Ár: 1998
Lengd: 103 mín.
Leikarar: Jim Carrey, Ed Harris, Laura Linney, Noah Emmerich, Natascha McElhone.
Handrit: Andrew Niccol
Leikstjórn: Peter Weir
Einkunn á IMDB: 7,7
** SPOILER **
Í þessari grein ætla ég að fjalla um efni myndarinnar, pælingar í henni o.fl. þannig að ef þú hefur ekki séð The Truman Show, horfðu undan NÚNA og drífðu þig út á leigu að taka hana.
The Truman Show fjallar um mann sem allt sitt líf hefur óafvitandi verið aðalpersóna raunveruleikaþáttar, Truman (Carrey). Höfundur þáttarins, Christof (Harris), hefur byggt utan um Truman heilan bæ og allir nema Truman eru ráðnir leikarar. Truman hefur lifað í rúmlega þrjátíu ár í þeirri blekkingu að hann lifi í “alvöru” heimi (kem að því á eftir). Röð atburða fara svo að láta hann halda að eitthvað sé bogið við þetta allt og smátt og smátt áttar hann sig á hvað þetta gengur út á.
The Truman Show fjallar í tveimur orðum um eðli mannsins. Búinn hefur verið til heimur utan um Truman í myndinni sem er fullkominn; Truman fær allt upp í hendurnar: hús, starf, konu og fjárhagslegt öryggi. Þetta segir okkur líka sitthvað um Christof. Hann sýnir mjög lítinn persónuleika í myndinni og bendir það e.t.v. til að hann hafi átt erfiða æsku, ekki átt mikið af vinum o.þ.h. og þegar hann fékk þessa hugmynd heltók Truman líf hans. Svo virðist sem Christof hafi gefið Truman allt sem að hann fékk aldrei og hafi einsett sér það í lífinu að láta Truman ganga vel.
Í lokin þegar Truman kemst loks úr þessum tilbúna heimi er þeirri spurningu varpað fram hvort “raunveruleikinn” sé eitthvað “raunverulegri” en heimur Trumans. Úti í hinum stóra heimi eru sömu lygarnar, sömu blekkingarnar nema í heimi Trumans hefur hann fullkomið líf. Af hverju er eitthvað betra að lifa í hinum stóra heimi? Er hann betri út af því að hann er “raunverulegri”? Þá er kannski spurning: “Hvað er raunverulegt?” og þeirri spurningu er ekki auðsvarað. Hver og einn verður að gera upp við sig hvernig hann/hún túlkar þetta.
Einnig er gaman við myndina hversu snilldarlega allt er framkvæmt í þessum heimi; þegar þessi mistök fara að gerast (Truman heyrir í talstöðvunum, ljóskastarinn dettur niður, þegar hann fer í lyftuna o.fl.) er alltaf forsíðufrétt á næsta blaði til að redda því. Einnig er mjög gott hvernig þau létu hann óttast vatnið strax frá byrjun með því að drekkja pabba hans þar. ÞEgar hann fer svo á ferðaskrifstofuna til að kaupa flugmiða til Fiji er stórt plakat með mynd af eldingu hitta flugvél og á stendur: “It could happen to you”. Allt er gert til að fá hug Trumans af því að fara burt.
Svo fór ég að pæla eftir myndina af hverju menn höfðu heim Trumans alveg eins og heiminn úti. Það hefði mátt komast hjá mörgum af þessum vandamálum með því að ljúga að Truman að Seahaven væri eina meginlandið í heiminum; búa til nýjar kennslubækur , ný landakort o.s.frv. Þetta gæti hljómað fáránlega í eyrum okkar en Truman var í þessum þætti frá fæðingu og hann lærir náttúrulega það sem fyrir honum er haft þannig að það ætti ekkert að vera erfitt að breyta aðeins staðreyndum. Eina vandamálið sem gæti virkilega skapast er að leikararnir skyldu ruglast en þetta fólk fær nú borgað fyrir þetta þannig að það ætti alveg að reddast.
Í lokaatriðinu í myndinni eftir að Truman kemst út sjást tveir dyggir áhorfendur sem eru bílastæðaverðir eða eitthvað eftir að útsending hefur rofnar. Hvað gerist þegar andlitið sem þeir hafa eytt 30 árum í að horfa á hverfur allt í einu af skjánum? Þeir einfaldlega snúa baki við honum og athuga hvað annað sé á dagskrá. Á svipstundu er Truman gleymdur og grafinn. Þetta er vissulega ádeila á fjölmiðlaþjófélag nútímans og mannlegt eðli almennt.
Í þessari grein hef ég reynt að kryfja aðeins hugsjónina á bak við The Truman Show og þar sem ég er sjálfur mikill aðdáandi myndarinnar vona ég að ég hafi gert henni gott.
Takk fyri