Amélie (Le Fabuleux destin d'Amélie Poulain) Í kvöld var kvikmyndin Amélie sýnd í sjónvarpinu, og við áhorf hennar mundi ég eftir því hversu stórkostleg þessi mynd er, og hversu litla athygli hún fær, vegna þess að hún er frönsk. Þetta segir mjög margt um kvikmyndagerð nútímans, finnst mér, því að þessi mynd væri líklega þó nokkuð stærra cult-hit en hún er nú þegar ef hún væri á ensku.

Fyrst ætti að minnast á hinn stórmerka leikstjóra myndarinnar, Jean-Pierre Jeunet, sem er best þekktur fyrir myndir eins og Delicatessen, The City of Lost Children og Alien: Resurrection, auk að sjálfsögðu Amélie, sem verður að teljast helsti kvikmyndasigur Frakka. Hann hefur þennan sérstaka stíl á kvikmyndatöku sem einkennist af ótrúlegri notkun á litum.

Hver og einn einasti hlutur á skjánum virðist hafa verið veginn og metinn með hvernig stærð og litur hans passaði bak/forgrunninn. Mörg skot í myndinni eru hreint ótrúlega sett upp, og oft er myndavélin látin ýta undir yndislegum húmornum. Hér er nefnilega ekki litið á myndavélina sem tæki til að taka upp, heldur sem pensil listmálarans, eitthvað sem ber að bera virðingu fyrir.

Sagan fjallar í stuttu máli um hina stórfurðulegu stúlku Amélie, sem hefur þennan yndislega persónuleika sem margir þekkja úr barnæsku. Hér er manneskja sem hefur haldið vel í sitt innra barn, en þó er það aldrei vandræðalegt að horfa á, og Amélie er ekkert annað en ótrúlega áhugaverður karakter sem unun er að horfa á.Amélie ákveður að reyna að hjálpa þeim í kringum sig með lífið, og finnur í þeirri leit ástina í eigin. Amélie er fullkomlega leikin af hinni gullfallegu Audrey Tautou, sem er einhvernveginn falleg á annan hátt en meikgellur kvikmyndanna eru yfirleitt, og sigrar þær flestar auðveldlega í útliti.

Handritið er mjög gott, og aldrei fara þeir yfir strikið í listrænni stjórnun, og jafnvel er smá klúrleiki á stöðum, sem fær mann alltaf til að hlæja. Hér gleymist húmorinn aldrei, og hver hláturgusan rekur aðra. Amélie er bráðsnjöll í að búa sér til litlar, snilldarlegar áætlanir til að gleðja/hefna sín á fólki í kringum hana, með ótrúlegum afleiðingum.

Og ekki verður talað um Amélie án þess að minnast á tónlistina, sem er með allra bestu kvikmyndatónlist sem ég hef heyrt. Hún er eins og Amélie sjálf, til skiptis döpur og glöð, barnaleg, einföld, falleg og dreymin. Hún er samin af Yann Tiersen, og ég get svo sannarlega mælt með sándtrakk disknum, sem fæst allstaðar. Hann er vel þess virði, ég gaf hann sem jólagjöf inn á heimilið á hálfeigingjarnan hátt þar sem ég vildi hlusta á hann sjálfur, en ég vissi líka að allir njóta þessarar tónlistar, og svo hefur það orðið.

Ef maður á að taka þetta saman, þá tel ég Amélie meistaraverk. Eitt af örfáum kvikmyndum sem standa uppúr, eitthvað sem maður man eftir. Þegar maður sér poka af grjónum, þá dýfir maður höndinni ofan í, brosir og hugsar: Þetta gerir Amélie. Og dýfir höndinni lengra.

****/****
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane