Fyrr í dag ákváðum við vinirnir að skella okkur í bíó. Fyrir valinu varð myndin Paparazzi. Ég bjóst ekki við miklu af þessari mynd en ég ákvað að fara með jákvætt hugarfar á hana. Þó svo að ég hafi verið mjög opinn og jákvæður fyrir myndinni gat ég ekki varist hlátri yfir ja…flestum atriðum myndarinnar.
Ég ætla að byrja á handritinu, en það var skrifað af Forrest Smith og var þetta frumraun hans. Ég er ekki viss um að þessi maður ætti að halda áfram við gerð handrita því að þetta handrit var eitt af þeim verstu sem ég hef séð. Samræðurnar voru hreint út sagt hlægilegar á köflum og ákaflega leiðinlegar.
Myndinni leikstýrði Paul Abascal en hann hefur einnig leikstýrt stökum þáttum en þess má einnig til gamans geta að hann vann einnig frábært starf sem hárstýlisti við myndina Judge Dredd. Ég get því miður ekki sagt að hann hafi staðið sig vel, því að hann gerði það bara alls ekki. Hann var eins og flestir þeir sem komu við gerð þessarar myndar alveg út á þekju.
Leikurinn í myndinni var alveg arfaslakur og ég kenni leikstjórninni nú líka svolítið um það. Þrátt fyrir slæman leikstjóra og meðleikara var einn maður sem stóð sig ótrúlega vel miðað við aðra en sá maður heitir Dennis Farina. Hann var að mínu mati eini leikarinn sem sýndi eitthvað af viti og í raun eini ljósi punktur myndarinnar. Aðrir leikarar léku alveg hrottalega illa. Tom Sizemore lék alveg rosalegalega ýkt og var hreint út sagt slakur. Það sama má segja um Daniel Baldwin sem var einstaklega lélegur. Cole Hauser sem leikur aðalhlutverkið var skárri að mér fannst en þó ekki nógu góður til að halda myndinni uppi, var frekar slakur. Leikurinn var rosalega ýktur og leiðinlegur en eins og áður sagði fær Dennis Farina plús fyrir að vera sá eini sem gat eitthvað.
Tónlistin var eins og allt annað í þessari mynd getur vart talist góð. Í myndinni heyrðust rapp, teknó og rokklög og voru öll jafn léleg og leiðinleg. Ekki mikið að segja um tónlistina nema það að hún var hrottalega léleg.
Myndatakan var ágæt, það er að segja hefðum við verið að horfa á þátt af “Bold and the beautiful”. Mjög óáhugaverð myndataka og alls ekki góð.
Myndin fjallar um ungan leikara sem skýst snögglega upp á stjörnuhimininn og kann ekki að höndla fjölmiðlana nógu vel og á erfitt með að hemja skap sitt í samskiptum við þá.
Hann endar svo á því að ráðast á einn þeirra sem náði að taka það upp (í gegnum bílhurð með engum gluggum á sem ég var ekki alveg að skilja) og hefur út úr honum mikinn pening. Ljósmyndarinn sem um ræðir heldur svo áfram með félögum sínum að “harassa” hann, svo fara morð að flækjast inn í þetta og rannsóknarlögreglumaðurinn Burton (Dennis Farina) hefur rannsókn á málinu.
Myndin fær eintóma mínusa hjá mér fyrir utan Dennis Farina og Mel Gibson sem var einn af ljósu punktum myndarinnar. Ef þig langar að hlægja að lélegri mynd þá ættirðu að fara á þessa en ég get ekki ábyrgst að þú verðir ánægður með það hvernig þú eyddir þeim 800 kr.
Einstaklega léleg mynd og fær hjá mér */****.