Below(2002) Ég hef ætlað að kíkja á Below í nokkurn tíma núna en alltaf frestað því. Á sínum tíma beið ég heillengi eftir því að hún kæmi í bíó hérlendis en ég varð ekki af ósk minni því hún var aldrei tekin til sýninga hér á stóra tjaldinu. Loksins kom hún svo út á video og þá hlakkaði í mínum en eins og fyrr hefur komið var aldrei tími til að kíkja á hana fyrr en í gær. Ástæðan fyrir því að ég var svona spenntur fyrir þessari mynd eru tveir heiðursmenn að nafni David Twohy og Darren Aronofsky. Twohy hef ég verið hrifinn af í þó nokkurn tíma eftir að hann sendi frá sér óvænta geimþrillerinn The Arrival, sem verður að teljast besta mynd Charlie Sheen. Eftir það gerði hann annan óvæntan smell sem hét Pitch Black, með núverandi arftaka Arnold Schwartzenegger, honum Vin Diesel. Pitch Black var hræódýr sci-fi spennumynd og sannaði enn frekar hæfileika Twohy. Aranofsky þekkja margir eftir myndunum hans Pí og Requiem For A Dream sem báðar þykja vægast sagt áhugaverðar. Aronofsky er eingöngu handritshöfundur hér og Twohy leikstýrir. Þegar ég heyrði fyrst að þessir tveir menn væru að gera þessa mynd þá var ég nokkuð viss um að hérna væri snilldarmynd á leiðinni og sú varð raunin.

Below gerist í Tiger Shark kafbát bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni. Þessi ákveðni bátur er nýlega búinn að missa skipstjóra sinn á undarlegan hátt og er á leið heim þegar þeim er gefinn skipun um að aðstoða breskt sjúkraskip. Bátnum er nú stjórnað af næstráðandanum Brice, sem virkar frekar óstöðugur maður með margt á samviskunni. Þegar að breska skipinu er komið kemur í ljós að það er búið að sprengja það í loft upp og kafbáturinn neyðist til að taka að sér þrjá afkomendur sjúkraskipsins. Það eru tveir karlmenn og ein hjúkrunarkona. Áhöfnin er illa við að fá konu í bátinn af hjátrú sem lengi hefur fylgt sjóhernum. Þegar kafbáturinn heldur svo af stað heim fara undarlegir atburðir að gerast sem slæmt er að fást við í lokuðum vistarverum. Ekki hjálpar það til að þau þurfa að forðast þýska kafbáta líka og lenda í barðinu á einum sem gefst ekki svo auðveldlega upp. Inn í þetta blandast svo allskonar sögufléttur sem ég ætla ekkert að skemma hér að svo stöddu.

Þar með fer af stað ein af draugalegustu atburðarrásum sem ég hef orðið vitni að í langan tíma. Andrúmsloftið í þessari mynd er magnað og heldur manni rígföstum allan tímann. Maður hrekkur við af minnsta tilefni og er eiginlega á nálunum restina af myndinni. Myndatakan er notað hér sem hjálpartæki við að búa til enn meiri spennu og lýsing er nokkuð drungaleg á köflum. Það sem Twohy nær að skapa á svo sérstæðan hátt er í raun lágstemmd draugamynd sem byggist á andrúmslofti og kannski örfáum bregðuatriðum. Það sem gerir myndina ennþá óhugnalegri er að fólkið getur ekkert farið. Það hefur nefnilega oft farið í taugarna á mér þegar fólk verður fyrir draugagang að það drullar sér ekki bara burt en á miðju Atlandshafi er lítið hægt að gera. Jafnvel lítil atriði eins og neðarjarðarsprengja að skoppa bókstaflega á bátnum verður eins spennandi og þannig atriði getur orðið. Innilokunin og vonleysið fær fólkið í bátnum til að hegða sér undarlega og þá myndast fyrst almennileg togstreita í bátnum. Það er eiginlega ótrúlegt að engum hafi dottið það í hug að gera draugakafbátamynd áður því kafbátur er versti staðurinn fyrir draugagang án nokkurs vafa.

Leikararnir eru allir frekar óþekktir en þeir hafa allir andlit sem maður þekkir þótt maður viti ekki nöfnin á þeim. Flest allir standa sig vel í hlutverkum sínum nema þá helst Bruce Greenwood í hlutverki næstráðanda Brice, hann passar ekki vel í hlutverkið. Allir aðrir smellpassa í hlutverkin sín og saknaði maður ekkert þess að sjá einhvern A-lista Hollywood leikara í þessari mynd. Þetta er óvæntur gullmoli líkt og Equilibrium sem aldrei komst í bíó sem er synd því þessi mynd hefði gert fólk sturlað af hræðslu í kbikmyndahúsi á stóru tjaldi. Niðurstaðan er sú að þessi telst í mínum bókum sem ein af betri hryllingsspennumyndum síðari ára og vonandi verður hún valinn besta “beint á video” myndin hér á landi af myndböndum mánaðarins. Horfið endilega á þessa í myrkri og njótið snilldar horrormyndar.


-cactuz