Ég var einn af fjölmörgum sem voru hrifnir af fyrstu Cube myndinni. Ég man þegar ég sá hana á einhverri kvikmyndahátíð í Regnboganum. Hún kom svo skemmtilega á óvart með frumlegheitum sínum og einfaldleika. Það var því ekki umflúið að hafa smá væntingar þegar ég fékk loksins að sjá Cube 2: Hypercube eftir langa og stranga bið. Því miður varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum því Cube 2 reynir á köflum að herma of mikið eftir fyrstu myndinni.
Fyrsta myndin var gerð fyrir litla peninga, sem bitnaði þó ekkert sérstaklega á tæknivinnunni, heldur á leikaravali frekar. Þessi mynd hafði meiri peninga á milli handa en einhvern veginn voru ráðnir ennþá verri leikarar. Sú sem er skömminni skárst heitir Kari Matchett og leikur persónuna Kate, sem er geðlæknir. Eins og í fyrstu myndinni byrjar myndin á því að kynnast átta ókunnugum manneskjum sem vakna inn í furðulegri byggingu sem fullt af kassalöguðum herbergjum. Því miður er allar persónurnar hver annarri leiðinlegri og klisjurnar spýtast í allar áttir. Samtölin á milli þessara persóna eru svo flöt og illa skrifuð að það var varla að maður hafði áhuga á að vita eitthvað um þau. Örvænting hefur greinilega gripið handritshöfundinn og vildi hann greinilega kynna allar persónurnar á nokkrum sekúndum og svo bara skella sér í hasarinn.
Þá er að kynna aðalatriði myndarinnar, sjálfan kubbinn sem fólkið er fast í. Í fyrstu myndinni voru kubbarnir ansi margir, allt að 50 þúsund að mig minnir. Nú hins vegar er önnur öld og nú er kubburinn í fjórðu víddinni. Fjórða víddin er ein af mörgum ráðgátum í eðlisfræði og stærðfræði, ekki það að ég sé sérfræðingur í þeim efnum. Sumir vilja meina að fjórða víddin sé tíminn sjálfur en aðrir hafa komið með enn furðulegri kenningar um hana. Myndin spilar svolítið með það hversu lítið er vitað um hana og kemur með ansi magnaðar pælingar um hana sem eflaust margir eðlisfræðingar fussa yfir. Það er samt gaman af fylgjast með þessum hugmyndum kvikmyndagerðamannanna. Mér fannst samt “gildrurnar” ekki jafn óhugnalegar og í fyrstu myndinni. Það kemur í raun aldrei fram hversu margir kubbar eru því það spilast inn samhliða heimar og efnisflutningar(Beam me up Scotty!!). Í fyrstu myndinni var frekar dökkt útlit á henni og þar sem kubbaherbergin skiptust í dökkgulan lit og rauðan lit og grænan og bláan lit. Í þessari mynd er bara hvítt hvítt og aftur hvítt í öllum herbergjunum.
Leikstjórinn, Andrezej Sekula, er þekktastur sem cinematographer hjá Quentin Tarantino(hann skaut Reservoir Dogs og Pulp Fiction) ásamt því að hafa skotið einnig myndir eins og American Psycho og Hackers. Hann hefur greinilega mikið vald á camerunni og skapar skemmtilega stemmningu í þessari mynd með henni, þar sem allt getur farið á hvolf og maður veit ekki hvað snýr upp né niður. Hann kann hinsvegar ekki að leiðbeina leikurum og ætti því kannski að einbeita sér að linsunni frekar.
Það sem fór mikið á taugarnar á mér var einfalda lausnin á kubbnum í endann, ég gef það að sjálfsögðu ekki upp. Myndin hefði mátt enda öðruvísi og hefði mátt snúa meira um karakteranna í stað kubbsins. Þótt ég sé búinn að vera harðorður um þessa mynd þá mæli ég samt með því að fólk skoði þessa mynd, því hún er áhugaverðari en margar myndir sem hafa verið að koma út. Ekki búast við að sjá jafn góða mynd og fyrsta myndin var. Þessi hefur meira svona cyberspaceþema heldur enn hin og þessi virkar meira sem sýrutripp á köflum. Skylduáhorf fyrir sci-fi junkies og vísindafrík!.
-cactuz