ofmetin þrátt fyrir að vera auðvitað frábær mynd. Hann var svo tilnefndur árið 2002 fyrir Gangs Of New York. Hann fékk réttilega ekki verðlaun fyrir þá mynd, því meistaraverkið The Pianist kom einmitt út það ár og fékk hinn frábær Roman Polanski verðlaunin verðskulduð það ár. Árið 1976 gerði Marty sína langbestu mynd - Taxi Driver. Taxi Driver fékk held ég ekki nein verðlaun það ár, ekki einu sinni Robert De Niro fyrir magnaða túlkun sína í myndinni. Rocky fékk verðlaun fyrir bestu myndina og John G. Avildsen fékk verðlaun fyrir leikstjórn sína á The Rocky. Hann er auðvitað frekar ómerkilegur leikstjóri og þetta er held ég árið sem Marty átti að vinna - þrátt fyrir að hann hafi ekki verið kominn með þá virðingu sem hann er með núna á þessum tíma. Reyndar gerði Avildsen nokkuð ótrúlegan hlut í The Rocky - hann fékk Stallone til að leika nokkuð vel, en það er stórt afrek. Marty var svo tilnefndur fyrir The Last Temptation Of Christ árið 1989 en svona umdeilanlegar myndir vinna yfirleitt ekki margt á Óskarnum - sem er auðvitað hin mesta synd og skömm. Ég er reyndar ekki dómhæfur á það ár en þá tók Rain Man flest allt til sín, en það er auðvitað frábær mynd. Ég stefni á að horfa á The Last Temptation Of Christ í kvöld svo ég ætti að getað dæmt um þetta þá.
Mín niðurstaða er semsagt sú að Clint Eastwood hafi átti verðlaunin skilin í ár - Martin Scorsese átti að vinna þau fyrir lifandi löngu. Martin Scorsese á hugsanlega eftir að bætast í hóp hæfileikamanna eins og Stanley Kubrick og Alfred Hitchcock sem aldrei fengu Óskarinn á sínum ferli. Ég hef lesið á netinu að fólk segir að Marty langi bara alls ekki í verðlaunin og vill hann glaður bætast í hóp þessara áðurupptalda snillinga. Ég er þó alls ekki sammála því og ég spái ég að hann eigi eftir að vinna leikstjóraverðlaun áður en hann hættir - og ég tel það vera svo að hann langi virkilega í þessi verðlaun og beri nokkra virðingu fyrir þeim.
Svona yfir allt var ég nokkuð ánægður með hátíðina, frábær skemmtum og stóð Chris Rock sig ágætlega sem kynnir, mér til mikillar undrunnar var hann reyndar ótrúlega rólegur þetta kvöld og hefði mátt vera aðeins ‘ofvirkari’ - því flest allir brandararnir hans voru vel fyndnir. Mér fannst hápunktur kvöldsins vera ræða Sidney Lumet sem fékk heiðursverðlaunin í ár. Í henni þakkaði hann kvikmyndalistinni sem slíkri og talaði um galdra hennar. Án efa besta ræða sem ég hef heyrt á Óskarsverðlaunahátið. Eins og áður sagði var ég ánægður með leikaraverðlaunin og í rauninni bara flest öll verðlaunin. The Incredibles átti þau skilin fyrir bestu teiknimynd, Eternal Sunshine og Sideways fyrir handritsflokkana tvo.
Endilega tjáið ykkur varðandi Scorsese/Eastwood málið.
Takk fyrir mig,
Ívar Erik