Catch Me If You Can
Það sem gerir þessa mynd merkilegri en hún á kannski rétt á því að vera viðurkennd er að hún er byggð á ótrúlegri en sannri sögu eins snjallasta svikahrapps fyrr og síðar, Frank Abagnale Jr. Frank (Leonardo DiCaprio) ólst upp við gott og öruggt uppeldi móður sinnar (Nathalie Baye) og föður síns (Christopher Walken) sem, samkvæmt myndinni, hann var sérstaklega náinn. En allt fór niður á við þegar foreldrar hans skildu. Er það notað sem ástæðan í myndinni hvers vegna Frank tekur upp á því að blekkja alla í kringum sig. Frank strýkur að heiman og frá því að hann er 16 ára og þar til hann er 19 ára tekst honum, með eintómum blekkingum, að verða flugmaður, læknir og aðstoðarmaður saksóknara í Louisiana án þess að hafa nokkurn tímann farið í eitthvert nám fyrir eitthvað af þessum störfum. Hann giftir sig meira að segja, og kvonfangið er dóttir saksóknarans (Martin Sheen) sem alltaf grunar Frank um græsku. Allann tímann er alríkislögreglumaðurinn Carl Hanratty (Tom Hanks) á eftir honum og í gegnum þennan þriggja til fjögurra ára eltingaleik uppgötva þeir að þeir eiga fleira sameiginlegt heldur en þeir héldu. Steven Spielberg hefur að undanförnu sent frá sér gríðarlega metnaðarfullar myndir eins og A.I. Artificial Intelligence og Minority Report. Ég get skilið vel að hann hafi ákveðið að slappa af og gera eina mynd sem ekki gerðist lengst inni í framtíðinni og væri að velta sér upp úr grunnheimspekilegum spurningum um tilveru mannsins. Og hann hefur svo sannarlega valið áhugaverða sögu að segja. Verst er að oft er ekki nógu vel unnið úr henni. Það sem er vel gert er sambandið á milli Franks og Carls. Báðir eru þeir einfarar, annar lifir fyrir vinnuna sína, hinn er á stöðugum flótta og þá helst frá sjálfum sér. Eina heiðarlega sambandið sem Frank hefur er í rauninni við Carl og Frank er eini maðurinn sem Carl hefur eitthvert alvöru samband við. Það skapast því gagnkvæm væntumþykja á milli þessara tveggja manna, jafnvel þó að Frank viti að Carl muni aldrei hætta að elta hann fyrr en hann er búinn að ná honum og koma honum í fangelsi. Spielberg og handritshöfundurinn Jeff Nathanson koma þessu vel til skila. Annað sem er gott við myndina er frábær leikur Christopher Walken sem pabbi Franks. Frank eldri er í raun sorglegasta persóna myndarinnar. Misheppnaður svikahrappur sjálfur sem fyrrverandi kona hans, og mamma Franks, vill ekkert með hafa og er svo ákafur og þurfandi í hvert skipti, og þau eru fá, sem hann hittir son sinn að átakanlegt er á að horfa. Walken hefur ekki verið jafn góður í ég veit ekki hvað langan tíma og á svo sannarlega skilið Óskarstilnefninguna. Það sem myndinni tekst hins vegar ekki er að láta okkur þykja vænt um aðalpersónurnar, Frank og Carl. Nathanson og Spielberg reyna að varpa ljósi á það hvers vegna Frank lýgur og svíkur alla sem hann hittir en tekst það ekki mjög vel, því miður. Þess vegna er manni í rauninni sama hvað verður um hann. Manni er einnig sama um Carl, því miður. Karakterinn er ekki nógu vel skrifaður svo Carl verður að hálfgerðum leiðindagaur, ólæknandi vinnualka, svo helteknum að konan hans og dóttir hans eru farnar frá honum. Leonardo DiCaprio gerir atriðunum þar sem hann smýgur í gegnum hverja hindrunina á fætur annarri með blekkingum vel skil og hlakkar oft í manni þegar Frank tekst að blekkja kerfið hvað eftir annað. DiCaprio er hinsvegar, og hefur alltaf verið, óttalega takmarkaður. Hann hefur ekki þá dramatísku vigt sem þarf í tilfinningalegri atriði myndarinnar og virkar þar ósannfærandi, eina ferðina enn. Og Tom Hanks er á hálfgerðri sjálfstýringu í þessari. Hann gerir það sem hann gerir ágætlega en maður hefur nú samt oft séð hann betri en þetta. Þetta er hinsvegar alls ekki leiðinleg mynd og oft mjög gaman að fylgjast með snilldarblekkingaleikjum Franks. Fyrir það og frammistöðu Christopher Walkens er myndin vel þess virði að sjá.