ÁN SPOILERA.

Fjögur ár. Fjögur ár síðan maður barði The Matrix augum. Ég var nú ungur þá, raunar of ungur til að mega horfa á hana en þegar maður er 12 þá svífst maður einskis til að sjá það sem jafnaldrarnir tala um.

Þá sá ég aðeins action-atriðin. Og þetta voru flottustu, glæsilegustu, ofboðslegustu bardagaatriði sem ég hafði séð. Og engin mynd hefur toppað það fyrr en í kvöld.

En þegar ég varð eldri og fékk The Matrix á DVD byrjaði ég að fatta fílósófíuna, fór að velta fyrir mér á hversu skynjunin byggist, hvernig ég og aðrir (ef þeir eru til… en hver er skilgreiningin á “til”?) taka öllu eins og það sé sjálfsagt. Það er það sem gerir myndina svo stórfenglega ógleymanlega, og bardagaatriðin eru þar aðeins til að hjálpa til og heilla þá sem ekki efast um tilveruna og spá í þessu öllusaman.

Svo voru framhöldin kynnt. Ég byrjaði að heyra af þeim, fór á netið og fann nokkrar frábærar síður sem, auk stöðugs fréttaflutnings, höfðu einnig ný sjónarhorn á heimspeki The Matrix, sem gerði myndina ennþá betri í mínum augum.

Svo, eftir að spennan hafði byggst upp fóru fréttamenn og gagnrýnendur að horfa á Matrix 2 á forsýningum, og ekki var gott í þeim hljóðið. Þeir kvörtuðu og kvöbbuðu yfir hlutum eins og of löngum samtölum, augljóslega tölvugerðum bardagaatriðum (ég hlæ þegar ég skrifa þetta) og óljóssri sögu. Einhverjir sögðu að Wachowski bræðurnir séu að “taka söguna of alvarlega” og meira þannig.

Ég hlæ dátt að þessu.

Ég mun byrja á bardagaatriðunum. Það er eftitt, því það eru ekki til orð yfir þetta… alveg ótrúlegt. Ég hef kynnt mér þetta og gæti farið út í tæknismáatriði en ég mun ekki gera það hér. Kannski í annari grein? Í stuttu máli: John Gaeta, tæknibrelluframleiðandi Matrix myndanna, hefur losað kvikmyndagerðina við myndavélina í aksjónatriðunum.

Þetta byrjar með venjulegum leikurum með venjulegri kameru, en svo breytist það á fullkomlegan hátt yfir í tölvugert atriði sem er algerlega nákvæmlega eins og það mundi vera í raunveruleikanum, nema að þeir sýna slow-motion skot, brjáluð sjónarhorn, hröð skot, hæg skot, fyndin skot og allt þar á milli. The Burly Brawl kallast þessi bardagi, og hann er ólíkur öllu sem þið hafið nokkurn tíma séð, og þetta er gallhörð fullyrðing. Þið munuð aldrei sjá nokkuð þessu líkt á næstu árum, nema í The Matrix: Revolutions.

Þetta er einn andskoti flottur forsmekkur, en það besta er eftir. Heimsókn til Merovingians, frönskumælandi forrit sem hefur gaman að blóti og því að leika sér með gesti veitingahúss síns með kynferðislega forrituðum mat. Trúið mér, þið munuð aldrei líta súkkulaðiköku sömu augum eftir þessa mynd…

Merovingian hefur andskoti merkilegar línur, sem ég get ekki munað nógu vel til að vitna í þær, en þær mundu líklega spilla einhverju fyrir suma hvort sem er. Einnig hefur hann lífverði. Þeir eiga sér-kafla skilinn fyrir sig, en ég skal setja það í stutt mál eins og mér einum er lagið: Þetta eru albínóa-tvíburaforrit með dreadlocks, þeir tala með glæsilegum breskum hreim og geta breytt formi sínu í einhverskonar draugsmynd þar sem þeir geta hreyft sig í gegnum efnislega hluti. Það verður bókstaflega ekki svalara.

Og svo færist fjör í leikinn, og maður sér freeway senuna. Hlustið og markið orð mín: Aldrei hefur jafnglæsilegt bílaatriði verið fest á filmu. Agentar, Tvíburar, Uppreisnarmenn, Löggur og allt þar á milli í alveg stórfenglegri senu sem mun aldrei gleymast.

Svo kemur endir myndarinnar býsna fljótt, og hún endar svo sannarlega á flókinn hátt, og það með býsna flóknum samtölum sem ég átti í miklum erfiðleikum með að fylgjast með. Þetta er mynd sem maður þarf að sjá aftur til að fatta almennilega, sem er býsna gott markaðstrikk.

En þetta mun enda í Revolutions. Allt er breytt, og engum gæti órað fyrir endi þessarar myndar, hvað þá Revolutions. Ég segi auðvitað ekkert um gang þessa, you have to see it for yourself.

Svo umkvörtunaratriðin: Kvikmyndatónlistin í Matrix 2 var ekki jafn góð og grípandi og í Matrix 1. Áherslan var meira á teknótónlistinni í bardagaatriðunum þegar hún passaði fullkomlega við, og Matrix Reloaded tónlistargeisladiskurinn virðist vera býsna flottur, og með aukaefni líka.

Einnig sýndu þeir vel hvernig Zion er og hvernig menning hennar er. Margir áhugaverðir nýjir karakterar eru kynntir, og kynntir vel. Þó saknar maður Tanks, en leikarinn fór víst á eitthvað egótripp og vildi fá jafn há laun og aðalleikararnir. Þetta var auðvitað ekki leyft, og þá fór náunginn víst að sitja um Wachowski bræðurna og stúdíóið, og þeir fengu nálgunarbann á hann. Nýji Operatorinn, Link, er vel leikinn og skemmtilegur karakter, en maður saknar samt Tanks.

Þó eru þetta litlir gallar og í raun er myndin alveg frábær. Hún er hins vegar alltaf borin saman við upprunalega Matrix, og þann samanburð stenst hún ekki. Ég held hins vegar að The Matrix: Reloaded og The Matrix: Revolutions saman eigi eftir að toppa upprunalegu myndina. Þær eru saman, þær virka ekki almennilega einar og sér. Reloaded spyr spurninga og skilur þær eftir, Revolutions svarar þeim öllum, og hún mun gera það á svo eftirminnilegan hátt að við munum líta aftur og segja: Matrix 2 og 3 eru stórkostlegustu kvikmyndir allra tíma. Eða svo vona ég.

Svo er aðeins stjörnugjöfin eftir. Maður þarf eiginlega að sjá hana aftur til að fá almennilegt álit á henni, en fyrsta skiptið skiptir máli í þessu og öðru, svo hér er niðurstaðan:

***1/2 af **** (3:1/2 af 4.)
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane