Ed Harris Ed Harris er leikari sem mætti fá meiri athygli í Hollywood. Hann er kannski ekki jafn myndarlegur og Tom Cruise eða Brad Pitt en hann er frábær leikari sem ræður við öll hlutverk. Hann er alltaf traustur og setur gæðastimpil á myndirnar sem hann heiðrar með nærveru sinni. Vafalaust með þeim betri karakterleikurum kvikmyndasögunnar. Það sem gerir hann líka svo viðkunnalegan er að hann virkar sem ósköp venjulegur gaur sem kann að leika. Hann hefur það orðspor á sér að hann sé mjög þægilegur í umgengni og er laus við alla stjörnustæla. Hann er tvímælalaust einn af uppáhalds karakterleikurum mínum.

Edward Allen Harris fæddist þann 28 nóvember í Tenafly í New Jersey árið 1950. Hann á eldri bróður, Robert, og yngri bróður sem heitir Spencer. Í skóla lék Harris ekki í skólaleikritum, eins og margir starfsbræður hans gerðu. Hann virkar kannski sem maður sem var furðulegur í skóla en hann var íþróttahetjan í sínum skóla. Hann var ótrúlegur góður íþróttamaður og var bæði í aðalliðinu í hafnaboltaliði skólans og hann var fyrirliði ruðningsliðsins. Hann leiddi ruðningsliðið til úrslita í skólakeppni bandaríkjanna og fékk að launum skólastyrk til að fara í Columbia University. Þar fóru hlutirnir að hringla í höfðinu á Harris. Honum brá svo að koma í svona stóran háskóla þar sem möguleikarnir voru endalausir. Hann sá tækifæri til að prófa nýja hluti og hætti í boltaíþróttunum og sótti leiklistarnámskeið. Hann hætti fljótlega í skólanum og flutti aftur heim til Oklahoma til að sækja leiklistarnám í Oklahoma University. Í fyrstu vildi hann leika til að fá athygli og hrós en svo fór hann að líta á leiklistina öðrum augum. Hann leit á leiklistina sem aðferð til að skoða lífshlaupið og hann hóf að hlusta mikið á tónlist og lesa fjölmargar bækur. Hann vildi læra að meta list og fannst sem hann hafði sóað árum sínum í íþróttum og var hann nú orðinn þyrstur í fróðleik. Hann kláraði námið í Los Angeles í California Institute of Arts, þar sem hann vann sér inn BA gráðu í listum.

Fyrsta kvikmyndin sem hann lék í var sjónvarpsmynd sem hét Gibbsville, áður hafði hann fengið nokkur lítil hlutverk í leikverkum og sjónvarpsþáttum. Hann fékk stuttu eftir það hlutverk í myndinni Knightriders(1981), sem var gerð af meistara George A. Romero sem var orðinn á þessum tíma alræmdur fyrir Night Of The Living Dead þríleik sinn. Knightriders var ekki beint Romero-leg kvikmynd því hún var ekki hrollvekja og fjallaði um nútíma útgáfu af “jousting” nema hvað nú voru notuð bifhjól í stað hesta. Romero var greinilega hrifin af Harris því hann fékk hann í næstu mynd sína sem hét Creepshow(1982), gerð eftir nokkrum smásögum Stephen King, þar var Romero kominn aftur á heimavöll sinn. Árið 1983 fékk svo Ed Harris stóra tækifærið þar sem hann lék fyrst á móti Gene Hackman og Nick Nolte í myndinni Under Fire, þar lék Harris málaliða í byltingunni í Nicaragua árið 1979. Seinni myndin sem Harris lék í árið 1983 var stórmynd Philip Kaufman eftir bók Tom Wolfe um upphafsskref geimáætlunarinnar sem hét The Right Stuff. Þar lék Harris engan annan en ofurhugann síunga John Glenn, sem mörgum áratugum seinna varð elsti maður til að fara í geiminn á áttræðisaldri. The Right Stuff var frábær og fræðandi stórmynd um Mercury 7 áætlunina. Á móti Harris léku fínustu leikarar eins og Scott Glenn, Fred Ward, Sam Shepard, Dennis Quaid og Lance Henriksen, mæli með þeirri mynd.

Eftir The Right Stuff komu nokkuð mögur ár í kjölfarið og Harris hvarf úr sviðsljósinu í nokkurn tíma. Hann lék í nokkrum miðlungsmyndum eins og Swing Shift,Places in The Heart, Flash Of Green, Alamo Bay, Sweet Dreams og Walker. Þessi lægð lauk sínu æviskeiði árið 1989 þegar Harris lék á móti Robert De Niro í myndinni Jacknife. Þar þykir Harris fara á kostum og skyggir meira að segja á De Niro, hann var tilnefndur til Golden Globe verðlauna fyrir hlutverkið. Harris og De Niro leika tvo Víetnam hermenn sem koma heim skaddaðir á sál. Þegar De Niro byrjar svo að vingast við systur Harris, sem leikinn er af Kathy Bates, verður fjandinn laus. Það sama ár kynntist Harris djöflinum sjálfum í formi James Cameron. Cameron var þá að undirbúa kvikmynd sem endaði sem ein erfiðasta kvikmyndataka sögunnar. Harris var lofað nokkrum vikum í myndatöku en það endaði í nokkrum mánuðum í vatnstönkum og lífshættulegum aðgerðum. James Cameron lagði svo mikið á leikarana að fólk íhugaði fljótlega að segja upp, þar á meðal Harris sem var tvisvar sinnum næstum því drukknaður og endaði eitt af mörgum rifrildum með því að gefa Cameron á kjammann. Eftir alla þessa vinnu og erfiði er útkoman stórfengleg mynd sem heitir The Abyss. The Abyss var tímamótamynd hvað neðansjávartökur varðar. Aldrei hefði fólki dottið í hug að reyna þessa hluti sem framkvæmdir voru í myndinni en Cameron vissi nákvæmilega hvað hann var að fara út í, hann veit hvað hann syngur þótt hann sé kröfuharður.

State of Grace(1990) hét næsta mynd Harris og þar lék hann írskan mafíuforingja sem svífst einskis og er harður í horn að taka. Þrátt fyrir að í myndinni voru hæfileikaríkir leikarar eins og Sean Penn og Gary Oldman þá skyggði Harris allgjörlega á þá með yfirveguðum leik og ísköldu fasi. Það er nú ekki margir sem geta skyggt svona á Sean Penn og Gary Oldman get ég sagt ykkur. Þá fylgdi kvikmynd eftir meistara samtalanna, David Mamet, sem hét Glengarry Glen Rose(1992). Hún var byggð á samnefndu leikriti og fjallaði um harðan heim hjá fasteignasölum. Mótleikarar Harris voru af himnum komnir t.d. Al Pacino, Kevin Spacey, Jack Lemmon, Alec Baldwin og Jonathan Pryce. Harris lék FBI útsendara sem reynir að kúga ungan lögfræðing(Tom Cruise) til að svíkja lögfræðisstofu sína í The Firm(1993). Fínasta fléttumynd sem frábærum leikurum eins og Gene Hackman, Holly Hunter og auðvitað Tom Cruise og Ed Harris. Svei mér þá ef þetta er ekki besta John Grisham myndin að mínu mati í öruggum höndum leikstjórans Sydney Pollack. Hann lék svo í frekar slappri Stephen King hryllingsmynd sem hét Needful Things(1994) og svo önnur hörmung sem hét Milk Money(1994). Hann bætti upp fyrir það með því að leika lítið hlutverk í spennumyndinni Just Cause(1995), þar sem hann hræðir líftóruna úr Sean Connery og undirrituðum í hlutverki fjöldamorðingjans Blair Sullivan. Menn verða varla klikkaðri en Harris í þessu hlutverki og mæli ég með því að fólk skoði þá mynd.

Þá kom sannsögulega árið hans Harris 1995 því þá lék hann í tveimur sannsögulegum kvikmyndum. Sú fyrri var Apollo 13 þar sem hann lék yfirmann stjórnstöðvarinnar í Houston, Gene Kranz. Harris þykir passa vel í hlutverkið og hefur gott mótvægi með yfirvegun sinni gegn hræsðlunni sem hrjáir Tom Hanks og félaga í geimnum. Seinni myndin var óður meistara Oliver Stone til Richard Nixon, gífurlega umdeild mynd eins og flestar eftir Stone og þar fer Harris með lítið hlutverk sem E.Howard Hunt sem sá um mörg samsærin hjá Nixon samkvæmt Oliver Stone. Árið 1996 lék Harris svo í risahasarmynd sem hét The Rock á móti Nicholas Cage og Sean Connery. Harris ber herðar yfir aðra í þeirri mynd sem að sjálfsögðu snýst aðallega um hasar. Harris kemur með mikla dýpt í hlutverk sitt sem hershöfðinginn Frank Hummel sem ógnar San Francisco með eldflaugum frá Alcatraz-eyju. Þetta er týpískt Ed Harris hlutverk þar sem hann leikur “vonda” kallinn sem hefur samt góða ástæðu fyrir aðgerðum sínum. Hann lék eiginmann Sally Field í spennumyndinni Eye For An Eye(1996) og rannsóknarlögreglumann sem rannsakar morðmál í Hvíta Húsinu í Apsolute Power(1997) í leikstjórn Clint Eatswood.

Truman Show kom út árið 1998 og þar lék Harris lítið en veigamikið hlutverk í þessu meistarverki Peter Weir. Harris lék Christof, sem er hálfgerður Guð í bænum hans Truman. Hann er hugmyndasmiður Truman Show og fyrsti maðurinn til að ættleiða barn með hjálp sjónvarpsins. Það fyndna var að Harris og Jim Carrey hittust aldrei því Carrey var búinn þegar Harris kom á tökustað. Harris kom inn í stað Dennis Hopper og var tilnefndur til óskarsverðlauna og vann Golden Globe. Ég mæli með því að þeir örfáu sem ekki hafa séð Truman Show drífi sig út á leigu. Hún er allgjört skylduáhorf og á svo ótrúlega vel við á þessum raunveruleikasjónvarpstímum sem við búum við, langt á undan sínum tíma. Næst kom slöpp mynd sem hét Stepmom með Juliu Roberts og Susan Sarandon sem mótleikkonur Harris. Árið 2000 ákvað Harris að reyna fyrir sér á bak við linsuna, sem er orðið tískufyrirbrigði núna í Hollywood. Faðir hans hafði á afmælisdegi Harris árið 1986 sent honum bók um abstrakt listamanninn Jackson Pollock. Harris hafði lengið langað til að gera mynd um hann og fann gott handrit um listamanninn og lét verða af því 2000. Harris þykir fara vel með efnið og telst þetta því gott fyrsta leikstjóraverkefni. Myndin tekur á ýmsum þáttum í lífi Pollock, t.d. alkóhólisma hans og uppgötvun hans á stíl sínum og svo frægð og frama allt þar til hann dó í bílslysi. Ed Harris fór sjálfur með hlutverk Pollock og þykir fara á kostum enda þekkir hann efnið vel. Myndin er vitnisburður um það hversu fjölhæfur Ed Harris er sem listamaður.

Harris tók svo þátt í dýrustu Evrópsku myndinni til þessa sem hét Enemy At The Gates. Þar fór hann með hlutverk leyniskyttu Þjóðverja, Major König, sem eltist við víðfræga rússneska leyniskyttu,Vassili Zaitsev, sem leikinn er af Jude Law. Þetta er frábær stríðsmynd og óvenjuleg að öllu leyti meðal annars af því að stríðið sjálft er sett í bakgrunn en einvígi þessara skyttna er forgrunnur hennar. Virkar sem svona leikur kattarins að músinni í rústum Stalíngrad en hefur líka sögulegt gildi. Sannar það að ef Evrópskir kvikmyndagerðamenn hefðu jafn mikla pening á milli handa eins og starfsbræður þeirra í Bandaríkjunum þá myndi Evrópa punga út frábærum hasarmyndum. Harris er nýbúinn að leika í gamanstríðsmynd sem heitir Buffalo Soldiers en sú mynd fór aldrei í bíó hér á landi og ég veit ekki hvort hún kom á video. Þar leikur hann á móti Joaquin Phoenix í hálfgerðri anti-stríðsmynd um hermenn á herstöð í Þýskalandi á þeim tíma þegar Berlínarmúrinn er að falla. Næst lék hann aukahlutverk í myndinni A Beautiful Mind á móti Russel”má ég lesa ljóð í friði” Crowe og Jennifer Connelly. Þar leikur Harris njósnara sem þarf á aðstoð stærðfræðingsins að halda, Harris var tilnefndur til óskarsins fyrir hlutverkið. Þar að auki lék hann í óskarsverðlaunamyndinni The Hours á síðasta ári og þykir fara á kostum í henni.

Næstu myndir Ed Harris eru Masked& Anonymous, Human Stain og Radio, allar koma út á þessu ári.

Eins og þið sjáið þá hefur þessi frábæri leikari komið víða við og á að baki sér frábæran feril sem vex með hverjum degi. Hann er langt frá því að hætta og heldur hann því áfram að heiðra myndir með nærveru sinni og hæfileikum. Þegar hann hefur tíma til þess finnst honum þægilegt að hugsa um býlið sitt á Malibu, forðar sér þannig frá glansheiminum.


-cactuz