Jæja, þá er 2004 runnið í sandinn og því við hæfi að gera upp hitt og þetta. Þetta uppgjör mun að þessu sinni snúast um ástríðuna margumtöluðu; kvikmyndirnar.
Ég sá heilar 37 myndir í bíó á síðasta ári, en það er svosem ekki merkilegt þegar litið er á þá staðreynd að sumir ofurnördar sjá um og yfir 300 myndir í kvikmyndahúsi á ári. Ég efast um að ég nái einhverntíman því stigi í epískum nördaskap.
Það sem kom mér á óvart þegar ég las yfir listann af kvikmyndum sem ég hafði séð, var að ég sá nánast engar verulega slæmar myndir á þessu ári. Aðeins ein mynd nær þeim statusi að teljast verulega slæm (King Arthur) og önnur var bara hálfslæm (The Village). Annars var allt annað viðunandi og allt upp í frábært.
Hér á eftir mun síðan fylgja einhverskonar topp 10 uppgjörslisti yfir kvikmyndir ársins, en það var alveg skelfilega mikið vesen að setja hann saman sökum mikillar innbyrgðis samkeppni þeirra ágætu mynda sem á hann komust.
Njótið.
1. Lost in Translation
“Taking a break from my wife, forgetting my son's birthday. And, uh, getting paid two million dollars to endorse a whiskey when I could be doing a play somewhere.”
Það var afar erfitt að raða í fyrstu þrjú sætin þar sem að allar þessar myndir höfðu áhrif á mig á mismunandi hátt. Lost in Translation hlýtur þó fyrsta sætið af þeirri einföldu ástæðu að ég hef núna séð hana þrisvar og hún verður betri því oftar sem ég horfi á hana. Ég hef skrifað um hana áður hérna í eldri færlsu þannig að það er ekki margt nýtt að segja. Sofia Coppola hefur skapað ótrúlega brothætta litla sögu um tvær ólíkar manneskjur á ólíkum stöðum í lífinu en eiga það þó sameiginlegt að vera týnd í lífinu. Tvær týndar manneskjur sem finna hvora aðra á allt of fínu hóteli í Tókýó.
Bill Murray er tragikómískur og Scarlett Johanson er brothætt og næm í hlutverkum sínum og saman mynda þau alveg ótrúlega sterka heild og platónskt samband þeirra er fullkomlega úthugsað og framsett, og það er ekki eitt andartak sem maður missir trúnna á þeim sem manneskjum og sem persónum og þessvegna á Lost in Translation skilið að vera besta myndin sem ég sá árið 2004.
2. Eternal Sunshine of the Spotless Mind
“Sometimes I think people don't understand how lonely it is to be a kid, like you don't matter. So, I'm eight, and I have these toys, these dolls. My favorite is this ugly girl doll who I call Clementine, and I keep yelling at her, “You can't be ugly! Be pretty!” It's weird, like if I can transform her, I would magically change, too.”
Ég hef heyrt margar kenningar um að ást sé bara blekking. Fyrirbæri sem er haldið á lofti af konfekt- og blómaframleiðendum. Það er ótrúlegt hvernig heimurinn er knésettur af þessu fyrirbæri. Meginþorra allrar listar sem sköpuð hefur verið snýst um ást eða afleiðingar ástar. Hollywood hefur gert ást að meginþema sínu. Flestallar kvikmyndir innihalda og/eða snúast aðallega um ást og vandamál tengd ást. En er það í raun ást sem þessar kvikmyndir eru að sýna? Er þetta ekki frekar einhverskonar brengluð kjörútgáfa af því sem við höfum sannfært okkur um að ást eigi að vera?
Ég hugsa að ást sé ekki svo einföld að hægt sé að snúa henni upp í að vera tilfinning eða hormónastarfsemi eða jafnvel blekking. Það er miklu frekar hægt að lýsa henni sem upplifun. Samþjöppun ótal mismunandi tilfinninga, hugsana, hormóna, aðgerða og minninga inn í einn pakka með þessu margtuggna nafni á.
Þar komum við að Eternal Sunshine of the Spotless Mind.
Ég elska Charlie Kaufman. Það er hugsanlega enginn betri handritshöfundur starfandi í dag þegar kemur að skriftun á söguframvindu og persónum. Honum tekst að tvinna saman ótrúlegum atburðum, persónum og samtölum inn í brenglaðan heim sinn, en maður kaupir það samt alltaf og leifir sér að fljóta með. Eternal Sunshine er að mínum dómi hans allra besta handrit. Það er síðan frakkinn Michel Gondry sem fær að leikstýra herlegheitunum á afar stýlískan, en á sama tíma hráan hátt.
Myndin segir í stuttu máli frá fyrrum parinu Joel og Clementine sem eru svo sár og reið út í hvort annað eftir erfið sambandsskil að þau ákveða hvor í sínu lagi að gangast undir mjög nýstárlega og róttæka aðgerð þar sem öllum minningum þeirra um hvort annað verður eytt úr minni þeirra að eilífu.
Myndin gerist síðan að mestu út frá sjónarhóli Joels þar sem hann ferðast í gegnum minningar sínar um Clementine jafn óðum og þær eyðast í burtu.
Myndin hefur mjög sterka tilfinningu fyrir þessari upplifun sem ást er. Hann fer í þessa aðgerð til að reyna að gleyma öllu því slæma en sér svo þegar hann ferðast um eigin minningar allt það góða sem hann var búinn að gleyma. Alla upplifunina í heild sinni og hversu falleg hún er og um það er myndin. Góðu og slæmu hlutirnir sem mynda eina magnaða, lífsnauðsynlega heild. Andstæðurnar sem magna hvora aðra upp.
3. Kill Bill: Vol. 2
“She told me later, that the second she lifted up her foot and saw him not flapping, she knew he was dead. Is that not the perfect visual image of life and death? A fish flapping on the carpet, and a fish not flapping on the carpet. So powerful even a five-year old child with no concept of life and death knew what it meant. Not only did she know Emilio was dead, she knew she had killed him. So she comes running into my room, holding Emilio in both of her little hands - it was so cute - and she wanted me to make Emilio better. And I asked her, why did she step on Emilio? And she said, she didn't know. But I knew why. You didn't mean to hurt Emilio, you just wanted to see what would happen if you stepped on him, right?”
Þegar maður sér seinni hluta þessarar niðurbútuðu sögu skilur maður betur afhverju ákveðið var að skera myndina í tvennt (fyrir utan náttúrulega að græða tvöfalt meiri pening). Seinni helmingurinn sem nefnilega stílískt mjög frábrugðinn hinum fyrri. Á meðan fyrri myndin var poppuð, hröð og á köflum hálf súrrealísk þá er seinni myndin yfirveguð, köld og á köflum jafnvel hrá. Þetta skýrist þegar maður lítur fyrirmyndir Tarantinos fyrir hvora mynd fyrir sig. Fyrri myndin var lofgjörð leikstjórans til Kung-Fu mynda frá 7. áratugnum sem höfðu afar öfgakennt yfirbragð á köflum. Í seinni hlutanum er hann meira kominn í spagettívestrana og exploitation myndir sem höfðu hægara tempó og hrárri stíl. Hin margrómuðu Tarantino samtöl eru komin aftur og blóðbaðið verður sársaukafyllra og þýðingarmeira. Tvívíðar persónur eins og Buddy fá þriðju víddina og lokauppgjörið er mjög súrsætt og afar vel hannað.
Að mínum dómi betri helmingur sögunnar og önnur besta mynd Tarantinos á eftir Pulp Fiction.
4. The Incredibles
“So now I am in deep trouble. I mean one more jolt of this death ray and I am an epitaph. Somehow I manage to find cover, and what does Baron von Ruthless do? He starts monologuing! He starts like this prepared speech about how feeble I am compared to him, how inevitable my defeat is, how the world will soon be his.”
Jebb, það er tölvuteiknimynd sem vermir 4. sætið á þessum lista.
Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af tölvugerðum teiknimyndum, hefur þær alltaf skortað ákveðna einlægni og sál sem maður fann í mörgum hefðbundum teiknimyndum. Það er að segja þangað til ég sá samvinnuverkefni leikstjórans Brad Bird og teiknifyrirtækisins Pixar.
Ofurhetjumyndirnar eru að snúa aftur sterkari en nokkru sinni fyrr með hjálp mynda eins og Spider-Man og X-Men (og framhöldum þeirra). Ofurhetjumyndir eru farnar að taka sig alvarlega, eða eins alvarlega og maður getur tekið sig íklæddur litríkum spandexbúning, og fólk er byrjað að kaupa það og það sem fólk er tilbúið að kaupa er Hollywood tilbúið að selja.
Ég hef reyndar ekki fengið nema rúma 24 tíma til að melta gripinn þegar þessi orð eru rituð, en ég mun þó ganga svo langt að segja að The Incredibles sé besta ofurhetjumynd sem ég hef séð (fyrir utan kannski Unbreakable en hún er ekki alveg að koma frá sömu bæjardyrum). Það sem Bird og Pixar tekst að gera er að skapa einlæga mynd af ofurhetjufjölskyldu í venjulegum heimi án þess að taka sig of alvarlega, og þó líka án þess að fara hringinn og gera grín að sjálfum sér. Hún er vissulega skilgreinanleg gamanmynd en þó alveg jafn hæf sem ævintýra-, hasar og fjölskyldumynd. Bara allur pakkinn og meira til. Hef líklegast ekki skemmt mér jafn vel í bíó á þessu ári.
5. 21 Grams
“How many lives do we live? How many times do we die? They say we all lose 21 grams… at the exact moment of our death. Everyone. And how much fits into 21 grams? How much is lost? When do we lose 21 grams? How much goes with them? How much is gained? How much is gained? Twenty-one grams. The weight of a stack of five nickels. The weight of a hummingbird. A chocolate bar. How much did 21 grams weigh?”
Þetta er ekki auðveld mynd og hún ætlar sér ekki að vera það. Þetta er köld, grimmileg sýn á hvernig skelfileg atburðarrás og heimskulegar ákvarðanir geta rústað tilveru manns. Mexíkóinn Alejandro González Inárritu skapar hér ásamt handritshöfundinum Guillermo Arriaga ótrúlega beitta og sundurtætta sýn á líf nokkurra einstaklinga á afar mismunandi stöðum í lífinu og sýnir okkur hvernig tilverur þeirra tvinnast svo saman í gegnum einn skelfilegan atburð. Þetta er að mörgu leiti mjög svipuð frásagnaraðferð og í fyrri mynd þeirra, hinni framúrskarandi Amores Perros, en hér eru allt önnur þema í gangi. Inárritu veltir fram spurningum um trú, örlög, val og afleiðingar. Hvað býr í sál mannsins?
6. Before Sunset
“Memories are wonderful things, if you don't have to deal with the past.”
Þessi kvikmynd er eins tær og basísk og hægt er að ímynda sér. Tvær manneskjur að tala saman án tónlistar og nánast án afláts í um 1 og ½ tíma meðan þau ganga um götur Parísar. Ég sá aldrei fyrri myndina, Before Sunrise, en það skaðaði ekki. Ég hugsa að það hafi jafnvel verið betra að upplifa samband þeirra án þess að hafa neinar fyrirframákveðnar hugmyndir um það.
Eins og ég sagði áðan er kvikmyndin í raun eitt stórt samtal í rauntíma. Það að leikstjóranum og handritshöfundinum Richard Linklater hafi tekist að láta það virka án þess að gera myndina langdregna, leiðigjarna og einhæfa er í raun lítið kraftaverk og eitthvað sem ber að virða. Það sem Linklater tekst að gera er að skapa söguboga innan samtalsins þannig að það verður atburðarrás án þess að nokkuð sé í raun að gerast í efnisheiminum, aðalpersónurnar bókstaflega segja söguna. Þau byrja með hálf feimnislegu smalltalki, færa sig yfir í heimsmál, heimspeki og að lokum að hvoru öðru. Þau ljúga, verða sár, hlæja, brotna saman. Allar hliðar mannlegra samskipta endurspeglast í þessu einlæga samtali í ljósaskiptum Parísar. Áhorfandanum líður eins og flugu á vegg sem er þakklát fyrir að fá að flögra með og hlusta.
7. Big Fish
“There are some fish that cannot be caught. It's not that they're faster or stronger then the other fish. They're just touched by something extra."
Tim Burton er sérstakur. Það eru afar fáir leikstjórar í Hollywood sem að ég fylgist verulega náið með og reyni að kynna mér allt sem þeir eru að gera. Tim Burton er einn af þeim, og með myndir eins og Beetlejuice, Edward Scissorhands, Batman Returns (og Batman), Ed Wood, Nightmare Before Christmas (sem hann reyndar leikstýrði ekki) og Sleepy Hollow undir beltinu skal engan undra. Hugur hans hefur náðargáfu sem aðeins Terry Gilliam og Jean-Pierre Jeunet jafna og eru mestu flopp hans jafnvel ánægjuleg að einhverju leiti. Big Fish er hinsvegar ekkert flopp.
Big Fish fjallar um listina að segja sögu, tækni sem ekki er á hvers manns færi. Ed Bloom hefur sagt sögur allt sitt líf, sögur með sjálfan sig í aðalhlutverki. Hann segir frá ævintýrum sínum sem ungum manni og hvernig hann fann ástina, allt saman kryddað ríkulega. Í sögum hans eru risar, dvergar, hættulegur skógur, furðulegur bær, ótrúleg kraftaverk og auðvitað risavaxinn fiskur. Ed segir svo mikið af sögum að hann hefur misst sambandið við son sinn sem telur hann lygara, en þegar Ed fær krabbamein og er dauðvona reynir sonurinn að komast að því hver faðir hans var í raun og veru og hvað var satt í öllum þessum sögum.
Margir hafa líkt þessari mynd við Forrest Gump, en því er ég ekki sammála. Hún sver sig mikið frekar í ætt við Lygasögur Munchausens sem margir lásu í æsku (eða sáu kvikmynd Terry Gilliam). Big Fish skoðar mýtólógíur og gildi þeirra í lífum okkar. Við erum umkringd sögum allt í kringum okkur. Bækur eru sögur. Kvikmyndir eru sögur. Tónlist segir sögu og málverk segja sögur. Við hlustum á frásagnir annara og meira að segja trúarbrögð okkar eru byggð á dæmisögum og mýtum.
Will Bloom vill vita hver faðir sinn er, strípa í burtu allar lygarnar úr sögunum, en væri hann þá einhverju nær þeirri persónu sem faðir hans er? Býr persónan ekki jafn mikið, eða meira í þeim sögum sem hann segir, burt séð hvort þær gerðust akkúrat eins og frá er sagt? Það að segja góða sögu er list og eins og Picasso mælti einusinni svo viturlega: “List er lygin sem sýnir okkur sannleikan”
8. Collateral
“Okay, look, here's the deal. Man, you were gonna drive me around tonight, never be the wiser, but El Gordo got in front of a window, did his high dive, we're into Plan B. Still breathing? Now we gotta make the best of it, improvise, adapt to the environment, Darwin, shit happens, I Ching, whatever man, we gotta roll with it.”
Hverjum hefði dottið í hug að Jamie Foxx ætti raunhæfan möguleika að fá tvær tilnefningar til óskarsverðlauna sama árið fyrir tvær mismunandi myndir þegar maður sá hann í Bootycall árið 1997? Það er allavegana að gerast núna eins fáránlega og það kann að hljóma. Annarsvegar fyrir túlkun sína á Ray Charles sem ég hef ekki enn séð, og hinsvegar fyrir Michael Mann myndina Collateral sem endar í 8. sæti á þessum lista mínum.
Foxx leikur leigubílstjórann Max. Max er venjulegur maður í venjulegu starfi sem hann hefur verið fastur í allt of lengi, en líf hans umturnast þegar hann tekur upp í óvenjulegan farþega, leigumorðingjan Vincent. Vincent þarf að stoppa á 5 mismunandi stöðum á einni nóttu í Los Angeles og Max á að keyra hann á milli. Myndin fjallar svo um samband þessara tveggja mjög svo ólíku manna sem hafa afar ólíka sín á lífið.
Michael Mann gerir ekki einfaldar myndir og Collateral er engin undantekning. Hún kann að virka einföld á yfirborðinu en það er mjög mikið í gangi undir húddinu. Myndin er á einu leveli sálfræðitryllir, á öðru hasarmynd en hún inniheldur einn allra flottasta skotbardaga ársins sem fer fram inn á afar nýmóðins næturklúbb. Á enn öðru leveli er hún sósjalgagnrýni á kuldaleg samskipti borgarinnar en í grunnin er hún alltaf karakterskoðun og samband tómhyggjumannsins Vincents og draumóramannsins Max er eitt það áhugaverðasta sem sést hefur í langan tíma.
Síðan skemmir ekki fyrir að myndin er mikið fyrir augað og hentar flúorlýstur stíll Manns afar vel fyrir hina stafrænu upptökutækni sem hann notar.
Kannski ekki besta mynd Michael Mann en sýnir vel hversu fjölhæfur hann er sem kvikmyndagerðarmaður.
9. Harry Potter and the Prisoner of Azkaban
“But you know happiness can be found even in the darkest of times, when one only remembers to turn on the light.”
Harry Potter er skítuga leyndarmálið mitt. Já, ég elska Harry Potter (þó á platónskan hátt). Ég hef lesið allar bækurnar…tvisvar. Þetta eru einfaldlega frábærar bækur sem draga mann aftur í barndóm og fá mann til að muna afhverju ævintýri voru svona skemmtileg.
Ég var aldrei sannfærður um kvikmyndun bókanna, sérstaklega þegar framleiðendur fengu bandaríkjamannin Chris Colombus til að leikstýra fyrstu myndinni. Ótti minn var að ýmsu leiti á rökum reistur. Á meðan fyrsta myndin var alls ekki léleg þá náði hún einhvernvegin ekki göldrum bókarinnar. Framleiðendur reyndu að troða allt of miklu að atburðarrás bókarinnar í myndina án þess að reyna að virkilega ná andanum á bak við hana. Seinni myndin var mun betri en samt ekki alveg eins góð og hún ætti að vera og nú er loksins þriðja myndin komin.
Í þetta skipti er kominn nýr leikstjóri, Alfonsi Cuarón, sem leikstýrði hinni framúrskarandi Y tu mamá También. Á pappírunum virðist þetta óvenjulegt val á leikstjóra fyrir ævintýramynd, en frægasta verk hans fjallar um uppgötvun kynlífs og ástar. Þegar betur er að gáð er valið nokkuð augljóst og lógískt og sést það í framkvæmd hans á þessari þriðju, og jafnframt langsamlega bestu Harry Potter mynd. Í þriðju myndinni er Harry nefnilega að komast á unglingsárin og byrjar að finna fyrir öllu því tilfinningalega óöryggi sem þeim fylgja, og á snilldarlegan hátt tekst Cuarón að gera þennan afar mannlega þátt að einu aðal þemanu í sögu sem fjallar að öðru leiti um galdra og aðra ævintýralega hluti. Allt er mikið mun þrívíðara í þessari þriðju mynd. Perónurnar eru þrívíðari, söguframvindan rökbundnari og meira að segja Hogwarts kastalinn og lóðir hans hafa fengið nýja vídd. Það er bersýnilegt hversu mikið meiri listamaður Cuarón er heldur en Columbus, en kvikmyndataka, lýsing, tæknivinna og tónlist eru með því allra besta sem sést hefur á árinu og tvinnar Cuarón þessu mikið betur saman en í fyrstu tveimur myndunum.
Til að útskýra aðeins betur hversu mikill listamaður Cuarón er þá ætla ég að segja smá sögu af sjálfum mér. Ein allra fyrsta kvikmyndin sem ég virkilega elskaði var Jurassic Park. Ég elskaði hana svo mikið að ég sá hana hvorki meira né minna en 6 sinnum í kvikmyndahúsi þegar ég var 9 ára gamall. Ein meginástæðan fyrir því að ég elskaði þessa mynd svona mikið var eitt atriði. Eitt lítið atriði sem hafði ekkert með söguframvindu kvikmyndarinnar að gera og ekkert með risaeðlur að gera. Þetta er mjög snemma í myndinni þegar allar aðalpersónurnar sitja saman í þyrlu á leið til eyjunnar sem geymir garðinn. John Hammond, hinn aldraði eigandi garðsins lítur út um gluggann á þyrluni með svip fullan aðdáunar og hvírslar “Ahh..There she is” og við heyrum fyrst frábæra tónlist Johns Williams á meðan við sjáum þyrluna fljúga í átt að þessari ótrúlega fallegu hitabeltiseyju. Þetta atriði sem er í raun ekkert merkilegt fyrir söguna er að mínum dómi dæmi um fullkomna kvikmyndagaldra þar sem allt kemur saman og mynda eina heild. Kvikmyndatakan er ótrúleg, landslagið ótrúlegt, tónlistin fullkomin og allt þetta gefur áhorfandanum til kynna að hann sé á leiðinni inn í einhvern óþekktan galdraheim.
Þið eruð ábyggilega að velta fyrir ykkur hvernig í fjandanum þetta tengist svo snilligáfu Cuarón og Harry Potter, en þannig er mál með vexti að það er nefnilega eitt svona atriði í Prisoner of Azkaban sem mér finnst einmitt ná þessum tæru kvikmyndalegu göldrum. Atriðið sem ég er að tala um er atriðið þegar Harry flýgur í fyrsta skipti á Hyppogriffnum Buckbeak sem er einhverskonar samblanda af hesti og erni. Þetta atriði hefur í raun mjög lítið að gera með söguframvinduna sjálfa, en hvernig það er kvikmyndað, hvernig tónlistin er og einfaldlega andrúmsloftið yfir því gefur því alveg ótrúlegan kraft og er eitt það eftirminnilegasta á árinu. Hefur ábyggilega haft svipuð áhrif á einhvern 9 ára strák út í heimi eins og atriðið í Jurassic Park hafði á mig.
10. Anchorman: The Legend of Ron Burgundy
“I'm a man who discovered the wheel and built the Eiffel Tower out of metal and brawn. That's what kind of man I am. Your just a woman with a brain a third the size of us men. It's science”
Will Ferrell er líklegast fyndnasti maður í heiminum. Það er mjög fátt sem þessi maður gerir sem ekki er fyndið. Anchorman vinnur seint nein óskarsverðlaun (sem er synd) en hún gerir það sem hún ætlar sér að gera afar vel. Öfgakennd karlremba, yfirvaraskegg og bartar frá 8. áratugnum og stór skammtur af fullkomnu bulli. Ekkert mikið meira sem þarf að segja um þessa mynd. Pissaði nánast á mig þegar ég sá hana og það nægir til að koma henni inn á þennan lista.
Næstu 5 inn á lista:
Shaun of the Dead, Spider-Man 2, Sky Captain and the World of Tomorrow, The Passion of the Christ og Bad Santa