Kill Bill er eins og alltaf, allt öðruvísi en allt annað. Það sem alltof margir búast við af Quentin Tarantino er einfaldlega önnur Pulp Fiction, að nota aftur formúluna sem virkaði í sönnum Hollívúdd stíl. Það er svo sannarlega ekki málið í Kill Bill.
Kill Bill hefur minna af orðbragði og löngum samræðum en hinar Tarantino myndirnar. Einnig er minna af hinum frægu löngu skotum hans, þar sem allt er gert í einu skoti og ekkert klippt saman. Svarti húmorinn er hins vegar kominn aftur tvöfaldur, og svo það besta við Kill Bill, og það eru áhrif á mann þegar maður kemur út úr bíóinu.
Talandi um furðulegheit myndarinnar: Kill Bill, í fyrsta lagi, skiptist í parta en er ekki bara með senu eftir senu eins og aðrar myndir. Í öðru lagi, þessi mynd er svo súrrealískt ofbeldisfull að mér var nóg um sjálfum. Þegar einhver er hogginn með Katanasverði í þessari mynd fljúga limir og sprautast blóð í ofboðslegu streymi sem minnir á túristastaði Íslands, Gullfoss og Geysi. Það lítur fáránlega út, en er þó eitthvað sem myndin gæti alls ekki verið án.
Kill Bill leikur sér að klisjum sem þessum, viljandi lélegum blóðbrellum og “flashbacks”. Einnig þá er einn svakalegasti partur myndarinnar stuttur partur sem er í teiknuðum, japönskum “anime” teiknimyndastíl, sem hefur gríðarleg áhrif á mann eftirá. Það er blóðugt og gríðarlega glæsilegt, og passar mjög vel inní andrúmsloft myndarinnar og upplifunina í bíói.
Það er orðið yfir þessa mynd, upplifun. Hún er alveg gríðarlega góð, gríðarlega áhrifamikil. En þó er einn galli sem mér finnst plaga hana: Hún er ekki í heilu lagi, og það vantar helminginn eftir á hana, sem kemur í Kill Bill: Volume 2 einhverntíman árið
2004. Forsagan bakvið það var að þegar tökum var lokið stóðu Miramax, framleiðendur myndarinnar, uppi með fjögurra klukkustunda mynd, og sérvitringurinn Tarantino neitaði að klippa neitt út. Því var ákveðið að skipta myndunum upp í tvo parta, a la Matrix Reloaded og Revolutions. Hins vegar voru Reloaded og Revolutions hugsuð sem tveggja parta mynd frá byrjun, en það var Kill Bill ekki.
Í endinn vildi ég endilega fá meira, og alla myndina var ég eiginlega bara hræddur um að hún mundi að fara að enda. Ég hefði horft í tvo tíma í viðbót, er ég viss um, og það hefði aðeins bætt þessa lífsreynslu sem Kill Bill er. Ég er því doldið fúll útí Miramax þessa stundina. :)
Vegna þessarar skiptingar á myndum get ég ekki fengið af mér að gefa Kill Bill: Vol. 1 fjórar stjörnur. Þrjár og hálf stjarna er þá lokagjöf. Ég mæli með því að fólk reyni þessa mynd. Það er enginn vafi á að margir munu ekki þola hana, en fyrir vonandi flesta mun þetta verða alveg frábær mynd, og þeir munu bíða með jafnmikilli eftirvæntingu eftir Vol. 2 og ég geri nú.
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane