Ég hef núna loksins séð The Matrix Reloaded eftir 4 ára bið og mikla eftirvæntingu. Margir gagnrýnendur á netinu og í blöðum hafa sagt að myndin sé ekki nógu góð. Ég gæti ekki verið meira ósammála þessum gagnrýnendum. The Matrix Reloaded finnst mér vera rökrétt skref frá The Matrix. Hún er á mörgum stigum ólík fyrstu myndinni og mér finnst fólk hafa verið að búast við því að sjá nákvæmlega eins mynd og The Matrix. Ég vildi sjá öðruvísi sjónarhorn á Matrixheiminn og það er það sem ég fékk. Ég lofa því að eyðileggja ekki fyrir fólki með þessari gagnrýni. Þú þarft á hreinum heila að halda til að njóta myndarinnar.
The Matrix Reloaded gerist nokkrum mánuðum eftir fyrstu myndina. Neo er ekki ennþá sannfærður um að hann sé sá rétti og hann hefur ekki ennþá uppgötvað tilgang sinn í heiminum. Í fyrsta sinn fáum við að sjá Zion og það er stórfenglegt sjónarspil ég segi ekki meira. Ýmsir nýjir karakterar eru kynntir til leiks til að minna okkur á það að það eru fleiri að berjast gegn vélunum og þetta stríð hefur staðið í mörg ár. Samband Neo og Trinity fer stigvaxandi og þau finna fyrir ást á hvort öðru. Sumir eru með ofnæmi fyrir tilfinningum í svona myndum en það fólk þarf aðeins að setjast niður og hugsa sinn gang og hugleiða út á hvað lífið gengur. Það er sýndur veikleiki á Neo, sem gerir hann mannlegri, og sá veikleiki er Trinity. Morpheus kemur fram eins og ávallt þessi maður sem gerir allt í nafni trúar og jafnvel ofsatrúar. Ég hef tekið eftir því að í greinum um Reloaded að fólki finnst persónurnar ekki fá nógu mikið svigrúm. Ég er svosem sammála því að hluta til en ég vil afsaka það með því að halda því fram að þessi mynd eigi fyrst og fremst að fjalla um sannleikann um raunveruleikann og óraunveruleikann. Fyrsti kaflinn og væntanlega þriðji kaflinn eiga að snúast meira um persónurnar. Þessi kafli fjallar um mannkynið og hvernig það fer að því að halda sér lifandi. Það er sena í myndinni sem margir hafa ráðist á þar sem Neo og Trinity kela smá á meðan hópur af fólki dansar trylltan ættbálkardans. Lengdin á þessu atriði hefur farið fyrir brjósti á sumum en mér finnst þetta mikilvægt atriði. Þarna er verið að benda á uppruna mannkynsins í villtustu Afríku og verið að innleiða þennan eðlislæga styrk mannkynsins og sjálfsbjörgunarhvöt þess í myndina. Við erum ekkert annað en spendýr ennþá eins og Eminem benti á í laginu.
Það getur verið svolítið flókið að meðtaka allt í myndinni en sérstaklega þegar Arkitektinn svokallaði útskýrir ýmiss veigamikil atriði, ég segi ekki hver þau eru. Bardagaatriðin eru byltingarkennd eins og í fyrri myndinni og fór maður hálf úr kjálkaliðnum í sumum þeirra. Metnaðurinn sem lagður var í þessi atriðið er aðdáunarverður. Sérstaklega fannst mér, eins og mörgum öðrum hið svokallað Burly Brawl(Neo á móti 100 Smithútgáfum) og hraðbrautaratriðið vera frá annarri plánetu. Margir hafa sagt að Burly Brawl sé of feikað. Ég svara því þannig að þegar maður sér þetta atriði gerir maður sér grein fyrir því að það er ekki möguleiki að gera það betur. Mér finnst það líka alltaf gleymast að þetta eru í raun comic-myndir og þarf því aðeins að fría heilahvelin áður en þú leggur í það að horfa á þessar myndir. Heimsspekin er til staðar í þessari mynd en hún er ekki eins móttækileg í þessari eins og þeirri fyrstu. Það var búið að kynna eðli The Matrix og það var ekki hægt að koma með einhverja nýja punkta í þann pólinn. Nú heimsspekin meira um eðli mannsins og hvernig hann leysir málin. Það er fjallað mikið um sameiginlega þörf fyrir hvort öðru á milli mannsins og vélanna, sem er lykilpæling myndarinnar.
Að lokum vil ég vara fólk við að vera með einhverja óraunhæfar væntingar þegar það fer á þessa mynd, það er ósanngjarnt. Þetta er öðruvísi mynd en The Matrix og er eiginlega ekki hægt að bera þær saman. Þær eru báðar tímamótamyndir og ég veit það að fólk á fljótlega eftir að hætta að ráðast á þessa mynd af röngum ástæðum og fatta loks snilldina í þessari mynd. Þetta er frábær mynd og ekkert meira um það að segja. Þið verðið bara að sjá undrið til að trúa því. Ég ætla allavega á hana aftur fljótlega og aftur og aftur og aftur……..
-cactuz