The Sixth Day. Jæja. Var frekar treg á að fara á hana en fór samt. Myndin byrjaði vel enda er um ofsalega áhugavert efni að ræða, klónun. Í kynningu koma fram alls kyns staðreyndir sem hafa komið fram í gegnum tíðina og vert er að gefa gaum. Klónunarferlið byrjaði árið 1928 þegar gæji sem heitir Hank Speeman náði að klóna salamöndru, 1944 föttuðu einhverjir hvað genið er og upp frá því hófst enn meiri rannsókn á erfðafræðum og DNA. Síðan er búið að klóna mýs, froska og nú síðast var kindin Dollý klónuð 1997, og háværar raddir byrjuðu að heyrast í fjölmiðlum um réttmæti klónunnar. Rannsóknum fleygir fram og nú síðast kom fyrirtækið General Genomics með allan strúktúr erfðavísa mannsins ráðinn þannig að í dag höfum við tæknina til að klóna manninn!!. Þetta er í alvöru en förum í myndina…
Þegar The 6th Day byrjar er búið að klóna manneskjuna með hörmulegum afleiðingum en áhorfandinn fær aldrei að vita hverjar þessar hörmulegu afleiðingar eru sem er svolítið sniðugt því það er spurning sem allir glíma við í dag. Mótmæli eru á hverju götuhorni og við sjáum aðal vonda gæjann lofa klónun hásterkt. Arnold Schwarzenegger leikur venjulega þyrluflugmann sem elskar fjölskylduna sína ofsa mikið og er svo mikið á móti klónun að hann vill ekki einu sinni fá sér Repet þegar hundurinn hans deyr. Dag einn kemur hann heim úr vinnunni og sér sjálfan sig inní stofu….það er búið að klóna hann!! Næstu 45 mínútur var ég að reyna að fatta af hverju í himninum þeir klónuðu hann….svo kemur það í ljós og ég varpa öndinni léttar. Myndin er svolítið kúl að því leyti að þetta er áhugavert efni en vá hvað leikstjóranum Roger Spottiswoode tekst að klúðra því.
Arnold leikur sem sagt gæja sem er klónaður svo leikur Robert Duvall vísindamanninn sem er ekki alvondur en klónar villt og galið fanta aðalvonda gæjans (því þeir drepast alltaf). Aðal vondi gæjinn er leikinn af Tony Goldwyn en við þekkjum hann úr myndum eins og Ghost (var líka aðalvondi þar) og Kiss the girls. Nei, ókei við þekkjum hann ekki neitt enda er hann ekkert sérstaklega frægur. Allaveg…Þetta teymi vinnur við að gera leiðinlega mynd leiðinlegri en Arnold er alveg einstakur….ég skil ekki af hverju fólk heillast af honum, hann kann ekki að tala, hvað þá leika! Ég vil nú ekki eyðileggja myndina fyrir fólki sem ætlar að sjá hana en endirinn er alveg kostulegur. Við skellihlógum í bíóinu og þeir sem ætla að sjá myndina…hættið að lesa HÉR!!
Ókei….Adam (Arnold) kynnist klóninum sínum og þeir verða vinir og ákveða að skemma allt fyrir vonda gráðuga manninum (úr Ghost). Vísindamaðurinn heldur eiginlega með þeim (Arnoldunum) því hann er í raun góður. Svo þegar Arnold alvöru bjargar fjölskyldunni sinni þá er klón Arnold eftir að drepa restina af vondu köllunum. Maður var að vona að klón Arnold myndi síðan bara skjóta sig í hausinn því hann veit að hann er ekki alvöru maður en nei, nei!! Næsta taka er af þeim tveimur á geðveiku trúnói og klón Arnold er að spyrja alvöru Arnold hvort hann hafi sál. Alvöru Arnold svarar með sínum bjánalega hreim:”Auðvitað hefur þú sál, þú varst tilbúinn að fórna lífi þínu fyrir mína fjölskyldu. Skammastu þín fyrir að hugsa svona ljótt og góða skemmtun á sjónum!!” Svo endaði myndin á því að klón Arnold fer út á sjó….Fráááábær mynd. Mæli alls ekki með henni.