Spá fyrir Óskarstilnefningar 2004 – Besta mynd Nú fer að styttast óðum í að tilnefningar til Óskarsverðlauna árið 2004 verði gerðar opinberar. Þó svo að það verði reyndar ekki fyrr en 27. janúar næstkomandi, og verðlaunaafhendingin 29. febrúar, er samt ekki seinna vænna að byrja að velta fyrir sér hvaða myndir það eru sem munu eiga eftir að berjast um verðlaunin og tilnefningarnar eftirsóttu. Sumum gæti fundist ég frekar kræfur að leyfa mér að fjalla um myndir sem ég hef flestar ekki enn séð, en sannleikurinn er sá að megnið af myndunum sem munu koma til með að taka þátt í kapphlaupinu verða ekki frumsýndar hér á landi fyrr en rétt fyrir hátíðina sjálfa. Því er nauðsynlegt ef einhver umfjöllun á að eiga sér stað fyrir tilnefningarnar að einhver taki sér það bessaleyfi að fjalla um myndir sem hann hefur ekki séð. Í þetta skipti hef ég hugsað mér að fjalla um allar, eða a.m.k. langflestar þær myndir sem borið hefur á góma í umræðunni um tilnefningu í flokkin “Besta mynd” (“Best picture”). Ég ætla að velta fyrir mér möguleikum myndanna á tilnefningu og notfæra mér við þær vangaveltur ýmsar upplýsingar. Það kemur svo í ljós hvort ég legg í það að skrifa um aðra flokka, svo sem leikaratilnefningar eða annað, en þetta verður að duga í bili.

Þær myndir sem ég hef séð hef ég merkt með stjörnu á eftir nafni myndar (*).

————————————————— ——————————————-

21 Grams

Ný mynd frá Mexíkananum Alejandro González Iñárritu sem færði okkur Amores Perros. Hljómar spennandi, en hvað ef ég segi ykkur að í myndinni leiki ekki ómerkari leikarar en Sean Penn, Naomi Watts og Benicio Del Toro? Já, þessi mynd er á ensku, og á því ekki möguleika á tilnefningu sem besta myndin á erlendri tungu, en mig grunar að hún eigi góða möguleika á tilnefningu sem besta myndin. Akademían hefur alltaf verið hrifin af Penn og Del Toro og mér finnst ólíklegt að það muni breytast núna. Auk þess hafa gagnrýnendur hrósað myndinni í hástert og sagt hana vera eina þá sorglegustu sem út hefur komið í áraraðir.
——————————————– ————————————————-
Amer ican Splendor

Þessi mynd eftir nánast óþekkt leikstjórapar hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og aðalleikari myndarinnar, Paul Giamatti, sýnir víst algjöran stjörnuleik í hlutverki manns með teiknimyndasöguþráhyggju og þykir líklegur óskarskandídat. Þá er bara spurning hvort American Splendor höfði nógu vel til fjöldans til að hin fjölbreytta akademía falli rækilega fyrir henni. Ég mundi áætla að hún ætti ágæta möguleika, en efast samt um að hún nái inn á topp fimm.
———————————————— ———————————————
Big Fish

Þessi mynd snillingsins Tim Burton þykir vera ein hans besta til þessa, og það verður að teljast mikið afrek þegar um mann með svona feril að baki er að ræða. Albert Finney sýnir víst frábæran leik og Ewan McGregor er víst mjög frambærilegur líka í hlutverki yngri útgáfu persónu Finney. Það hefur verið talað um að hún sé of ævintýralega litrík og ýkt fyrir hinn almenna akademíumeðlim, en ég held að það muni ekki koma að sök.
————————————————- ——————————————–
Cold Mountain

Dramatískar stríðsmyndir hafa löngum átt upp á pallborðið hjá akademíunni, og ég tala nú ekki um þegar í þær blandast rómantísk ástarsambönd. Cold Mountain skartar líka mjög óskarvænum leikhópi og maður veltir því fyrir sér hvort Anthony Minghella hafi ætlað sér fyrirfram að vinna óskar þegar maður sér nöfn eins og Jude Law, Nicole Kidman, Renée Zellweger og Philip Seymour Hoffman saman í castlista.
—————————————————– —————————————-
Elephant

J æja, þá er komin ný mynd frá hinum mjög svo mistæka leikstjóra Gus Van Sant, og þessi mynd fær einmitt mjög misgóða dóma. Sumir segja að myndin, sem fjallar um líf krakkanna í Columbine skólanum í Littleton morguninn fyrir skotárásirnar þar, sé algjört meistaraverk, en aðrir vilja meina að hún sé tilgerðarleg og langt frá því að vera góð. En þrátt fyrir það þá er örugglega enginn vafi á því að þessi mynd er átakanleg og það hefur alltaf farið vel í meðlimi óskarsakademíunnar. Elephant gæti átt einhvern séns þó svo að mér finnist ólíklegt að hann sé mikill.
———————————————- ———————————————–
Findin g Nemo *

Allir sem hafa séð Finding Nemo, nýjustu myndina frá snillingunum hjá Pixar, eru sammála um það að hún sé góð, og ekki bara að hún sé góð, heldur að hún sé mjög góð, og það fyrir alla fjölskylduna. Það sem mælir helst gegn því að Finding Nemo verði tilnefnd sem besta mynd er það að það er til flokkur eingöngu fyrir myndir eins og hana, Best Animated Movie, eða besta teiknimynd. En það má þó ekki gleyma því að teiknimyndir hafa verið tilnefndar sem besta mynd, og gerðist það síðast árið 1992 þegar Beauty and the Beast var tilnefnd. Mér finnst samt tæpt að Finding Nemo hljóti tilnefningu flokkin Besta myndin en þó veit maður aldrei hvað gerist.
———————————————- ———————————————–
House of Sand and Fog

Ef Jennifer Connelly og Ben Kingsley taka að sér hlutverk í mynd eftir algjörlega óþekktan leikstjóra þá hlýtur handritið að vera gott. Sú er víst einmitt raunin í þessu tilviki, enda er það skrifað eftir þekktri skáldsögu, og þekktar skáldsögur eru jú yfirleitt þekktar sökum þess hve góð sagan er. House of Sand & Fog er dramamynd um Indverskan innflytjanda, leikinn af Ben Kingsley, en Kingsley fer það afskaplega vel úr hendi að leika menn frá austurlöndum, verandi hálf Indverskur að uppruna. Mér finnst líklegt að hérna séum við að tala um tilnefningu í “Besta handrit byggt á áður útgefnu efni” flokkinn, og hugsanlega einhverjar leikara tilnefningar, en ólíklegra þykir mér að House of Sand and Fog hljóti tilnefningu sem besta mynd.
———————————————— ———————————————
The Human Stain

Þó svo að þessi dramatíska ástarsaga um prófessor sem verður ástfanginn af ræstingarkonu hafi verið orðuð við tilnefningu verður að teljast harla ólíklegt að hún hljóti eina slíka. Myndin hefur fengið slaka dóma og svo virðist sem stórleikararnir og óskarsvinirnir Anthony Hopkins og Nicole Kidman hafi ekki getað bjargað þessari mynd frá aumri meðalmennskunni. Það má nánast afskrifa þessa, nema þá hugsanlega í leikaratilnefningunum.
——————————- ——————————————————- ——-
In America

In America er fimmta mynd leikstjórans Jim Sheridan, en einungis önnur mynd hans sem ekki skartar Daniel Day Lewis í aðalhlutverki. Í þetta skipti eru engar stórstjörnur í leikaraliði Sheridans, en það þykir víst ekki koma að sök, því myndin er víst virkilega góð og hefur hlotið mjög jákvæða dóma. Þrátt fyrir það efast ég stórlega um að þarna sé efni í “Best Picture” tilnefningu og það þarf ekki einu sinni að vera að In America hljóti yfirleitt einhverja tilnefningu, þó svo að það hún eigi svo sem alveg möguleika í einhverjum minni flokkum.
——————————————— ————————————————
Kill Bill Vol. 1 *

Nýjasta mynd mannsins með flekklausa ferilinn, og hún er óralangt frá því að flekka hann. Quentin Tarantino sýnir það og sannar enn einu sinni hvers hann er megnugur með ofbeldisveislu sem hittir beint í mark. En þó svo að Kill Bill ætti tilnefningu svo sannarlega skilið, og það hafi meira að segja verið talað um hana sem mögulegan þáttakanda í óskarskapphlaupinu, þá held ég því miður að hún sé einfaldlega of ofbeldisfull og ýkt til að hljóta náðir fyrir augum akademíunnar. Þó má ekki afskrifa hana.
—————————————————– —————————————-
The Last Samurai

Önnur af tveimur epískum myndum í þessum hópi, en ekki endilega sú betri. Sagan er gömul klisja sett í nýjan búning. Frægur hjartaknúsari leikur hvíta manninn sem verður hetja fólksins sem tekur hann að sér. Við höfum séð þetta allt saman áður í myndum eins og Dances with Wolves og The Last of the Mohicans, það eina sem er öðruvísi núna er að myndin á sér stað í Japan. Það, og sú staðreynd að myndin hefur ekki verið að fá neina framúrskarandi dóma (þeir eru flestir jákvæðir, en ekki mjög háir) segir mér að hún eigi ekki eins mikla möguleika og menn bjuggust við fyrirfram, þó svo að það verði a ðviðurkennast að möguleikarnir séu svo sannarlega til staðar.
———————————————- ———————————————–
Lord of the Rings: Return of the King

Þarf að segja eitthvað um þessa mynd? Það eru flestir sammála því að það sé engin spurning hvort síðasta mynd þessa ótrúlega bálks verði tilnefnd, bara spurning um það hvort hún vinni eða ekki.
———————————————— ———————————————
Lost in Translation

Lost in Translation er önnur stóra myndin frá Sofiu Coppola, dóttur leikstjórans Francis Ford Coppola, en fyrri stóra mynd hennar var The Virgin Suicides, sem þótti afbragðsmynd. En Lost in Translation, sem mætti kalla rómantíska drama-gamanmynd, þykir þó mun betri. Bill Murray fer með aðallhlutverkið og stendur sig víst með afbrigðum vel, og það er þegar farið að orða hann við óskarstilnefningu. Myndin er önnur tveggja mynda á þessum lista sem gerast í Japan, og ég held að þessi eigi þónokkuð meiri möguleika hjá akademíunni en sú epíska.
———————————————- ———————————————–
Love Actually *

Hérna er á ferðinni bráðskemmtileg rómantísk gamanmynd frá rómantískra gamanmynda frömuðinum Richard Curtis. Love Actually hefur hlotið að mjög góða dóma að meðaltali, þó svo að nokkrir slæmir hafi laumað sér með. Mynd eftir sögu Curtis hefur verið tilnefnd sem besta mynd, þegar Four Weddings and a Funeral var tilnefnd 1994, en ég stórefast um að það muni gerast aftur í bráð. Love Actually gæti átt von á eins og einni aukahlutverka tilnefningu og jafnvel tilnefningu fyrir handrit , en er tæplega kandídat í eitthvað stærra.
———————————————- ———————————————–
Master & Commander: The Far Side of the World

Master & Commander er hin epíkin í hópnum, en er hún eitthvað meira en epísk? Nú þori ég ekkert að fara með það, hafandi ekki séð myndina, en það er eitthvað sem segir mér að það búi ekki mikið að baki þessari mynd, og hún keyri áfram á epíkinni einni saman, og hugsanlega realismanum. Ákveðinn huganotandi lýsti myndinni fyrir mér þannig að hún væri “mjög gott kennslumyndband um það hvernig á að vera sjómaður á 18. öld”. Kannski eru þetta Russel Crowe fordómarnir í mér, en ég vona svo sannarlega að akademíumeðlimir eigi eftir að sjá í gegnum þessa mynd. Sannleikurinn er þó sá að myndin á mjög mikla möguleika..
—————————————— —————————————————
Ma tchstick Men *

Ridley Scott hefur löngum verið þekktur fyrir að gera hraðari myndir en Matchstick Men, en hraðinn segir greinilega ekki alla söguna, því Scott hefur hérna tekist merkilega vel að skapa áhugaverða kvikmynd án þess að hafa allt á blússandi siglingu allan tíman. Allir leikarar myndarinnar fara gjörsamlega á kostum, og má þar sérstaklega nefna hina 24 ára gömlu Alison Lohman sem túlkar 14 ára stelpu á svo sannfærandi hátt að maður trúir því varla að leikkonan sé tíu árum eldri. En þó svo að nafn myndarinnar hafi borið á góma í óskarsumræðunni þá held ég að Matchstick Men hafi alls ekki nóg til brunns að bera og það sé alveg hægt að afskrifa hana, nema þá kannski í leikaratilnefningunum.
——————————- ——————————————————- ——-
The Missing

Ron Howard hefur verið vinsæll hjá akademíunni undanfarið, en nýjasta mynd hans, The Missing, hefur ekki verið að fá neina merkilega dóma, og verður líklega að kenna slakri sögu um það. Tommy Lee Jones og Cate Blanchett standa sig líklega með prýði að venju en það dugar að öllum líkindum ekki til og þó svo að það megi kannski ekki útiloka hana alveg frá hátíðinni þá held ég að það sé alveg útilokað að The Missing hljóti tilnefningu sem besta mynd.
———————————————— ———————————————
Mona Lisa Smile

Akademían hefur einstakt dálæti á Juliu Roberts og það kæmi mér ekki mikið á óvart ef hún hlyti sína fjórðu tilnefningu í janúar. En það þarf samt sem áður ekki að þýða að myndin eigi mikla möguleika á tilnefningu sem besta mynd. Mona Lisa Smile þykir nefnilega svo væmin að jafnvel akademíumeðlimir eigi eftir að fá upp í kok þegar þeir sjá hana. Sagan er kannski góð og leikurinn jafnvel enn betri, en það má alveg örugglega líta fram hjá Mona Lisa Smile þegar kemur að tilnefningu fyrir bestu mynd.
———————————————— ———————————————
Mystic River*

Þessi frábæra mynd frá eilífðar harðjaxlinum Clint Eastwood hefur hlotið verðskuldað lof gagnrýnenda sem og áhorfenda, og er þar aðallega að þakka mögnuðum leik allra aðalleikara myndarinnar. Þessi mynd er alllangt frá því að vera “feelgood” mynd, og væri réttara að kalla hana “feelbad” mynd, svo dramatísk og átakanleg er hún. Mystic River var nýlega talin líklegust af gagnrýnendum til að hljóta tilnefningu í vor, og þó svo að listinn hafi breyst lítillega þá er hún samt mjög nálægt toppnum.
——————————————— ————————————————
Open Range

Kevin Costner hefur að margra mati ekki gert neitt af viti síðan hann lék í JFK hans Oliver Stone hérna um árið, og ekki leikstýrt neinu af viti síðan hann frumraunin hans, Dances With Wolves, leit dagsins ljós. Það hefur því verið frekar ánægjulegt að fylgjast með fólki taka Costner aftur í sátt eftir að það hefur séð Open Range, sem hefur hlotið ágætis dóma og hefur jafnvel verið kölluð besti vestri síðan Unforgiven hlaut óskarinn eftirsótta árið 1992. En það eitt að rífa sig uppúr skítnum með frekar frambærilegri mynd er enginn ávísun á óskar og ég held að Costner þurfi að gera enn betur en þetta ef hann ætlar sér stóra hluti á óskarsverðlaunahátíðum framtíðarinnar.
————————————– ——————————————————-
Seabiscuit

Seabiscuit er mynd sem mér fannst hljóma vægast sagt óspennandi þegar ég heyrði af henni fyrst. Mynd um hálfblindan og renglulegan knapa leikinn af Tobey Maguire sem skýst á toppinn á hesti sem fólk hafði afskrifað, mér fannst vera einhver Horse Whisperer fnykur af þessu, og ekki nóg með óáhugaverðan söguþráð, heldur hét myndin líka einhverju asnalegasta nafni sem sögur fara af. Ég var ekki spenntur. En svo kom það á daginn að myndin var víst hörkufín, enda hefði ég kannski átt að vita betur þar sem Jeff Bridges, Chris Cooper og William H. Macy voru allir tilbúnir að taka að sér hlutverk í myndinni. Seabiscuit þykir eiga ágætis möguleika á tilnefningu þó svo að ég efist persónulega um að hún nái inn á hinn eftirsótta, fimm mynda langa, lista.
———————————————– ———————————————-
Whale Rider

Barnamynd sem er ekki væmin? Hljómar það eins og eitthvað merkilegt? En ef ég segi ykkur að í henni sé hugsanlega að finna bestu leikframmistöðu krakka í manna minnum? Já, mér finnst þessi mynd vægast sagt áhugaverð og ég er víst ekki einn um það því að Whale Rider er nú þegar farið að orða við hin ýmsu verðlaun, þá sérstaklega hina 13 ára gömlu Keishu Castle-Hughes sem þykir eiga mikla möguleika á tilnefningu sem besta leikkona í aðalhlutverki. Samt sem áður er ég tilbúinn að sverja fyrir það að Whale Rider muni ekki vera tilnefnd sem besta mynd, ekki vegna þess að hún sé ekki nægilega góð.
————————————————- ——————————————–


Þá er komið að því að ég ljóstri því upp hvaða fimm myndir ég telji að eigi eftir að lenda á hinum ótrúlega eftirsótta lista tilnefninga. Þessi listi er byggður á því sem ég hef lesið um myndirnar fyrirfram, þeirri gagnrýni sem myndirnar hafa hlotið og eðli myndanna. Minn listi lítur svona út (í stafrófsröð):

21 Grams – Alejandro González Iñárritu
Big Fish – Tim Burton
Cold Mountain – Anthony Minghella
Lord of the Rings: Return of the King – Peter Jackson
Mystic River – Clint Eastwood


Næstu myndir inn á lista væru (í stafrófsröð): The Last Samurai Lost in Translation, Master & Commander og Seabiscuit.


Látiði vita hvað ykkur finnst um þennan lista, hvort ég gleymdi einhverju mikilvægu og endilega skrifið ykkar eigin fimm mynda lista. Mér þætti líka gaman að vita hvort þið höfðuð gaman af greininni og hvort þið væruð til í að sjá svona greinar um aðra verðlaunaflokka.