Blindsker: Saga Bubba Morthens er heimildarmynd um hinn merka tónlistarmann Bubba Morthens og hans langa feril. Myndin er hugmynd Ólafs Páls Gunnarssonar en leikstjóri er Ólafur Jóhannesson.
Ég sá þessa mynd núna áðan (7. október 2004) á forsýningu. Þarna var mikið af “frægu fólki” s.s Bubbi, Ómar Ragnarsson og fleiri góðir.
Myndin segir sögu Bubba á skemmtilegan hátt, hún er vel tekin og klippt og vel unnin í alla staði. Eitt þótti mér að, það var að ekki er nógu mikil tónlist eftir Bubba spiluð undir. Það er fróðlegt að heyra hann segja frá uppvexti sínum, vandarmálunum með drykkfeldan pabba sinn, hvenær hann fékk sinn fyrsta gítar og svo framvegis.
Það er greinilegt að hann hefur átt það erfitt, mikið drukkið og dópað, hann reykti víst hass daglega í 18 ár, var háður kóki og er heppinn að vera ekki dauður að mínu mati, er jafn lífsseigur og Ozzy Osbourne.
Hann hefur gert mörg góð lög í gegnum árin og verið í mörgum góðum hljómsveitum, helst ber að nefna Utangarðsmenn og Egó sem er ein uppáhalds íslenska hljómsveitin mín.
Myndin er mjög hreinskilin, það er ekki verið að sykurhúða hann, hann er ekki gerður að einhverri ómannlegri hetju, eins og er oft gert í heimildarmyndum.
Niðurstaða mín er sú að Blindsker: Saga Bubba Mortens er mjög góð mynd og skilduáhorf fyrir alla Bubba aðdáendur og áhugamenn um íslenska tónlist yfir höfuð. ***