Reloaded var löng, hæg uppbygging og hægt framhald. Þessi er hins vegar sú hraðasta af öllum Matrix myndunum, hraðar klippingar, styttri samtöl og styttri bardagaatriði. Þetta skilar sér í þessum gamla, góða Matrix fíling sem ég man eftir úr fyrstu myndinni.
Eftir hægar fyrstu mínútur fer myndin í gang og hættir aldrei, en er þó aldrei of aksjón-pökkuð, alltaf vill maður sjá meira. Flest bardagaatriðin eru stutt framanaf, nema þá umsátrið um Zion, sem er með stórkostlegustu hlutum sem ég hef séð. Fegurðin og ljótleikinn samblandaður í þessum senum var alveg ótrúlegur.
Einnig er Smith. Mikið af Smith. Svo mikið að ekki sér fyrir endanum á honum. Hann á stórkostlegar ræður sem bæði Smith og Bane. Svo er að sjálfsögðu lokauppgjör Smiths og Neo, “the Superbrawl”, sem er ótrúlega flott atriði, þó styttra en margir hefðu búist við. Ég var hræddur um að þetta atriði yrði leiðinlegt og langdregið sem er einmitt ekki það sem kvikmyndabardagar eiga að vera, en lengdin var fullkomin og skilaði öllu sem þurfti að skilast.
Einnig ber að nefna að eftir hina blóðlausu Reloaded er komin all-nastí mynd. Mikið er af blóði og sárum, sérstaklega í raunverulega heiminum, því að Sentinelar hugsa ekki mikið um snyrtilegheitin. Bardaginn milli Mechana sem Zionistar nota til varna og Sentinelana er alveg hreint ótrúlegt spectacle, eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Tónlist myndarinnar er besta kvikmyndatónlist sem ég hef heyrt í langan tíma, ótrúlega epísk tónlist, mikið af kór. Ég ætla mér að kaupa diskinn með lögunum, enda alveg ótrúlega flott, mörg hver.
Maður getur séð hvert peningar fyrir tæknibrellur fóru, þar sem Revolutions lítur aldrei fölsk út, alltaf jafn stórkostleg ferð, aldrei neitt sem dregur mann frá.
En það sem gerir þær svona góðar er fegurð skotanna sem voru sköpuð. Ég hélt að þegar Agentinn kramdi bílinn í Reloaded væri “breathtaking”, en nú veit ég sanna merkingu þessa orðs. Þið munuð þekkja skotið sem ég er að tala um þegar þið sjáið það.
Svo er það endirinn.
Alltof margir eru að búast við því að endirinn svari einfaldlega öllu. Það sem fólk gleymir er það að þetta er heimspekileg mynd, og í heimspeki eru ekki til svör, aðeins fleiri og áhugaverðari spurningar. Það er nákvæmlega það sem endir Revolutions færir manni, umhugsunarefni. Eitthvað til að pæla í. Eitthvað sem aðrar bíómyndir gera ekki. Eitthvað sem aðeins Matrix hefur. Ástæðan fyrir því að ég elska þessar myndir.
Mér finnst endirinn stórkostlegur vegna þess að ég fór út eftir sýninguna og ræddi heimspeki tengda við endinn í langan tíma við félaga minn.
Það gerist ekki á hverjum degi að mynd komi sem fái mann til að hugsa svona, og þess vegna á maður að vera þakklátur fyrir þær sem gera það.
Lokaorð? Þessi mynd er stórkostleg, og mun tryggja The Matrix sæti sem ein af bestu trilógíum allra tíma. Hún gerir Reloaded að góðri mynd og útskýrir þá hluti sem virtust ofaukið í henni. Hún fær mann til að hugsa, og er alveg hreint ótrúlega skemmtileg.
Fjórar stjörnur af fjórum: ****/****
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane