Þolirðu ekki að fá innilokunarkennd? Ekki þá horfa á Das Boot! Ég held ég hafi aldrei séð eins rosalega lýsingu á lífinu um borð í kafbát og í þessari mynd. Ótrúlegt að sjá þessa menn umbreytast úr snyrtimennum yfir í sveitt, föl og taugaveikluð grey, og er nóg til að fá mig til að heita þess að stíga aldrei á ævinni um borð í kafbát (allavega ekki að ferðast neitt í honum). Og dæmið með rússneska kjarnorkukafbátinn í fyrra gerir lítið í því að draga úr þeirri sannfæringu minni.

Ég nenni ekki að útlista söguþráðinn í smáatriðum, en fyrir þá sem ekki vita það þá fjallar myndin sumsagt um ástir og ævintýri áhafnar á þýskum kafbáti í seinni heimsstyrjöldinni. Hljómar vel ekki satt? Þar á meðal er kafteinninn sem er undir stöðugu álagi við að reyna að leika á bresku stríðsskipin, stríðsfréttaritarinn sem á að skrifa um dýrðir stríðsins í áróðusfréttarið Hitlers, en fær fljótt að kenna á því hvernig stríðið er í raun og veru, ásamt mörgum fleirum. Allir (og ég meinaða, allir) eru snilldarlega leiknir af úrvals þýskum leikurum. Öllu er örugglega stýrt af Wolfgang Petersen sem hefur fengið að spreyta sig í Hollywood uppá síðkastið, nú síðast fór hann aftur útá sjóinn og gerði hina gölluðu (en á margan hátt góðu) Fullkomna vindaveðrið (Perfect Storm).

Endirinn er síðan eitt grimmasta dæmið sem ég hef séð um algjört tilgangsleysi stríðsreksturs. Segi ekki meir, heldur hvet hvern sem vettlingi getur valdið til að sjá þessa mynd. Það er líka mjög áhugavert að sjá loksins stríðsmynd sem sýnir þýsku hliðina á WWII. Ég sá Director's cut útgáfuna, sem er tæpur 3 1/2 tími, en það er ekki hægt að verja tímanum á betri hátt.

Fullt hús stiga.
——————————