Þannig snýr Tracy, aðalpersóna Thirteen, lífi sínu á haus eftir að Evie, aðalgella skólans, ákveður að gefa henni sjens. Evie er falleg og töff og veit of mikið um eiturlyf og kynlíf en stelpa á hennar aldri ætti að gera. Fram að því hefur Tracy verið dugleg í skólanum og góð við móður sína, óvirka alkóhólistann, og aðstoðað hana af fremsta megni í lífsbaráttu einstæðrar móður sem er að reyna að láta enda ná saman og veita börnum sínum tveimur það sem unglingum nútímans finnst nauðsynlegt. Tracy á vinkonur sem eru jafnduglegar og hallærislegar og hún en hana dreymir um að vera stelpa sem tekið er eftir og stelpa sem þorir að láta taka eftir sér. Eftir að Evie læðist inn í líf hennar, og nánast flytur heim til hennar, fer Tracy að dópa, sofa hjá, stela og ljúga og verður algjörlega afhuga fjölskyldu sinni. Mamma hennar stendur uppi ráðalaus og skilur ekki hvernig hvítt getur breyst í svart á svona skömmum tíma.
Handrit Thirteen er frábært: átakanlegt og hörkulegt, reynir aldrei að breiða yfir, útskýra eða fegra. Leikstjórnin er ungæðisleg og dogmastíllinn hentar efninu sérlega vel. Leikurinn skilur mann orðlausan eftir. Evan Rachel Wood, sem leikur Tracy, sýnir þróunina úr feiminni ljóðelskri stúlku í kjaftforan, dópaðan ungling svo vel að maður er með verk í maganum allan tímann af hræðslu yfir því hvert breytingin leiði hana. Nikki Reed er sömuleiðis ótrúleg í hlutverki Evie og nær að sýna ráðvilltan og athyglissjúkan unglinginn á bak við töffarann. Nikki er annar höfundur handritsins og er sagan að einhverju leyti byggð á hennar eigin lífi. Holly Hunter fer út á ystu nöf sem móðirin Melanie sem á engin ráð nema ást í átökunum við dóttur sína.
Ég las einhvers staðar að verstu árin í lífi hverrar konu væru árið sem hún er 13 ára og árið sem dóttir hennar er 13 ára. Það er ekki ofsögum sagt.
Leikstjóri: Catherine Hardwicke. Handrit: Catherine Hardwicke og Nikki Reed. Kvikmyndataka: Eliot Davis. Tónlist: Mark Mothersbaugh. Aðalleikarar: Evan Rachel Wood, Nikki Reed og Holly Hunter.
Tekið af DV.is
Það skoða ekki allir DV þannig að ég setti þetta bara hingað!!
- EgóTripp!