Sælir Hugverjar,
Ég sendi inn hérna grein í byrjun vikunnar sem titlaðist “Slæmir DVD diskar”. Þarna komu fram ýmsar ásakanir á fyrirtækið Myndform hf., vangaveltur og ásakanir sem áttu ekki við rök að styðjast. Það sem kom þarna fram voru vangaveltur um að Myndform væru að gera eitthvað rangt með dreifingu sinni á DVD diskum en svo er ekki.
Fyrst vil ég biðja fyrirtækið, Myndform hf. afsökunnar á ábyrgðarlausum skrifum hérna inn á Huga.is. Þetta var skrifað í nafni Undirtóna og það var algjörlega rangt að gera. Einnig var ég ekki með allar upplýsingar á hreinu varðandi þetta mál, þannig að nú er best að leiðrétta þetta.
Þannig er mál með vexti að við höfðum nýlega fengið í hendurnar DVD disk fá Myndform, The Cell með Jennifer Lopez. Eftir að hafa rætt við strákana hjá fyrirtækinu, kom í ljós að þessi diskur var víst frávik frá framleiðslu þeirra. Við minntumst á að diskurinn spilaði ekki aukaefnið á Hitachi spilaranum okkar, en nú hefur það komið einnig í ljós að diskurinn og þ.a.l. aukaefnið virkar sem skyldi á öllum þeim DVD spilurum sem við vitum um, fyrir utan okkar Hitachi spilara sem við botnum hreinlega ekkert í, en hvað um það, þetta er bara spilarinn okkar.
Í öðru lagi voru menn að velta því upp að hugsanlega væru þessir diskar fjölfaldaðir hérna á Íslandi, vegna þess að sjálfir diskarnir eru merktir fyrirtækinu. Þetta er líka rangfærsla, eftir að hafa átt orð við hann Halldór hjá Myndform þá kom það fram greinilega að diskarnir eru EKKI fjöldfaldaði hérna á landinu, heldur eru diskarnir framleiddir erlendis og koma svona til landsins. Enda eru lika ekki komnir DVD skrifarar til landsins þannig að við biðjumst afsökunnar á þessu.
Í þriðja lagi minntumst við á umbúðir The Cell og Rush Hour, en samvkæmt Myndform er hér um að ræða slæm frávik frá hefðbundinni framleiðslu þeirra. The Cell var illa prentuð, þannig að upplýsingar sáust varla, þetta fannst mér ekki vera í lagi og þess vegna minnist ég á þetta, hérna á þessu spjallsvæði. Ég hélt að framleiðsla Myndform væri á þessu plani, en svo er ekki, því að umbúðir diska eins og The Sixth Sense, Shanghai Noon og American History X eru mun betur prentaðar og skýrari. Það er því ekki hægt að dæma alla framleiðslu fyrirtækisins út frá þessum frávikadiskum.
Að lokum voru menn að velta því fyrir sér hvort að höfundarréttur væri brotinn í einhverjum tilvikum. Á því byggði ég þá staðreynd að sjálfir DVD diskarnir frá Myndform eru merktir fyrirtækinu en ekki erlendum framleiðendum. Samkvæmt Halldóri er fyrirtækið ekki skuldbundið að birta þessar erlendu upplýsingar á diskunum þannig að það þýðir ekkert að vera að gagnrýna fyrirtækið fyrir það. Það er ekki verið að brjóta neinn höfundarrétt með þessari framleiðslu Myndform, það hefur nú komið fram. Og að sjálfsögðu sé ég eftir því að hafa ásakað þá um þessi brot.
Þess má einnig geta að Undirtónar hafa fjallað um fjöldann allan af myndum frá Myndform síðastliðna mánuði og flestar hafa verið mjög vel unnar og án nokkurra vandræða. Dæmi um þetta eru diskar eins og Shanghai Noon, The Sixth Sense og The Whole Nine Yards. Á þessum diskum voru umbúðir vel prentaðar, aukaefnið virkaði á Hitachi spilarann okkar og í raun voru þessir diskar á heildina litið mjög fínir og í sjálfu sér ekki hægt að setja neitt út á þá gæðalega séð.
Nú hefur komið í ljós að DVD diskar frá Myndform eru í fínu lagi að staðaldri, fyrir utan þessi frávik sem ég tók eftir sem DVD gagnrýndandi hjá Undirtónum. Það hefur einnig komið fram að spilarinn okkar virðist vera eitthvað viðkvæmur því hann spilar ekki aukefnið á nokkrum af diskum fyrirtækisins. Það er bara eitthvað sem við þurfum að athuga hérna á blaðinu og við sjáum auðvitað eftir þessu og biðjumst afsökunnar á þessum ásökunum sem birtust hér á Huga.is.
Kveðja, Ari