Matrix myndirnar hafa átt huga og hjörtu nörda jafn sem almúgafólks allt síðan fyrsta myndin kom út fyrir margt löngu. ekki að ástæðulausu, enda höfðar hún til mikils og breiðs hóps af fólki. Allir eru yfirmáta svalir á nett gothlegan máta, með sólgleraugun sín og í síðu frökkunum, kúlið hvergi sparað svo meðaljónin fær eitthvað fyrir sinn snúð. Þeir sem hafa gaman af því að grafa undir yfirborð mynda geta skemmt sér við að finna duldar merkingar atriða jafnt sem við að túlka hin ýmsustu atriði hægri og vinstri. Þannig er intellectúalnum fróað. Konur hafa tvær “hot” stæltar karlhetjur sem kunna að berja frá sér, og karlar hafa bæði hana Þrenningu í plastíkgallanum og nú nýverið Monicu “Mad Hot Gella” Bellucci.
Það skortir því ekki víða aðdáendahópinn.
Ástæðuna fyrir þessum hópaveiðum tel ég fyrst og fremst vera tilraun Wachowski bræðra til að koma heimspekilegum pælingum, umræðum og hugsunum almennings meira upp á yfirborðið.
Fyrir hundruðum ára þótti fátt jafn fínt og að vera heimspekingur, hugsuður sem grúskaði í merkingum heimsins, reyndi að finna rök í rökleysunni sem er tilvera mannsins. Hvers vegna erum við hér, erum við þau sem við teljum, hver er maðurinn í raun og fleiri spurningar í þessum dúr hafa brunnið á vörum heimspekinga eins og Schoppenhauer, Nietszche, Sartre og allt aftur til tíma Plató.
En heimspeki nútímans hefur heldur setið undir hælnum ef eitthvað er. Nútímaheimspekingurinn er skeggjaður auðnuleysingi sem komst ekki í gegnum íslensku í Háskóla Íslands, sötrar tebolla á sirkus á meðan hann skrifar dagbækur sem enginn á eftir að nenna að lesa, en hann byrtir samt sem áður á blogginu sínu. Öllum pælingum hefur verið nauðgað og útjaskað og það eina sem stendur eftir er að reyna að sanna að köttur hafi níu skott.
Þó má rekast á mjög góðar heimspekilegar pælingar á ólíklegustu stöðum. Einn mest áberandi af þeim er japanska teiknimyndin Ghost in the shell, sem tekur á efninu, hvar skilur milli manns og vélar á mjög raunverulegan og markverðan hátt.
En hver horfir á japanskar teiknimyndir, annar en nördinn og japaninn (sem allir eru nördar upp til hópa)?
Því var það að Wachowski bræður tóku sig til og pökkuðu heimspekilegum pælingum sínum í svona líka “hipp og kúl” pakka, sem allir hefðu áhuga á (eða flestir, ekki hægt að gera ÖLLUM til geðs).
Í fyrstu myndinni var raunverulegum heimspekiumræðum haldið í lágmarki, meiri áhersla var lögð á hasar og læti. Öngullinn var þannig beittur til að húkka áhorfandann.
Í síðustu mynd aftur á móti skreið heimspekileg umræðan upp á yfirorðið með samtali Neo og borgarstjóra Zion, þar sem borgarstjórinn lék sér með huga Neo eins og deig með rökbroti sínu og rökleysu.
Því spái ég því að næsta Matrixmynd mun innihalda umtalsvert færri tæknibrellur og helst til lítinn hasar.
Myndin hefst með vanalegu grænustöfunum sem síðan feida út í hvítt herbergi með gríðarstóru hringborði, þar sem við sitja meginkarakterar myndaþrenningarinnar.
“Hey all you guys out there, and welcome to the third and final matrix”, segir Neo og brosir vinalega. “We're very glad you could be here with ous the conclude this epic journey through the wonderings and amazements philosophy can conjure in ones mind”, segir Mr. Smith síðan.
Síðan upphefjast hringborðsumræður þar sem tilgangur mannsins er skeggræddur, Matrixið er skýrt í þaula, munur vélar og manns rætt fram og tilbaka og hlutverk karlmannsins í kynþrælkuðu samfélagi ber oftar en einu sinni á góma.
Til að allir grípi ekki fram í hvor öðrum mun svo kallað “samræðuprik” vera látið ganga á milli, sá einn má tala sem hefur prikið undir höndum. En þegar líða fer á umræðurnar skapar Mr. Smith leiðindi með því að tvöfalda sjálfan sig og láta prikið ganga í sífellu til sjálfs síns, og reyna þannig að rökræða Neo í hel. Neo nýtir sér þá rökbrotin bæði og rökleysuna sem hann lærði í Zion og sýnir þar með fram á að hinn raunverulegi styrkur mannsins liggur í færni hans með listir hugans umfram styrk líkamans.
þegar Neo hefur sýnt Mr. Smith fram á villu síns vegar fallast þeir í faðma og myndinni líkur.
Aðdáendur munu fyrst ekki vita hvaðan á sig stendur veðrið, en fljótlega spretta upp umræðuhópar víðsvegar um heiminn, fólk tekur til rökræðna frekar en ofbeldis, stríð og hryðjuverk leysast upp og hverfa eins og dögg fyrir sólu.
Á Íslandi verður þetta til þess að fólk fer að taka með sér orðabækur á djammið frekar en vopn, tilvitnanabækur umfram brotnar bjórflöskur og það verður ekki óvanaleg sjón að sjá tvo drukkna Íslendinga reyna að kveða hvorn annan í kútinn yfir kvenmanni, eða handrukkara í skuggasundi að rökræða við skuldara og neyða hann þannig til borgunar.
Árið 2010 verða Wachovskibræður síðan kosnir alheims forsetar, skattar lagðir niður og heimurinn endurskýrður Arcadía.
En þetta er bara mín kenning, og öllum er frjálst að reyna að finna einhverja vankanta á henni, ef svo ólíklega vill til að þeir leynist einhverstaðar.