(Þetta átti að vera svar við annarri grein um Matrix Reloaded, en teygðist á langinn svo ég ákvað að birta þetta sem grein.)
Margir hafa talað um trúarlegar tilvísanir í Matrix kvikmyndunum, en Það virðast ekki vera margir sem átta sig á gnostísku tengingunni. Ég ætla að fræða ykkur örlítið um hana: (það skal þó tekið fram að þetta eru ekki mínar eigin trúarhugmyndir, aðeins stutt endursögn á sögulegum staðreyndum)
Gnostísismi var grein innan kristninnar á meðan og á fyrstu öldunum eftir að Jesú lifði. Gnostísistar skiptust í ótalmarga söfnuði sem höfðu flestir ólíkar hugmyndir. Sumir voru meinlætamenn sem lifðu einlífi í hellum sínum en aðrir predikuðu frjálsar ástir, villt svall og galdraiðkanir. Eins og gefur að skilja fór þetta e-ð fyrir brjóstið á hinum rómversku kirkjumönnum, sem ofsóttu þessi söfnuði og þurrkuðu þá að lokum flesta út.
Meginhugmyndin sem allir gnostískir söfnuðir áttu sameiginlega, er að heimurinn sé skapaður af illum heimssmiði, Jehóvah, en maðurinn hafi til að bera anda sem sé ekki af þessum heimi. Annar æðri og fullkomnari guð reynir að bjarga manninum úr þessum illa blekkingarheimi og sendir til þess Jesú Krist son sinn. Jesús Kristur er LOGOS, orðið, sannleikurinn, skynsemin, rök. Margir gnostísistar trúðu að hann gæti ekki tekið á sig efnislega mynd, þar sem efnið væri í eðli sínu ófullkomið og illt. Kristur, Logos, var þannig e.k. heilagur andi sem settist í manninum Jesú og fór þegar hann var krossfestur. Sumir trúðu að krossfestingin og dauðinn hefðu verið sjónhverfing og blekking, og enn aðrir að Símon hefði tekið hans stað á krossinum. Kristur, LOGOS, er karlkyns ástmaður hins kvenlega heilaga anda, ENNOIA, og saman með huganum, NOUS, mynda þau hina heilögu þrenningu Guðs (Trinity).
Allir gnostísistar trúðu á mikilvægi guðlegrar opinberunar, beinnar þekkingar á eðli guðs og veruleikans, GNOSIS. Gnosis er grískt orð yfir beina þekkingu, þó ekki hið sama og episteme sem er almennara orð yfir þekkingu. Þess má geta að í Matrix Reloaded heitir einmitt eitt skipið Gnosis. Gnosis var náð með ýmsum leiðum; hugleiðslu, meinlætalífi, dulspekiiðkun og e.k. tantrískum galdraathöfnum (sem fólu í sér kynlífathafnir). Kristur á að hafa kennt mönnum fyrir luktum dyrum hina leyndu leið að gnosis. Sumir virtir fræðimenn hafa jafnvel haldið fram að Kristur sé ekkert nema myndlíking fyrir ofskynjunarsveppinn Amanita muscaria, eða berserkjasvepp. Litlar áreiðanlegar heimildir eru þó fyrir slíkri notkun hjá gnostísistum. Flestir gnostísistar voru á þeirri skoðun að snákurinn í Aldingarðinum hafi alls ekki verið illur heldur sendiboði hins góða guðs sem færði manninum þekkingu, gnosis, í óþökk hins illa guðs, Jehóvah, sem vildi halda manninum fáfróðum í sínum blekkingarheimi. Þannig er margt öfugsnúið í þessari trú miðað við það sem við eigum að venjast sem fórum í kristinfræði og fermdumst, en þetta skýrir þó hið mikla gap sem virðist vera milli guðs Gamla testamentsins og hins Nýja. Þetta er einfaldlega ekki sami guðinn!
Einhver benti á að Thomas Anderson (Tómas Mannssonur) vísaði til lærisveinsins Tómasar. Ég efast stórlega um að þarna sé verið að vitna í hinn efagjarna Tómas, lærisvein Jesú. Líklegra er að vitnað sé í þann Tómas sem Tómasarguðspjall er kennt við, en það er einmitt gnostískt guðspjall. Það er ekki endilega kennt við Tómas lærisvein, heldur töluðu gnostísistar um Tómas sem tvíburabróður Krists. Tómasarguðspjall er samansafn af ummælum Jesú. Þar kemur m.a. fram hin “hættulega” hugmynd (að mati kirkjunnar), að konungsríki Guðs sé í hverjum manni og opinberun þess þurfi enga milliliði s.s. presta og kirkjustofnanir.
En af hverju er ég að segja þetta í tengslum við Matrix? Jú, það er nefnilega margt líkt með þessari trú og þeirri heimsmynd sem sett er fram í myndinni. Matrix heimurinn er smíðaður af illum heimssmiði, The Architect, sem heldur manninum föngnum í fáfræði og blekkingu um sitt raunverulega eðli. Allir valdhafar og yfirvöld eru á bandi hins illa heimssmiðs, og helsti erindreki hans heitir einmitt Agent Smith (smiður?). Í hinni gnostísku heimsmynd eru öll yfirvöld og stjórnendur, þ.m.t. lögregla og her, heimsins á bandi arkonanna (archons), sem eru illar verur sem sjá um stjórn heimsins, undir heimssmiðnum eða arkitekti alheimsins. Neo er augljóslega messías/Kristur/logos sem opnar augu fólks fyrir hinu sanna eðli veruleikans (tala hinna “frelsuðu” í Zion jókst gífurlega eftir komu hans). Trinity er sennilega hinn heilagi andi, sem myndar heilaga þrenningu ásamt Kristi/Neo og Guði föðurnum (hver svo sem hann er). Morpheus er í hlutverki Jóhannesar skírara, spámannsins sem spáir fyrir komu frelsarans, en hlutverk hans verður óljósara þegar spádómur hans virðist ekki ætla að rætast.
Nú hef ég sett fram örfáar meginhugmyndir gnostísisma og imprað á nokkrum atriðum sem Matrix trílógían hefur fengið að láni úr þessari trú, en hægt væri að telja fram miklu fleiri samlíkingar en ég hef gert. Hvet ég alla sem hafa áhuga á að kafa dýpra í hugmyndafræðina á bak við myndina að kynna sér þessa trú, t.d. á netinu. Þó eru auðvitað margar hugmyndir og persónur í myndinni sem eiga ekkert skylt við gnostísisma, s.s. ýmsar grískar goðsagnaverur sem flestir hafa kannast við, en mér finnst undarlegt að enginn hafi minnst á gnostíska þáttinn sem er meginburðarstólpinn í hugmyndafræði myndarinnar. Margir hafa gert mikið úr líkindum við The Invisibles myndasöguna hans Grant Morrison, og jafnvel gengið svo langt að segja að Wachowski bræðurnir hafi stolið hugmyndinni frá honum, en það er af og frá. Hugmyndirnar í The Invisibles eru að mestu fengnar að láni frá rithöfundunum Philip K. Dick og Robert Anton Wilson (GM viðurkennir það sjálfur), þó sérstaklega úr Valis e. Philip Dick sem er nútímaútfærsla af gnostískum hugmyndum, nánast endursögn. Robert Anton Wilson, Philip K. Dick og Grant Morrison eru allir á einn eða annan hátt undir áhrifum af gnostískum hugmyndum, með milligöngu gnostískra “galdramanna” s.s. Aleister Crowley, Rósakross-leynireglunnar og hermetískra alkemista. Ég held því fram að þeir Wachowski bræður séu sömuleiðis undir áhrifum af þessari áhugaverðu arfleifð.