Ridley Scott er einn af mínum uppáhalds leikstjórum og vegna þess að nýjasta mynd kappans “Gladiator” fékk óskarinn sem besta mynd hef ég ákveðið að skrifa litla grein um hann.
Ridley Scott er fæddur í smábæ í Suður-Englandi 30 nóvember 1937. Hann átti einn eldri bróður sem dó árið 1980 úr krabbameini. Yngri bróðir hans er Tony Scott sem margir kannast við og hefur hann gert myndir á borð við “Top Gun”, “Crimson Tide” og “Enemy of the State”. Ridley þótti aldrei góður námsmaður og á næstsíðasta ári sínu í menntaskóla ráðlagði kennarinn hans honum að fara í listaskóla. Ridley fór að ráðum hans enda hafði hann alltaf haft mikinn áhuga á listum. Eftir 4 ára nám útskrifaðist hann úr skólanum. Hann var talinn mjög efnilegur og árið 1958 fékk hann inngöngu í Konunglega Listaháskólann í London sem var mikill heiður. Að námi loknu fékk hann vinnu hjá BBC og vann hann meðal annars sem hönnuður og aðstoðarleikstjóri framhaldsþátta. 1963 leikstýrði Ridley 4 auglýsingum og voru þær taldar vel heppnaðar. Nokkrum árum seinna stofnaði hann sitt eigið auglýsingafyrirtæki og er það nú eitt hið stærsta í heiminum. Þannig var Ridley orðinn forríkur og kominn á miðjan aldur þegar hann ákvað loksins að fara að gera “alvöru” kvikmyndir. Ridley Scott hefur löngum verið gagnrýndur fyrir að taka útlit fram yfir innihald. Vissulega hafa sumar kvikmyndir hans ekki verið annað en sjónræn veisla en mér hefur fundist þessi gagnrýni vera yfirdrifinn. Listauppeldi hans hefur greinilega haft mikil áhrif á myndirnar hans því þær eru allar flottar útlitslega séð. Ridley hefur oft lent í deilum við hina ýmsu menn við kvikmyndatökur. Hann er sagður harður húsbóndi og þá sérstaklega á sínum yngri árum. Harrison Ford sagði til dæmis(við tökur á “Blade Runner”) að Ridley hugsaði meira um útlit myndarinnar en hvernig leikararnir stæðu sig. Annað dæmi er þegar Ridley fékk tónskáldið Jerry Goldsmith að gera tónlistina við myndina “Legend”. Fullkomnunarsinninn Ridley Scott var ánægður með tónlistina en fannst hún ekki vera fullkomin svo hann sleppti að nota hana. Jerry Goldsmith hefur ekki talað við hann eftir þetta.
Myndirnar hans:
“Black Hawk Down” (2001)
Tökur standa yfir á þessari mynd núna. Þetta er sannsöguleg stríðsmynd sem gerist í Sómalíu 1993. Meðal leikara er Ewan McGregor.
“Hannibal” (2001)
Flestir hafa séð þessa og finnst mörgum hún vera misheppnuð. Ég er á öðru máli og fannst hún vera ágæt.
“Gladiator” (2000)
Frábær afþreying en hún átti óskarinn ekki skilið.
“G.I. Jane” (1997)
Ágætis mynd en ekkert meira en það.
“White Squall” (1996)
Ein versta mynd Ridley og ekkert meira um það að segja.
“1492: Conquest of Paradise” (1992)
Hef ekki séð þessa en hún fjallar um Kólumbus og hvernig hann fann Ameríku.
“Thelma & Louise” (1991)
Frábær mynd með Geenu Davis og Susan Sarandon. Kom Brad Pitt á kortið. Skylduáhorf.
“Black Rain” (1989)
Ágætis spennutryllir sem gerist að mestu leiti í Japan.
“Someone to Watch Over Me” (1987)
Hef ekki séð þessa.
“Legend” (1985)
Ótrúlega flott ævintýramynd með Tom Cruise. Myndin sjálf var hins vegar ekkert sérstök.
“Blade Runner” (1982)
Trúlega hans besta mynd. Frábær í einu orði sagt og rosalega dimm. Kvikmyndafyrirtækið breytti þó endanum á myndinni svo ég mæli með director´s cut á DVD.
“Alien” (1979)
Ein af mínum uppáhalds myndum. Dimm og ógeðsleg geim hryllingsmynd sem varð upphafið að Alien seríunni. Ridley Scott er frábær Sci/Fi leikstjóri.
“Duellists, The” (1977)
Sæmileg mynd með Harvey Keitel í aðalhlutverki. Er í anda Barry Lyndon sem Kubrick gerði. Fyrsta stóra mynd Ridley.
“Boy and Bicycle” (1965)
Fyrsta mynd hans. Gerði hana með bróður sínum Tony Scott. Hún er aðeins til á filmu svo það hafa líklega mjög fáir séð hana.