Leikstjórn: Andy og Larry Wachowski. Handrit: Andy og Larry Wachowski. Aðalhlutverk: Keanu Reeves, Laurence Fishburne, Carrie-Anne Moss. Lengd: 136 mín. Bandaríkin. Warner Bros.
The Matrix er vísindaskáldsaga sem gerist kringum árið 2199 eftir að vélmenni hafa hertekið jörðina og halda mannkyninu í gíslingu í sýndarveruleika. Maðurinn veit ekki betur en að hann lifi í raunverulegum heimi en þó grunar nokkra að ekki sé allt með feldu.
Eflaust hafa margir velt því fyrir sér sem börn hvort að allt þeirra umhverfi/samfélag gæti verið samsæri gegn þeim til þess að leyna fyrir þeim hinum raunverulega sannleika, hver sem hann átti svo að vera. Enn svo vaxa börn yfirleitt frá svona pælingum og taka heiminum sem gefnum. En Wachowski bræður hafa greinilega ekki vaxið upp úr þessháttar samsæriskenningum því The Matrix er mynd í anda vísindaskáldsagna William Gibson þar sem velt er uppi spurningunni hvort það geti verið að við lifum í sýndarveruleika án þess að vita það og þar af leiðandi sé ekkert raunverulegt.1 Þetta er sett svo vel upp í myndinni að jafnvel fullorðið fólk sem búið var að gleyma öllum samsæriskenningunum er farið að velta því fyrir sér á nýjan leik hvort það geti verið að lífið sé allt saman blekking. Núna eru það ekki fólkið í kringum það sem setur upp leiksvið til að leyna það raunveruleikanum heldur er ekkert í tilveru þeirra raunverulegt, það er allt saman plat.
Til þess að fá okkur til að gleypa þessar hugmyndir og færa okkur nær þeim boðskap sem myndin flytur nýta þeir sér alls konar mýtur og óútskýrð fyrirbæri sem flest okkar hafa einhvern tímann lent í á lífsleiðinni. Dæmi um það er í byrjun myndarinnar þegar Neó er að selja kunningja sínum ólöglegan varning, þá spyr hann kunningjann hvort að honum líði aldrei eins og að hann geti ekki greint á milli draums og veruleika. Seinna er svo atriði þar sem að það grær fyrir munninn á Neó sem er svo klippt yfir í atriði þar sem hann ríkur upp með andfælum og þannig er gefið í skyn að fyrra atriðið hafi verið draumur, en svo var ekki. Svo er enn einu sinni vísað í þessa óraunveruleika tilfinningu þegar að Morpheus, segir við Neó að hann líti út eins og maður sem tekur því sem hann sér því hann býst við því að vakna hvað og hverju, og bætir svo við að það sé einmitt það sem í rauninni sé að fara að gerast. Þar á Morpheus við það að hann er að fara að bjóða honum að losna úr sýndarveruleikanum(the Matrix) og vakna í hinum raunverulega heimi. Flestir kannast við það að átta sig ekki á því hvort einhver minning sé ættuð úr raunveruleikanum eða einungis úr draumi og erum við því flest orðinn uppfull af efasemdum um okkar eigin heim á þessu stigi í myndinni. Seinna í myndinni fær Neó svo dejà vue, þar sem hann sér svartan kött standa upp og labba fram hjá hurð tvisvar í röð. Það er útskýrt þannig í The Matrix að það gerist bara þegar að vélmennin, sem stjórna sýndarveruleikanum, breyta einhverju í forritinu og þar höfum við loksins útskýringu á þessu undarlega fyrirbrigði sem flest okkar hafa einhvern tímann upplifað. Wachowski bræður ná því að gera þennan óraunveruleika raunverulegan með því að nýta sér fyrirbæri úr veruleikanum sem allir þekkja. Enda hefur það komið á daginn að þó nokkrir hafa skellt sér í heilmiklar heimsspekilegar pælingar í fyrsta skiptið á ævinni eftir að hafa séð myndina.
Mér fannst myndin mjög skemmtileg framan af, þar sem búinn er til mjög spennandi heimur og skemmtilegar spurningar eru settar fram. Ég verð að vera sammála því sem Rogert Ebert segir í dómi sínum í Sun-Times um myndina þar sem að hann segir að honum finnist leiðinlegt hvað Wachowski bræður missa seinni helminginn af myndinni yfir í formúlukenndan Hollywood byssu endi akkúrat þegar að myndin er að verða spennandi. Mann langar til að fá að sjá meira af þeim heimspekilegu spurningum sem settar hafa verið fram í fyrri parti myndarinnar.2 Það verður þó að viðurkennast að öll bardaga og tæknibrellu atriði eru afspyrnu vel gerð. Ég mæli því hiklaust með því að allir fari að sjá þessa ræmu til að víkka sjóndeildarhringinn og njóta þrælgóðs hasars.
Heimildir
1 Ebert, Roger (mars 1999). The Matrix. Skoðað 14. mars 2004 á veraldarvefnum: http://www.suntimes.com/ebert/ebert_reviews/1999/03/033 101.html
2 Ebert, Roger (mars 1999). The Matrix. Skoðað 14. mars 2004 á veraldarvefnum: http://www.suntimes.com/ebert/ebert_reviews/1999/03/033 101.html