Það er alveg á hreinu að Mel Gibson er afbragðsgóður leikstjóri. Píslarsaga Krists er hans þriðja mynd sem hann leikstýrir en í fyrsta skipti er hann ekki fyrir framan vélina heldur aðeins fyrir aftan hana. Fyrri myndir hans tvær, The Man Without a Face og hin stórgóða Braveheart, eru virkilega vandaðar myndir sem bera á sér gott vald á kvikmyndalistinni. Sérstaklega þó Braveheart en hún vann Óskarsverðlaunin sem Besta myndin árið 1996 og Mel Gibson vann bestu leikstjórnina. Í Píslarsögu Krists þá hins vegar skrikar Gibson fótur. Píslarsagan er hans sísta mynd þó hún sé virkilega vönduð og það er greinilegt að Gibson lagði allt sem hann átti í að gera mjög vandaða og góða mynd um Jesú. Að mínu mati tókst hið síðarnefnda ekki.

Myndin fjallar sem sagt um síðustu tólf klukkustundirnar í lífi Jesú Krists, allt frá því þegar hann er handtekinn í skógi einum eftir að Júdas sveik hann, og þar til hann rís upp frá dauðum. Því ferli er nákvæmlega fylgt eftir, þó mest með blóði, ofbeldi og hatri, en það er einnig fylgst með konunum í lífi hans, Maríu mey sem var mamma hans, og svo konunni hans, Maríu Magdalenu. Þær fylgja Jesú eftir alla leiðina upp á hæðina þar sem krossinn var settur niður.

Myndin er mjög ofbeldisfull en hún verður aldrei ógeðsleg. Ofbeldið á að ganga fram af manni en það tekst ekki því líkami Jesúsar verður svo gervilegur að maður hugsar alltaf að þetta sé gerviblóð og förðun þegar maður sér illa farinn líkamann. Gibson má þó eiga það að öll förðun er mjög vel gerð, það er ekki hægt að segja annað en að förðunarmeistari þessarar myndar standi undir nafni.

Tilgangur myndarinnar er að sýna hvernig þetta allt saman átti sér stað, þ.e. handtakan, píslargangan og krossfestingin. Það tekst alveg hreint með ágætum þó að ég mér finnist Gibson ansi hlutdrægur. Ekki það að ég þekki Nýja Testamentið vel, heldur er þetta þannig í myndinni að Jesú er gallalaus maður, rómversku hermennirnir illverki djöfulsins og trúarleiðtogar Gyðinganna illa innrættir. Gibson kemur því aðeins of mikið á framfæri skoðun sinni á því atriði.

Tónlistin er oft á tíðum yfirþyrmandi. Hún dregur oft athyglina frá myndinni sem þýðir að hún dregur úr áhrifamætti myndarinnar en það á hún einmitt ekki að gera. Sviðsmyndin er mjög góð og það hefur verið vandað til við hana. Mér fannst sviðsmyndin eitt það besta við myndina, alveg til fyrirmyndar. Kvikmyndatakan er góð sem er mjög mikilvægt í kvikmyndum. Hver einasti rammi og hvert einasta skot er greinilega vel útpælt. Oft þegar sýnt var frá pyntingum og bardögum Jesúsar hvað eftir annað og einnig þegar það er verið negla naglana í lófann á honum, var sýnt í „slow motion”. Það er allt gert til að auka áhrifamátt þjáningar hans. Það tókst ekki í mínu tilviki því ég fann ekki til neinnar vorkunnar. Mér fannst ég aldrei verða nákominn persónunni Jesú þannig að ég gæti farið að vorkenna honum. Ég fékk aldrei sting eða óþægilega tilfinningu þegar það var verið að pynta hann eða lemja eins og maður fær oft á tíðum í ofbeldisfullum myndum. Mér var einhvern veginn alveg sama um Jesú. Ég vorkenndi t.d. Júdasi miklu meira þegar hann lét það í ljós hvað hann sá mikið eftir því að hafa svikið Jesú og þegar hann hengdi sig að lokum.

Myndin var rosaleg hæg, allt frá fyrstu mínútu og til þeirrar síðustu. Fyrir hlé langaði mig helst til að sofna því það var ekkert að gerast. Seinni hluti myndarinnar var þó aðeins skárri en fyrri hlutinn. Atriðið þar sem Jesú var hýddur var hins vegar alltof langt, maður var kominn með leið á því. Ekki bætti úr skák að ofbeldið og háðið hélt áfram út alla myndina. Maður var kominn með nóg af því. Ég vildi bara að fara sjá krossfestingu!

Leikurinn í myndinni er til fyrirmyndar og þar ber hæst að nefna Jim Caviezel í hlutverki Jesú en myndin hefði aldrei gengið upp ef það hlutverk hefði klúðrast. Maia Morgenstern, María mey, stendur sig einnig með prýði. Hún talar ekki mikið í myndinni heldur er sýnir hún svipbrigðaleik sem heppnast alveg 100%. Það er vert að fylgjast vel með þeirri leikkonu í framtíðinni.

Myndin fær ** af ****. Hún fær þessar tvær stjörnur fyrir góðan leik Jim Caviezel í hlutverki Jesú, fyrir góða förðun, góða kvikmyndatöku og frábæra sviðsmynd.

Ég finn lykt að Óskarsverðlaunum eftir að hafa horft á myndina. Þetta er afbragðsmynd þó að ég hafi ekki fílað hana. Þetta er Óskarsleg mynd. Jim Caviezel mun fá sína fyrstu tilnefningu fyrir leik og hann á það fyllilega skilið.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.