Kærkomin tilbreyting

The Nightmare Before Christmas er svo sannarlega mikið þrekvirki á sviði kvikmyndagerðar. Um er að ræða hreyfimynd unna með svokallaðri ,,stop-motion” aðferð en þá aðferð þróaði Ray Harrihausen umfram aðra á síðustu öld í heimsþekktum kvikmyndum á borð við til dæmis King Kong og Jason and the Argonauts. Myndin er unnin eftir hugmynd leikstjórans Tim Burton en leikstjórn er í höndum Henry Sellick sem er einna fremstur á sínu sviði, það er í hreyfimyndagerð af þessu tagi. Sagan segir af Jack nokkrum Skellington sem að lifir og hrærist í Hrekkjavökulandi en er orðinn hálfleiður á því að hræða fólk statt og stöðugt. Dag einn rekst hann á inngang til Jólalands og heillast svo að hann ákveður að taka yfir þau með unaðslega skelfilegum afleiðingum.
Tim Burton er mörgum kvikmyndaunnendum kunnur en hann er hreiðrið á bakvið myndir líkt og Edward Scissorhands og Ed Wood svo að einhverjar séu nefndar. Þó svo að hann hafi ekki leikstýrt The Nightmare Before Christmas sjálfur er hinn einkennandi stíll hans á borð við svart-hvít köflótt gólf og fjandanum skakkari hús svo áberandi að ekki verður um villst undir hvaða rifjum hún er runnin.
Þegar kemur að atriðum í myndinni til að dást að er af nógu að taka og hvert sekúndubrot er sannkallað augnakonfekt. Til að byrja með má nefna það ótrúlega þrekvirki sem að tæknihliðin er en áðurnefnd stop-motion tækni er unnin útfrá brúðum sem að eru hreyfðar smátt og smátt, ramma fyrir ramma þannig að úr verður hreyfimynd. Með þá vitneskju að vopni er ekki annað hægt en að undrast það hversu íburðarmikið sjónarspilk myndin er og í raun það metnaðarfyllsta sem sést hefur í heimi hreyfimyndanna. Annað sem ber að nefna er hönnun útlits, persónur og saga en sjaldan hefur annað eins sést hvað hugmyndauðgi og hreina snilld varðar. Hér ber enn og aftur að taka hattinn ofan fyrir Tim Burton en myndin er hans hugarfóstur og unnin eftir teikningum hans. Hið þriðja sem heillar en þó ekki endilega í þeirri röð er hin afar minnistæða tónlist Danny Elfman við myndina en sagan er sögð í formi söngleiks og því skipar tónlistin stóran sess í hinni heildrænu útkomu.
Þegar á heildina er litið gæti The Nightmare Before Christmas vart verið betri, hver einasta mínúta er troðfull af skemmtun og myndin þess eðlis að hún ætti að höfða til alls aldurs. Ennfremur er myndin góð og kærkomin tilbreyting frá þeirri vellu sem að fyrirtæki á borð við Disney og aðrir hafa borið á borð en þau verk hafa fremur enn annað einkennst af yfirdramatíseringu og ofurviðkvæmni gagngert hannaðri til að höfða til allra. The Nighmare Before Christmas reynir ekki að höfða til henna sauðsvörtu, hún einfaldlega skýst fram á eigin forsendum og heillar hina vammlausu en skelfir hina sem í sínum gráa smáborgarlega veruleik kjósa heldur að sjá bleika hesta dansa við væmna tónlist. Sannkölluð völundasmíð sem að sýnir og sannar að hin gamla tækni stendur enn þeirri nýbylgjufyrru sem að tölvuteiknun er langt í frammi.

Stylus