Sideways er kvikmynd sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Hún var tilnefnd til 7 Golden Globe verðlauna og vann 2 þeirra, besta myndin – söngleikja eða gamanmynd og besta handrit. Ég hafði eðlilega miklar væntingar til þessarar myndar og vonaði innilega að þetta yrði jafn vel heppnuð bíóferð og þegar ég fór á The Aviator, þegar ég steig inn í sal 1 í Smárabíói.
Myndin fjallar um tvo menn Miles (Paul Giamatti) og Jack (Thomas Haden Church) sem leggja upp í ferðalag til að halda upp á giftingu Jacks. Miles hefur skipulagt ferðina sem stendur aðallega af vínsmökkun og golfi, en Jack vill njóta síðustu daga sinna sem ógiftur maður með samvistum kvenna. Jack er mikill glaumgosi og skrautlegur karakter og gjörðir hans hafa nánast undantekningalaust slæmar afleiðingar í för með sér.
Það mætti segja að Sideways sé annað hvort dramatísk gamanmynd eða gamansöm dramamynd. Alexander Payne sem bæði leikstýrði og skrifaði myndina er hér tvímælalaust að gera sína bestu mynd. Handritið er hreint út sagt frábært. Maður skemmtir sér konunglega við það að hlusta á góð og vel útsett samtölin og einstaklega skemmtilega atburðarásina. Aðal karakterarnir eru þessi venjulega blanda, sá “klikkaði” og sá skynsami.
Eins og ég sagði fyrr í greininni náði Alexander Payne því allra besta út úr leikurum myndarinnar. Paul Giamatti og Thomas Haden Church mynda skemmtilegt “tvíeyki” og gaman er að fylgjast með tengslum þeirra. Ég hef sjaldan fundið jafn mikið til með karakter og ég fann til með karakternum Miles í þessari mynd. Paul Giamatti túlkar þennan þunglynda rithöfund og vínsmakkara alveg hreint frábærlega. Virginia Madsen sýnir góða frammistöðu sem Maya og Sandra Oh er ágæt sem framhjáhald Jack.
Tónlist myndarinnar var að mínu mati mjög hógvær. Leikstjórinn lætur ekki mikið fara fyrir henni en hún myndar frábært andrúmsloft og er vel unnin. Eins er með myndatökuna. Það besta við myndina er að mínu mati handritið. Það er frábærlega unnið. Leikstjórinn nær upp skemmtilegum atvikum sem myndast oftast vegna ábyrgðarleysi Jack.
Yfir heildina litið er Sideways frábær mynd sem ég mæli umhugsunarlaust með. Alexander Payne hefur hér tekist að búa til mynd sem ég tel eiga að fá óskarstilnefningu.
Myndinni gef ég ***1/2 / ****