1 - Fight Club
Það eru hvorki fáar né einfaldar ástæður fyrir því að þessi kvikmynd endaði á toppnum á þessum lista. Sem kvikmyndaáhorfandi og unnandi eru margir þættir sem ég skoða í kvikmynd sem hafa áhrif á viðbrögð mín við henni og móta síðan mína skoðun. Fight Club er ekki þarna af því að mér fannst slagsmálaatriðin kúl, af því að kvikmyndatakan, klippingin og lýsing er ólýsanlega flott, eða út af óumdeildri platónskri ást minni á öllu því sem tengist David Fincher, Brad Pitt og Edward Norton.
Enginn einn þáttur gerir þessa mynd bestu mynd sem ég hef séð heldur er það fullkomlega samofið samspil ótal mismunandi þátta sem mynda eina órjúfanlega heild sem virkar á öllum fræðilega mögulegum levelum.
Ég sá Fight Club fyrst í bíó árið 1999. Það sem heillaði mig mest þá var að því er virtist upphaft ofbeldið og lokafléttan sem fékk höfuð mitt og heila til að snúast. Þessi flétta kom svo flat upp á mig þegar ég sá myndina fyrst að ég sá hana aftur með Kidda, í raun bara til að sjá viðbrögðin hans, sjá hvort hann finndi út úr þessu. Ég skemmti mér í raun betur í seinna skiptið þar sem að ég var alltaf að sjá vísbendingar um fléttuna, sjá hvernig leikstjórinn óf sögunni saman þánnig að hún meikaði áfram sense í annað skiptið sem maður horfði á hana. Eftir þessa aðra bíóferð týndi ég Fight Club, hún týndist og gleymdist.
Síðan liðu 3 ár og hugarfar mitt breyttist eins mikið og hugarfar getur breyst á 3 árum án stóratburða. Kvikmyndir voru farnar að koma öðruvísi við mig og ég var farinn að lesa þær allt öðruvísi. Ég var staddur í kringlunni með tvöþúsundkall og ætlaði að kaupa mér einhvern DVD disk. Sá að Fight Club var á tilboði og hugsaði “ok, þetta er frekar góður dill” og skellti mér á hana. Ég kom heim, setti hana í spilarann án nokkurra stórvæntinga, en þegar ég var bæuinn að horfa var ég einfaldlega breyttur. Það hljómar kannski eins og firra að hala því fram að kvikmynd geti breytt hugarfari manns en þetta áhorf, þetta sjónræna áreiti sem myndin er hafði gripið utan um eitthvað sem blundaði djúpt inn í mér, gripið um það og hrist það svo svakalega að það vaknaði og reyndi að brjótast út.
Allar þær spurningar, allur sá efi og ónótatilfinning sem ég hafði haft um heiminn var speglaður og hent til baka í mig.
“I felt like putting a bullet between the eyes of every Panda that wouldn't screw to save its species. I wanted to open the dump valves on oil tankers and smother all the French beaches I'd never see. I wanted to breathe smoke.”
Áður en ég horfði á þessa mynd var ég að ganga í gegnum furðulegt tímabil. Ég var týndur. Ég var einhvernvegin ósáttur, óhamingjusamur en þó ekki út af neinu áþreifanlegu eða auðskiljanlegu. Sumir mundu einfaldlega kalla það þunglyndi. En sannleikurinn var sá að vandamálið var augljóst, ég hafði bara ekki tólinn til að skilja það á þessum tímapunkti. Síðan heyrir maður þessa einstöku semi-níhilísku sýn á heiminn, maður hættir að sjá vinnu og peninga og maður sér eyðslu og tilgangsleysi…maður sér fjötra. Mér leið ömurlega því að ég var ömurlegur. Ég var ekki að stefna á neitt sem klára menntaksóla og afara síðan í háskóla og fara að vinna. Ég var svo fullkomlega óupplýstur um sjálfan mig og lífið að ég var nánast nytjalaus. Lítil neysluvél sem hélt bara áfram að pumpa og hreyfast áfram án þess að spurja hvert eða hvers vegna? Síðan heyri ég allt í einu:
“I see all this potential, and I see squandering. God damn it, an entire generation pumping gas, waiting tables; slaves with white collars. Advertising has us chasing cars and clothes, working jobs we hate so we can buy shit we don't need. We're the middle children of history, man. No purpose or place. We have no Great War. No Great Depression. Our Great War's a spiritual war… our Great Depression is our lives. We've all been raised on television to believe that one day we'd all be millionaires, and movie gods, and rock stars. But we won't. And we're slowly learning that fact. And we're very, very pissed off.”
Sannleikur samfélagsins einfaldaður en samt svo ótrúlega sterkur og stingandi. Ég sá mig í þessari lýsingu og mér varð nánast óglatt…og síðan varð ég reiður. Það besta sem þessi mynd gerði fyrir mig var að gera mig reiðann. Hún tekur það gildiskerfi sem við lifum eftir, það gildiskerfi sem við sækjum hamingju okkar í og rífur það niður, sýnir okkur hversu mikil blekking neysla okkar er. Steypa, gler, peningar, vinna, Armani jakkaföt, prada töskur, bílar, farsímar…ekkert af þessu er raunverulegt, ekkert af þessu skiptir máli, ekkert af þessu hefur gildi nema það gildi sem við leggjum í það.
Ég sagði í nýlegri færslu að lífið gerist fyrir utan gluggann hjá okkur og að við værum of upptekin að velta okkur upp úr hugsnum okkar til að lifa lífinu.
Ég tek það til baka. Það er rangt. Lífið gerist nefnilega hvergi annarstaðar en í eigin huga. Við stjórnum því hvort veðrið sé gott eða slæmt, hvort við séum rík eða fátæk, einmanna, hamingjusöm, sátt, reið…Félagsleg viðmið skipta engu máli. Þú ert guð þinnar tilveru og Fight Club sýndi mér fram á það. Ef að þú skilur sjálfan þig, brýtur sjálfan þig niður í frumeindir þannig að þú sérð hvernig þú fúnkerar getur þú byggt sjálfan þig upp eftir eigin höfði. Byggt eigin sannfæringu og siðferðiskennd á eigin forsendum. Eins nálægt frelsi og við getum komist.
Ég hef horft á þessa mynd ótal sinnum og með öllu fræðilega mögulegu hugarfari út frá öllum hugsanlegum sjónarhornum. Ég hef greint hvern einasta vinkil, hverja klippingu, hverja persónu, hvern dialog, hvert voice-over og samhengi þess við persónur, atburði og heimsmyndina og ég get fullyrt að enginn þáttur í þessari kvikmynd stingur í stúf, passar ekki inn í eða virkar ekki. Allt virkar í samhengi við allt annað og þessvegna er hún frábær. Sem vonandi verðandi kvikmyndagerðarmaður er þetta fyrsta kvikmyndin sem fékk mig til að segja “Ok, ég á aldrei eftir að geta gert betri mynd en þetta”.
Ekki svo að segja að ég geti ekki gert jafn góða mynd, bara ekki betri. Því að hún er einfaldlega fullkomin í því sem hún ætlar sér að gera.
*spoiler*
Eitt sem bæta má við: Tyler Durden hafði rangt fyrir sér. Það er meginpuntur myndarinnar sem fólk virðist ekki alltaf vera að fatta. Upphaflega heimsmynd Tyler er sönn, ógnvekjandi og uppvekjandi en punkturinn er að hann bregst vitlaust við. Project Mayhem gengur gegn allri hans heimspeki um frelsi og afneitun alls valds. Þessvegna verður aðalpersónan að þróast, hún þróast fram yfir Tyler og þarf ekki lengur á honum að halda. Þessvegna deyr Tyler, hann deyr því að hann þarf ekki lengur að vera til.
Hvernig hefur þá Tyler rangt fyrir sér? Þú finnur ekki frelsi á forsendum fullkominnar einföldunar á tilverunni, þú finnur hana ekki í hreinu niðurrifi á öllum gildum. Þú finnur aðeins hamingjuna á eigin forsendum og þetta sá sögumaðurinn og þessvegna þurfti hann ekki Tyler lengur.
2: Memento
Ok, ég ætla ekki að eyða jafn mörgum orðum í hinar myndirnar á listanum mínum þrátt fyrir að þær eigi það margar skilið.
Ég hef átt í mjög sérstöku sambandi við þessa mynd síðan ég sá hana fyrst. Ég kannaðist við titilinn og vissi að þetta var orðið eitthvað költ hit úti í Bandaríkjunum og fengið góða dóma víðast hvar. Þannig að ég átti von á góðu þegar ég fór í bíó, en ekki þessu.
Allt frá fyrsta skotinu þar sem við sjáum blóðuga Poloroid ljósmynd mást ú tog fara síðan í öfuga átt aftur inn í myndavélina rétt áður en við sjáum aðalpersónuna sprengja heilann út úr öskrandi fórnarlambi sínu var ég húkked.
Þetta er saga um hefnd, líkt og margar Noir myndir eru sögur um hefnd, nema að Memento er svo mikið, mikið meira ef maður kýs að líta undir húddið. Ég tek það sérstaklega fram því að það er skelfilega auðvelt að festast í einu elementi í þessari mynd og neita að sjá dýpra en það og það mun á endanum draga upplifunina niður.
Það fyrsta sem mðaur tekur eftir er frásagnarstíllinn, en myndin er nefnilega sög í öfugri tímaröð. Við s.s. byrjum á endanum og endum í raun í miðjunni en á milli koma svarthvít atriði sem eiga sér stað fyrst í tímalínunni. Þetta hljómar mun flóknara en þetta er og komst áhorfið upp í vana eftir nokkur atriði. Það væri auðvelt að hafna þessari aðferð sem brellu sem þjónar aðeins þeim eina tilgangi að láta myndina líta út fyrir að vera merkilegri en hún er, en það væri vanmat.
Frásagnaraðferðin meikar fullkominn sens þegar maður setur hanaí samhengi við aðalpersónuna og söguna sem verið er að segja.
Leonard Shelby getur ekki skapað nýjar minningar. Allt sem hann upplifar, allt sem hann segir, allir sem hann hittir mást úr huga hans aðeins nokkrum mínútum eftir að hann upplifir, segir eða hittir þá. Þessi kvilli gerir tilveru han erfiða, nánast óbærilega og neiðist hann til að treysta á Polaroid myndri og littler nótur til að koma í stað langtímaminnis. Það sem keyrir hann áfram hefnd. Leitin að morðingja og nauðgara konu sinnar, mannsins sem slasaði hann og tók frá honum minnið. Líf hans snýst í kringum þessa lei tog inn í hana vefjast svo lögreglumaðurinn Teddy og barmærin Natalie sem bæði segjast vera að hjálpa Leonard, en líkt og Leonard vitum við ekkert hvað gerst hefur áður og hverjum á að treysta.
Eins og ég sagði áðan er auðvelt að sjá bara sögugimmickið og halda að myndin hafi ekki upp á neitt annað að bjóða en sannleikurinn er sá að það er alveg ótrúlega mikið að gerast undir niðri, svo margir þemar í gangi. Hvers virði er lífið án minninga? Hvaða gildi hafa aðgerðir ef maður sjálfur man ekki eftir þeim? Heldur jörðin áfram að snúast þó við vitum ekki af því?
“I have to believe in a world outside my own mind. I have to believe that my actions still have meaning, even if I can't remember them. I have to believe that when my eyes are closed, the world's still there. Do I believe the world's still there? Is it still out there?… Yeah. We all need mirrors to remind ourselves who we are. I'm no different.”
Það er líka margt annað í gangi sem ég ætla ekki að fara neitt dýpra í því að upplifuninn að komast að öllum hennar leyndardómum er það áhugaverðasta og gefur henni nærri ótakmarkað enduráhorfsgildi en ég skal segja ykkur eitt. Ekkert er eins og það sýnist, ekki einusinni þegar myndin er búin. Hlustið vel á lokaræðu Teddy í lok myndarinnar og setjið hana í samhengi við það sem á undan (eftir) hefur gengið og þá ættu einhver svör að koma.
Það er ekki bara myndin sjálf sem gerir samband mitt við hana svona sérstakt heldur dyrnar sem hún opnaði í hausnum á mér. Í fyrsta skipti sem ég sá hana stóð ég sjálfan mig að verki segjandi “vó..” upphátt í bíósalnum á nokkrum stöðum. Ekki út af mikilfenglegu ofbeldi eða sprengingum eða risaeðlum eða þessu venjulega, heldur einfaldlega sögumennskunni, fléttunum og kvikmyndatækninni. Þetta er kvikmynd gerð fyrir ótrúlega litlar fjárhæðir á Hollywood skalanum en tókst þó að kýla úr mér andann með gamaldags sögumennsku og það finnst mér vera kvikmyndagerð í sinni tærustu mynd. Og þegar ég labbaði út úr kvikmyndasalnum hugsaði ég með mér “Já, ég held að ég vilji eyða minni ævi í að gera þetta, segja sögur, gera kvikmyndir”
3 - Apocalypse Now
Það hafa verið gerðar margar kvikmyndir um Víetnam stríðið. Margar góðar og margar ekki jafn góðar. Ég er á því að Full Metal Jacket sé besta víetnam myndin af þeim öllum, en þó þykir mér Apocalypse Now betri kvikmynd.
Handritið er unnið upp úr skáldsögunni “The Heart of Darkness” sem gerist í Afríku á nýlendutímanum og firringunni sem var þar þannig að sagan sem slík einskorðast ekki við þetta einstaka stríð. Kvikmyndin er miklu frekar gangrýni á stríðsbrölt almennt, á firringu stríðsins í praxís.
Það sem Coppola gerir svo meistaralega er uppbygging myndarinnar, en til þess að geta notið hennar til fullnustu þarf maður að skilja uppbygginguna og hvað hún merkir. Myndin fjallar ekki aðeins um ferð þessa herflokkar niður ánna í áttina að skotmarkinu, Kurtz hershöfðingja, heldur er ferðin inn í frumskógin myndlíking á ferð mannsins inn í geðveikina og firringuna. Því lengra sem þeir fara niður ánna því myrkari verður veröldin, hættan meiri, geðveikin meiri, stríðið ofbeldisfullara og með tímanum týnir herflokkurinn tölunni og aðalpersónurnar verða meira og meira eins og skotmarkið sem þeim er ætlað að drepa.
Lokakafli myndarinnar er síðan einn sá sterkasti sem sést hefur og er samspil Marlon Brando og Martin Sheen eins nálægt kvikmyndagöldrum og maður kemst.
Myndin er í sérflokki því að boðskapur hennar hefur gildi sem aðvörun til allra þeirra sem trúa á mátt stríðs. Hún er miskunarlaus og hrá án Þess að fórna nokkruntíman listrænum heilindum sýnum og nógu myndræn til að troða ekki boðskap sínum ofan í kokið á manni. Persónur tala í myndum sem áhorfandinn verður sjálfur að túlka
“I watched a snail crawl along the edge of a straight razor. That's my dream. That's my nightmare. Crawling, slithering, along the edge of a straight… razor… and surviving.”
Mynd sem fjallar um hryllinginn sjálfan, hvað hryllingur er og hvað hryllilegar aðstæður geta gert við fólk.
4 - Donnie Darko
Ein mesta skömm íslenskrar kvikmyndahúsasögu eins og ég þekki hana er að þessi kvikmynd hafi aldrei sést hér á stóru tjaldi. Þessvegna var ég dæmdur til að sjá hana á vídjó sem er synd.
Það er alveg ógurlega erfitt að skrifa um þessa mynd en ég ætla að greyna að gera heiðarlega tilraun til að taka saman tilfinningar mínar um hana.
Þessi kvikmynd er algjört andrúmsloft út í gegn. Allt frá fyrsta atriðinu þar sem Donnie vaknar á miðjum yfirgefnum þjóðvegi og við heyrum The Killing Moon með Echo and the Bunnymen veit maður að þessi mynd verður eitthvað annað, eitthvað öðruvísi.
Donnie Darko er svo margt, svo margar myndir í einni. Á einu leveli er þetta þroskasaga unglings, á öðru leveli er þetta jaðargamanmynd og á enn öðru er þetta noir mynd og er þessu svo öllu pakkað saman í vísindaskáldskapspakka.
Það sem gerir þessa mynd frábæra í minni bók er einfaldelga tilfinningin í henni, andrúmsloftið sem liggur yfir allri myndinni. Þessi tilfinning að þessi heimur sé ekki alveg eins og okkar heimur heldur hliðstæður veruleiki sem er til 10 gráðum sunnan við okkar eigin. Flugvélamótorar detta úr heiðskýru lofti ofan á hús án þess að flugvél hafi flogið yfir, Risavaxnar mannhæðahár kanínur birtast fólki og spá dómsdegi. Allir þessir hlutir eru útskýranlegir og útskýrðir en galdurinn við þessa mynd er að þó að maður skilji ekki ástæðurnar fyrir hlutunum þá grípur þessi heimur mann þannig að maður þarf ekki að skilja allt og í raun langar ekki að skilja allt því það gæti eyðilagt töfrana. Ástæðan fyrir þessum töfrum eru persónurnar. Myndin mundi aldrei virka ef að Donnie væri ekki sympatískur karakter. Maður finnur til með honum, maður finnur fyrir því hversu utangarðs hann er félagslega og andlega og maður kaupir sig alveg inn í þetta skot á milli hans og nýju stelpunnar í skólanum og maður heldur staðfastlega með þeim því að þau eru bæði öðruvísi og utangarðs og eiga hvort annað svo innilega skilið og það eru þessar persónur sem láta myndina virka og grípa um sálina í manni.
Sem frumverk leikstjóra er Donnie Darko líka ótrúlegt afrek og held ég að myndin hafi virkað mikið betur en Richard Kelley, leikstjóri myndarinnar, hafði þorað að vona þar sem hann þurfti að klippa mikið úr myndinni sökum pressu frá framleiðslufyrirtækinu og sökum þess varð vísindaskáldskapsparturinn nánast óskiljanlegur án hjálpargagna en leiksjtórinn ætlaði myndina alltaf sem hreina Sci-Fi mynd. En eins og ég segi þá er andrúmsloft myndarinnar það sterkt að maður þarf ekki að gera sér grein fyrir öllu því sem gerist í myndinni, bara njóta þess að það sé að gerast og að þetta séu töfrar kvikmyndanna.
5 - Lost in Translation
Þegar ég sá hana í annað skiptið um daginn fattaði að ég var búinn að gleyma hversu ótrúlega góð þessi mynd var. Hversu vel hún virkaði á mig, þá sérstaklega í annað skiptið.
Kannski set ég þessa mynd svona ofarlega á listann hjá mér núna því að ég finn svo mikla samsvörun með þessum persónum þessa stundina. Það að vera týndur á stað þar sem þú átt fátt sameiginlegt með umhverfi þínu.
Þetta er mynd sem auðelt hefði verið að klúðra og einfaldlega gera að “Bill Murray að vera lífsþreyttur og lenda í fyndnum ævintýrum með klikkuðu japönunum” mynd sem væri akkúrat bara það. En sem betur fer gerist það ekki. Sofia Coppola á mikið hrós skilið fyrir það hversu listilega hún leikstýrir myndinni því að hún er svo ofsalega brothætt, allt er brothætt. Kvikmyndatakan er fínleg, smekkleg, falleg en aldrei yfirþyrmandi né kallar athygli til sýn, díalógurinn er raunverulegur, trúverðugur en þó aldrei þurr. Það er nóg af húmor en myndin verður þó aldrei gamanmynd og maður hættir aldrei að taka hana alvarlega. Allir þessir þættir standa á bláþærði og hefði svo lítið þurft til að þessi mynd hefði fallið á einum eða fleiri af þessum þáttum en það er næmri leikstjórn Sofiu að þakka að svo gerist ekki. Maður hefur nánast óendanlega sympaþíu með þessum tveimur persónum sem eru á mjög mismunandi stöðum í lífinu en eru þó að upplifa það að vera einmanna, týnd og yfirgefin í framandi landi sem þau finna hvorug mikla samsvörun hjá.
Þetta er ekki bara mynd um tvær manneskjur sem eru einmanna í Japan. Þetta er mynd um einmannaleika almennt. Tilfinninguna að vera týndur í heiminum, að finnast allir vera geimverur sem maður skilur ekki og þær skilja mann enganvegin heldur og allt í einu er öll fótfesta í tilverunni horfin. Þetta er mynd um að vera einmanna og að finna einhvern sem er einmanna líka, einhvern sem skilur nákvæmlega hvað maður er að fara í gegnum þrátt fyrir að vera gjörólíkur manni að öðru leiti. Þetta er mynd um það að finna eitthvað til að grípa í þegar maður virðist í frjálsu falli og það er út af þessum ástæðum sem myndin verður eitthvað annað heldur en fyndin menningarárekstra mynd, því að þetta er mynd sem tekur á ákveðnum þáttum í mannlegri tilvist sem eru mjög algengir hjá fólki, að vera hjálparlaus á ókunnugum stað þar sem maður stendur í þeirri trú að enginn skilji mann og að finna einhvern sem loksins skilur mann og þrýstir hamingju aftur inn í lífið.