Donnie Darko
Leikstjóri: Richard Kelly
Aðalhlutverk: Jake Gyllenhaal, Maggie Gyllenhaal, Jena Malone, Holmes Osborne, James Duval.
Einkunn á IMDB: 8.2 (91. vinsælasta mynd sögunnar)
Í þessari grein ætla ég að fjalla um þann gimstein af mynd sem Donnie Darko er og heimspekina í henni. Ég ráðlegg þeim sem hafa ekki séð hana að drífa sig sem fyrst út á leigurnar og taka hana og lesa síðan greinina.
Donnie Darko, titilpersóna myndarinnar, er ungur drengur í andlegu ójafnvægi sem er í high-scool í Bandaríkjunum. Hann kemur áhorfandanum fyrir sjónir sem mjög drungaleg, flókin persóna sem á bersýnilega við alvarleg, geðræn vandamál að stríða. Á morgnana vaknar hann stundum einhvers staðar úti langt frá sínu heimili og veit ekkert hvert hann komst þangað. Í eitt þessara skipta lendir flugvélahreyfill á húsi hans sem fer í gegnum herbergið hans og hefði lent á honum ef hann hefði legið í rúminu sínu. Hreyfillinn virðist hins vegar hafa bara birst á himninum, því restin af flugvélinni finnst aldrei. Stuttu eftir þetta atvik fer Donnie að heyra raddir og kanína í mannsformi að nafni Frank segir honum að heimurinn muni enda eftir 4 vikur.
Hreyfillinn sem lendir á húsi Donnie átti að hafna á honum. Við það að þetta gerist ekki missir hreyfillinn tilgang og því verður til það sem kallast “tangent universe” (veit ekki hvernig ég á að þýða þetta) sem fellur saman 28 dögum seinna fái hreyfillinn ekki tilgang á þeim tíma.
Donnie hefur sem sagt afdrif heimsins á herðum sér og til að aðstoða hann að skilja þetta hefur hann Frank og síðar kærustuna sína Gretchen. Eins og kemur fram í myndinni deyja þau bæði en þau eru það sem kallast “the manipulated dead” og hafa það hlutverk að leiðbeina og styðja Donnie í að uppfylla hlutverk sitt. Nánast allir hinir í kringum hann eru “the manipulated living” og gegna svipuðu hlutverki og Frank og Gretchen.
Donnie er mjög dökk persóna og gerir Jake Gyllenhaal mjög vel í túlkun sinni á honum. Spurning er hvort Richard Kelly lítur á Donnie sem einhvers konar yfirnáttúrulega veru, einhvers konar frelsara. Til stuðnings því má nefna atriðið þegar Frank spyr Donnie: “Why are you wearing that stupid man-suit?” sem bendir til þess að ef til vill sé hann æðri en svo og þessi mannlega ásjóna hans sé bara gervi. Hann virðist einnig geta stjórnað vatni, eins og þegar hann flæðir skólann. Hann hefði svo sem getað gert það án þess að stjórna vatninu beinlínis en annað atriði í myndinni styður þessa kenningu. Það er mjög lúmsk vísbending eitt sinn þegar Donnie labbar framhjá garði og garðúðarnir fara af stað um leið og hann fer framhjá. Síðan þegar hann er kominn framhjá þeim hætta þeir um leið. Einnig virðist hann vera gæddur gríðarlegum styrk, sbr. þegar hann skilur eftir sig öxina í bronsstyttunni fyrir framan skólann sem á að vera ógerlegt að höggva í. Að lokum má benda á að hann bjargar náttúrulega heiminum að lokum.
Með tímanum fer Donnie að fræðast um tímaflakk og nýtur þar stuðnings Franks og efnafræðikennarans síns (manipulated living). Í lok myndarinnar drepur Frank (á meðan hann var ennþá lifandi) Gretchen og eftir það skýtur Donnie Frank. Donnie áttar sig á að hann getur bjargað Gretchen með því að ferðast aftur í tímann og liggja í rúminu þegar hreyfillinn hittir húsið hans og þar með deyja. Rétt áður en hreyfillinn drepur svo Donnie sér maður hann brosa og er það örugglega út af því að hann veit að ef hann deyr munu þau Gretchen aldrei hittast og hún gæti lifað sínu lífi óáreitt.
Eftir að hreyfillinn drepur Donnie kemur Mad World-atriðið þar sem allir “manipulated living og manipulated dead” vakna sem við vondan draum og muna allt sem hefur gerst í einhvers konar draumaformi. Síðan hjólar Gretchen fram hjá slysstaðnum og kemst að því að Donnie hafi dáið en hún þekkir hann ekki. Samt þegar hún sér mömmu hans fær hún það undarlega á tilfinninguna að þær þekkist og er það frábært atriði þegar þær vinkast svo til sjálfkrafa og eru báðar mjög ringlaðar.
Þetta eru auðvitað bara pælingar og enginn heilagur sannleikur. Þetta voru bara mínar skoðanir en mér fannst þörf fyrir að eitthvað slíkt kæmi inn á Huga. Ef þið hafið einhverju við að bæta, endilega gerið það.