1. Marlon Brando sem Don Vito Corleone í Godfather 1 (1972). Trónar á toppnum og á það fyllilega skilið. Ég á ekki til lýsingarorð til að lýsa frammistöðu Brandos, hann var bara fullkominn í þessu hlutverki og það er engu nær en að Mario Puzo hafi skrifað bókina með því fyrir augum að Brando væri í aðalhlutverki því hann fellur eins og flís við rass í hlutverkið. Fékk Óskar fyrir frammistöðuna enda hefði annað verið hneyksli. “I'll make him an offer he can't refuse” er talinn ein frægasta setning í kvikmynd fyrr og síðar sem Brando sagði í myndinni. Marlon Brando var tilnefndur 8 sinnum til Óskars á löngum kvikmyndaferli og vann tvisvar. Það eitt sem margt um hæfileika mannsins. Brando dó núna í júlí.
2. Anthony Hopkins sem Hannibal Lecter í Silence of the Lambs (1991). “Váá!!!” er það eina sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um Hopkins í hlutverki Mannætunnar. Maður getur ekki annað en hrifist af frammistöðu Hopkins í myndinni enda alveg hreint frábær frammistaða. Enginn hefði getað plummað þetta hlutverk eins og Hopkins gerði. Hann skapaði goðsögn, nafn og andlit, sem enginn mun gleyma. “A census taker once tried to test me. I ate his liver with some fava beans and a nice chianti,” þessi setning segir margt um hvernig persóna Hannibal Lecter er. Frábær karakter.
3. Jack Nicholson sem McMurphy í One Flew Over the Cuckoo's Nest (1975). Maðurinn á þvílíkan feril að baki, m.a. þrjár Óskarsstyttur og 12 tilnefningar, og hefur ekki í eitt skipti klikkað. Í þessari mynd gerði hann allt rétt. Leikur smáglæpamann sem gerir sér upp geðveiki, lendir í framhaldinu á geðveikrahæli og þarf að leika sig geðveikan til að sleppa við fangelsisvist. Óborganleg mynd sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Nicholson vann til Óskars fyrir frammistöðuna.
4. Al Pacino sem Don Michael Corleone í Godfather 2 (1974). Pacino var mjög góður í fyrri myndinni og fékk líka Óskarstilnefningu fyrir hana en í mynd númer 2 er hann enn betri, nánast fullkomin. Svipurinn, þessi illska sem býr í svipnum, er hreint út sagt ótrúlegur. Skemmtilegt að sjá hvernig illskan nær smátt og smátt tökum á Michael Corleone. Munurinn á Michael á myndunum tveimur er ótrúlega mikill, í fyrri myndinni er hann saklaus mafíósasonur sem fæddist inn í ranga fjölskyldu en í seinni myndinni er hann ekkert nema illskan uppmáluð. Ég tel leikinn í Godfather 2 bestu frammistöðu Pacinos á ferlinum og þá hlýtur frammistaðan að vera virkilega góð því hann hefur aldrei klikkað.
5. Al Pacino sem Frank Slade í A Scent of a Woman (1992). Leikur blindan mann, fyrrverandi foringja í bandaríska hernum, skapvondan og tilfinningalausan eiginhagsmunasegg. Í lokaatriðinu í myndinni þar sem Pacino heldur u.þ.b. 5 mínútna ræðu, að ég held í einni töku, fékk ég einhverja mestu gæsahúð sem ég hef nokkurn tímann fengið. Ekki skrýtið að Pacino hafi unnið Óskarinn fyrir þetta hlutverk, það hefði verið fráleitt að ganga framhjá honum í enn eitt skiptið.
6. Tom Hanks sem Forrest Gump í samnefndri mynd (1994). Frábær frammistaða hjá meistaranum og Hanks gæðir persónuna Forrest Gump svo miklu lífi að hans verður minnst um ókomin ár. Þegar Forrest grætur yfir gröf konu sinnar og talar hreint út til hennar í nokkrar mínútur, algjörlega óklippt taka, og setningin: “If there's anything you need…” vá, þá fer ég næstum í hvert skipti að væla eins og smástelpa. Geri aðrir betur. “Life is like a box of chocolates; you never know what you're gonna get” er ein af mörgum frægum setningum í þessari mynd. Tom Hanks uppskar Óskar fyrir frammistöðuna, annað árið í röð og skákaði ekki ómerkari mönnum en Morgan Freeman og John Travolta.
7. Robert DeNiro sem Travis Bickle í Taxi Driver (1976). Það er ekki hægt að gera marktækan kvikmyndalista án þess að hafa Robert DeNiro á honum, maðurinn er snillingur. “You talkin' to me? You talkin' to me? You talkin' to me? Then who the hell else are you talkin' to? You talkin' to me? Well, I'm the only one here. Who do the fuck do you think you're talking to? Oh, yeah? Ok. Huh?.” Algjör klassík og eitt frægasta atriði kvikmyndasögunnar. Myndin sem skaut DeNiro upp lengst upp á toppinn og fékk hann Óskarstilnefningu fyrir. Hann hefði átt að vinna. Margir telja frammistöðu DeNiros í Raging Bull hans bestu frammistöðu en í Taxi Driver vann hann leiksigur, algjörlega upp á eigin spýtur og gerði það með glæsibrag. Skylduáhorf.
8. Adrien Brody sem Wladyslaw Szpilman í The Pianist (2002). Annar eins leikur hafði ekki sést í áraraðir. Svakalega kom hann á óvart. Alls ekki frægur fyrir myndina og brilleraði svona svakalega í bestu mynd síðasta árs og uppskar Óskarsverðlaun fyrir vikið, yngsti karlmaður frá upphafi, aðeins 29 ára til að vinna Óskar fyrir aðalhlutverk. Endalaust flottur á Óskarsverðlaunahátíðinni þegar hann kyssti Halle Berry beint á munninn fyrir framan milljónir manna, þ.á.m. eiginmann hennar. Og hún virtist fíla það í botn. Þeir sem hafa ekki séð The Pianist, skulu fara strax um helgina og leigja myndina. Þessi mynd ætti að vera kennsluefni um Seinni heimsstyrjöldina.
9. Dustin Hoffman sem Raymond Babbit í Rain Man (1987). Leikur einhverfan mann og gerir það óaðfinnanlega. Hoffman klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Skólabókardæmi hvernig leika á þroskaheftan mann. Sean Penn bliknar í samanburði í myndinni I am Sam miðað við Hoffman. Fékk Óskar fyrir frammistöðuna.
10. Al Pacino sem Tony Montana í Scarface (1983). Í þriðja sinn á þessum lista. Frábær frammistaða hjá Pacino enda ekki við öðru að búast af svo góðum leikara. Leikur þarna svipaðan karakter og í Godfather 2, illan og gráðugan eiturlyfjabarón sem svífst einkis. Það má segja að 8. áratugurinn hafi verið áratugur Al Pacinos því hann lék í hverri gæðamyndinni á fætur annarri og stóð sig í hvert einasta skipti óaðfinnanlega. Ef ég man rétt, þá var hann tilnefndur til Óskars fjögur ár í röð: 1973, ‘74, ’75, ‘76 og svo aftur ’79. Hann vann ekki, enda samkeppnin mjög hörð, m.a. Jack Nicholson í ein þrjú ár og fleiri öflugir kappar.
11. Jack Nicholson sem Jack Torrance í The Shining (1980). Þvílík frammistaða. Þessi mynd mun alltaf lifa sem ferlega góður spennutryllir og frammistaða Jacks verður lengi í minnum höfð. Þegar myndin kom út fékk hún arfaslaka dóma gagnrýnenda og fékk myndin hræðilega útreið. Í dag þykir hún brilliant og The Shining er ein mín uppáhalds mynd. Snilld að sjá persónu Jacks verða geðveika smátt og smátt. Engin hefði getað þetta betur en Jack sjálfur. Maðurinn átti skilið að fá tilnefningu að minnsta kosti. Að sjálfsögðu átti hann bara að vinna. Akademían eitthvað orðin pirruð á honum því hann var nánast orðinn áskrifandi að tilnefningum á þessum tíma. “Here's Johnny” er eitt frægasta atriði allra tíma og Jack á víst að hafa búið þessa setningu til í tökunni sjálfri. Sem betur fer var atriðið ekki klippt út.
12. Daniel Day-Lewis sem Christy Brown í My Left Foot (1989). Lék fjölfatlaðan mann og gerði það snilldarvel. Uppskar Óskarsverðlaun og átti það meira en lítið skilið. Day-Lewis yfirleitt skotheldur en þarna negldi hann það af alvöru. Maður sér alltof lítið af Day-Lewis, hann er víst mjög sérvitur og hefur ekkert gaman af því að leika segir hann sjálfur. Miðað við hvernig hann alltaf leikur, á ég erfitt með að trúa því. Ég fullyrði hér með að Daniel Day-Lewis er einn besti leikari samtímans og ég vona svo sannarlega að hann leiki í fleirum myndum.
Þetta eru þær frammistöður sem standa helst uppúr að mínu mati. Það voru nokkur nöfn sem voru á tímabili inn á listanum sem þurftu því miður að detta út og þar get ég nefnt helst Morgan Freeman og Tim Robbins fyrir The Shawshank Redemption, Johnny Depp fyrir Edward Schissorhands, Mel Gibson fyrir Braveheart, Peter Sellers fyrir Dr. Strangelove en í þeirri mynd lék hann þrjú hlutverk og gerði það eins og honum var einum lagið, Robert DeNiro fyrir Raging Bull, Jim Carrey fyrir The Truman Show og að lokum Kevin Spacey fyrir The Usual Suspects.
Einnig hef ég lesið margoft að Ben Kingsley hafi verið magnaður sem Gandhi í samnefndri mynd en því miður hef ég ekki séð hana. Ben Kingsley er frábær leikari og hver veit nema hann hefði átt heima á listanum. Svo telja margir að F. Murray Abraham hafi sýnt stórleik í myndinni Amadeus en ég hef því miður ekki séð hana, enn sem komið er og Marlon Brando á víst að hafa verið bestur í On the Waterfront en ég hef ekki séð hana. Tæplega betri en í The Godfather. Ég verð líka að taka það fram að ég á eftir að sjá þónokkuð af gömlu myndunum, t.d. margar myndir með Humphrey Bogart, Cary Grant og Kirk Douglas, leikarar sem margir töldu bestu leikara síns tíma.
Þá er minn listi kominn og ég er mjög sáttur við hann. Hvernig er ykkar listi, ef þið hafið lista??
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.