Unforgiven (1992) Unforgiven

Unforgiven er vestri leikstýrður af einum vinsælasta leikara og leikstjóra allra tíma, Clint Eastwood. Maðurinn hefur verið í miklu persónulegu uppáhaldi hjá mér síðan ég byrjaði að horfa á kvikmyndir af krafti. Nánar tiltekið fyrir um það bil fjórum árum eftir að félagi minn kynnti mig almennilega fyrir kvikmyndalistinni. ‘Clinturinn’ eins og við félagarnir köllum hann oft á tíðum hafði verið, og er enn í miklu uppáhaldi hjá honum. Þessi félagi minn fékk mig til að horfa á spaghetti-vestrana eftir Sergio Leone sem Clint lék einmitt í og fór á kostum. Ég elskaði myndirnar eftir þetta og hef horft á þær reglulega síðan. Ég fór að horfa meira á kallinn og sá hann og dýrkaði í Dirty Harry, þar sem honum var leikstýrt af Don Siegel. Don hafði leikstýrt honum áður og átti eftir að gera það oftar, og var samstarf þeirra frábært.

Svo fór síðan að Sergio Leone dó árið 1989 og svo tveimur árum seinna lést Don Siegel. Þarna á stuttum tíma fóru frá honum tveir leikstjórar og félagar sem hann hafði átt gott samband við, svo hann ákvað að gera mynd til heiðurs þeim, en sú mynd var einmitt Unforgiven, og sjást mikil áhrif koma frá leikstjórunum tveimur í myndinni.

Myndin fjallar um fyrrum morðingja og drykkjumann að nafni William Munny ( Clint Eastwood). En hann hafði hætt öllum glæpum eftir að hann giftist konu sinni, hún ól með honum þrjú börn og ráku þau saman bóndabýli. Svo fór síðan að kona hans dó og hann reyndi að halda sínu striki eftir það. Það gengur ekki allt sem best og á hann í miklum fjárhagsvandræðum, búskapurinn gekk ekki alltof vel. Dag einn birtist síðan til hans ungur maður eða ‘The Schofield Kid’ (Jamis Woolvett) eins og hann er kallaður. Hann vill fá Munny til að koma með sér í verkefni sem felur í sér að finna og drepa menn sem höfðu rústað, eða skorið hóru. Munny samþykir það að lokum með því að skilyrði að gamli félagi hans Nedon Logan (Morgan Freeman) fengi að koma með, og fái hluta af fénu sem þeir myndu fá fyrir að drepa mennina. Svo fer þannig að þeir þrír fara saman í þennan leiðangur. Inn í söguna flettast svo ‘Little Bill’(Gene Hackman) sem er lögreglustjóri í bænum sem að hóran býr í og ‘English Bob’ ( Richard Harris) sem er einstaklega skemmtilegur karakter. Breti og mikill byssumaður með Englandsdrottninguna á heilanum.

Myndin er mjög raunsæ og er alls ekki þessi týpískri vestri, þó svo að hann byggst á þessum vanalegu ‘vestra-karakterum’, það er að segja glæpamönnunum og löggunni. Í myndinni er farið mun dýpra í persónurnar og meira í tilfinningar þeirra heldur en oftast. Munny og Logan pæla mikið í því að hvort að þegar á hólminn er komið, að þeir hafi í rauninni kjarkinn í að drepa mennina, að taka mannslíf. Þetta var ekki mikið mál fyrir þá á yngri árum en þá gerðu þeir þetta alltaf undir áhrifum áfengis. Þeir eru orðnir breyttir menn og efast mjög um hvort þeir gert þetta. Þessari og fleirum siðferðisspurningum er varpað fram og persónurnar velta þeim fyrir sér.. Byssuatriðin eru annað sem gerir myndina svo raunverulega en þau eru frábær. Ef þú færð færi á að skjóta skotmarkið í bakið án þess að það taki eftir gerirðu það, en bankar ekki í öxlina á fórnarlambinu og býður í einvígi þar sem meiri líkur er á því að þú deyir. Að berjast sanngjarnt er ekki málið þarna.

Clint Eastwood stendur sig að vana frábærlega í leikstjórahlutverkinu, enda fékk hann óskarinn fyrir leikstjóravinnu sínu að þessari mynd, einnig var hann tilnefndur fyrir leik í aðalhlutverki. Leikstjórnunarstíll hans finnst mér yfirleitt mjög hversdagslegur og einkennist af lítilli en þó góðri tónlistarnotkun og hlédrægri kvikmyndatöku. Einnig fær hann í lang flestum tilvikum það besta út úr leikurunum og er nýjasta dæmið um það myndin Mystic River sem er einstaklega vel leikin. Annað dæmi um það er frammistaða Jamis Woolvett í hlutverki Schofielfd Kid, en hann stendur sig mjög vel en virðist aldrei aftur hafa náð sér almennilega á strik og hefur ekki leikið í neinu allt of góðu síðan.

Myndin er mjög vel leikin enda samansafnaður hópur af reyndum og góðum leikurum hér á ferð. Gene Hackman er frábærari en flestir og fékk góða umbun fyrir það á Óskarsverðlaunahátíðinni.

Myndin hlaut alls fjögur óskarsverðlaun en þau voru fyrir túlkun Gene Hackman á Litla Bill, bestu myndina og klippingu, sem Joel Cox sá um og áðurumtöluð verðlaun sem Eastwood fékk fyrir leikstjórn.

Þegar allt er tekið saman er þetta frábær mynd og fær frá mér þrjár og hálfa stjörnu af fjórum mögulegum og mæli eindregið með því að fólk kíki á hana og annað efni með ‘Clintinum’.