Ég var einn af fjölmörgum sem fóru á þessa mynd í boði Framsóknarflokksins núna rétt fyrir kosningarnar síðast, það fylgir ekki sögunni hvort ég hafi kosið þann flokk:). Ég hafði lítið frétt af þessari mynd áður en í kvikmyndasalinn var gengið nema að hún hafði fengið ágætis dóma erlendis.
Identity segir frá 10 mismunandi persónum sem hittast fyrir sakir tilviljanna á vegamóteli í hellirigningu í eyðimörk. Þau eru föst þar vegna þess að flóð af völdum rigningarinnar hafa lokað af báðar leiðir frá mótelinu. Hópurinn samanstendur af sjónvarpsstjörnu og bílstjóra hennar, raðmorðingja og löggu sem er að flytja hann, vændiskonu, ung hjón í erfiðleikum og fjölskyldu(hjón og ungan strák). Tíunda persónan er svo mótelstjórinn sem er létt geggjaður. Fljótlega er morð framið og grunur beinist að öllum og þar með hefst morðgátan ala Agatha Christie. Þvi næst fara allir að drepast og hinir standa á gati yfir því hver stendur á bak við þessi morð.
Ég verð nú að segja það að ég skil ekkert afhverju fólk er svona hrifið af þessari mynd. Mér fannst á tímum að ég væri að horfa á Scream-mynd eða einhverja aðra heimskulega táningahrollvekju. Það týna allir tölunni af svo fáránlegum hraða, sem reyndar er útskýrt í endann. Ray Liotta er nokkuð fínn í hlutverki löggunar en það voru vonbrigði að sjá þann frábæra leikara John Cusack frekar þreyttan í hlutverki bílstjórans. Aðrir leikarar eru Amanda Peet, sem er leiðinleg leikkona, glottarinn Jake Busey, sem getinn var af öðrum glottara Gary Busey og nokkrir ágætis aukaleikarar. Myndin hefur einn af þessum óvæntu endum sem breyta svolítið myndinni og það er ekki sjens að einhver uppgötvi þessa fléttu því hún er svo furðuleg og asnaleg í raun. Myndin er eins og léleg Scream-mynd í 80 mínútur með ágætis leikurum en svo kemur óvænti endirinn og maður varð hálf pirraður yfir því að lausnin sé svona fáránleg.
Leikstjórinn James Mangold hefur gert ágætis myndir eins og Girl Interrupted og Copland. Hann heldur í raun ágætlega um taumana og nær að búa til á köflum fína stemmningu. Hann notar drungalega rigningarstemmningu í anda Se7en og nær að kreista ágætis hluti út úr Ray Liotta. Gallinn við þessa mynd er í rauninni handritið myndi ég segja. Það bara virkar ekki að gera mynd sem breytist svona mikið við óvænta endann. Það er rosalega erfitt að geta ekki talað um þennan óvænta enda(ég vil ekki eyðileggja fyrir fólki) því hann fór svo í taugarnar á mér. Svona mynd gengur bara út á það að koma með einhverja lausn sem enginn hefði getað séð fyrir en hún er samt leiðinleg og óáhugaverð lausn. Sem betur fer fór ég frítt á þessa mynd því ég hefði ekki viljað borga mig inn á hana.
Ef fólk fílar unglingahrollvekjur sem meika engan veginn sense og vilja sjá smá ógeðsleg atriði þá er þetta fín mynd fyrir ykkur sem þið gleymið um leið og þið stígið út úr salnum. Aðaláskorunin er hvort þið getið fattað þennan viðbjóðslega óvænta enda áður en honum er slegið í andlit ykkar.
dæmi um góða óvænta enda: Usual Suspects, Planet of the Apes(gamla), Se7en, Memento, Sixth Sense.
Slæmur óvæntur endi: Já það er rétt getið IDENTITY!
-cactuz
(pirraður)