Þú verð ég að segja það að ég er nokkuð ósáttur við kvikmyndahúsin hér á landi. Þeir eru að sleppa því að sýna fullt af góðum myndum sem eru fyrir löngu búið að sýna í USA. Ætlast þeir til þess að maður fari bara á stórmyndirnar og fari þar af leiðandi bara í bíó kannski 1 sinni á mánuði. Fyrir ekki svo löngu síðan var umræða um myndina Equilibrium, sem ekki rataði í kvikmyndahúsin hér á klakanum. Það var, eins og flestir sem hana hafa séð, fyrirtaksmynd og hefði vel mátt sýna hana hér í bíó.
Það muna kannski líka sumir að Requiem For A Dream, sem er snilldarmynd, kom fáránlega seint hingað til landsins á sínum tíma, meira en ári of seint. Nýlega var kvikmyndahátíð þar sem hryllingsmyndin 28 Days Later var sýnd. Sú mynd var afbragðsgóð en hún hefði getað verið komin hingað miklu fyrr því það er frekar langt síðan hún kom út í Bretlandi. Einnig man ég eftir að Memento kom hingað frekar seint og eflaust fullt af öðrum frábærum myndum.
Ein svona vanrækt mynd er myndin Below, sem kom út í USA í október í fyrra. Þetta er hryllingsmynd sem er skrifuð af mönnum að nafni Lucas Sussman og engum öðrum en Darren Aronofsky, já ég sagði Darren “Pí” “Requiem For A Dream” Aronofsky. Leikstjórinn er ekki af verri endanum heldur en það er David Twohy(Pitch Black). Below gerist í kafbát í seinni heimsstyrjöldinni. Myndin fjallar um áhöfn í kafbát sem send í björgunarferð þegar breskt herskip sem notað er sem spítali er sprengt í loft upp. Á meðal þeirra sem áhöfnin bjargar er hjúkrunarkona. Áhöfninni líst illa á að fá hana um borð í bátinn sökum ævafornar hjátrú um að fá kvenfólk inn í kafbát. Fljótlega fara ansi furðulegir hlutir að gerast um borð og fólkið fer að efast um geðheilsu sína. Þar að auki eru Þjóðverjarnir að þjarma að þeim fyrir ofan.
Þetta er svona kafbátadraugamynd, sem hljómar frekar spennandi í mínum eyrum því það er eitthvað nýtt. Alltaf líf og fjör þegar maður sér eitthvað frumlegt í bíó. Ég skora hér með á kvikmyndahúsin að hífa upp buxurnar af hælunum og fara að koma með þessar “áhugaverðari” myndir fyrr til landsins. Below fær 6.5 í einkunn á imdb.com sem er fínasta einkunn að mínu mati.
Ég auglýsi hér með eftir kvikmyndinni Below!
-cactuz