Robert Zemeckis er einn af mínum uppáhalds leikstjórum og hefur í gegnum tíðina leikstýrt fjölmörgum þekktum og góðum kvikmyndum fyrir utan það að skrifa handrit og framleiða aðrar myndir. Það má segja að hann hafi “komist á kortið” árið 1984 með myndinni Romancing the Stone með Michael Douglas og Kathleen Turner. Ári seinna leikstýrði hann myndinni og skrifaði handritið að Back to the Future sem er ein af mínum uppáhalds myndum. Hún var tilnefnd til fjögurra Óskarsverðlauna og van ein, bestu hljóðbrellur. Þar með var Robert kominn til að vera og hafði sannað sig sem leikstjóri og snillingur í afþreyingarmyndum. Robert hafði hægt um sig næstu þrjú árin en árið 1988 leikstýrði hann myndinni um Kalla kanínu, Who Framed Roger Rabbit sem var tilnefnd til sex Óskara og vann þrenn. 1989 og 1990 kláraði hann þríleikinn sem hann hóf með Back to the Future I með tveimur framhaldsmyndum, Back to the Future II og Back to the Future III sem voru teknar upp báðar í einu. Að mínu mati er það einn allra skemmtilegasti þríleikur frá upphafi. Það var lítið í gangi næstu árin hjá Robert en hann leikstýrði þó einni mynd sem var algjört horror, Death Becomes Her. Það var ekki fyrr en árið 1994 sem Robert fékk loksins almennilegt verkefni sem ekki margir hefðu þorað að ráðast í, hina frábæru Forrest Gump. Hún var STÓRmynd sem var sigurvegari Óskarsverðlaunahátíðarinnar árið '94 en hún var tilnefnd til 13 Óskara og vann öll stærstu verðlaunin, besta myndin, Tom Hanks fékk fyrir aðalhlutverk, Robert Zemeckis fyrir leikstjórn, besta handrit sem byggt var á öðru efni og bestu tæknibrellur. Hún vann þar með ekki ómerkilegri myndir en The Shawshank Redemption og Pulp Fiction. 1997 gerði hann hina vanmetnu mynd um náttúruleg fyrirbæri í geimnum sem heitir Contact. Næstu ár á eftir var hann að undirbúa sig undir næsta þrekvirki sem leit dagsins ljós árið 2000, Cast Away en mörgum finnst hún hundleiðinleg þó að mér finnist hún frábær. Hún fjallaði um strandaglóp á eyðieyju. Tom Hanks sýndi enn og aftur hvers hann er megnugur með frábærum leik í myndinni sem strandaglópurinn Chuck Nolan. Á meðan Robert var að gera Cast Away og beið eftir að Tom Hanks missti 30 kíló þá gerði hann mynd sem þykir ein besta hrollvekja í áraraðir, What Lies Beneath en mér finnst hún ömurleg þó að hún sé vel gerð og með úrvalsleikurum í broddi fylkingar.
Það næsta á dagskrá hjá hinum frábæra leikstjóra er The Polar Express og mun Tom Hanks enn og aftur leika í mynd hans. Ég bíð spenntur eftir The Polar Express því næstum allt sem Robert hefur sent frá sér hefur verið frábær mynd.
Vonandi höfðuð þið gaman að þessu, takk fyrir mig.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.