X2 X2, framhaldið af X Men ku vera stærsta bíóupplifun ársins samkvæmt auglýsingum, og mönnum er ráðlagt að búa sig undir það. Ég veit nú ekki alveg hversu rétt það er, en ansi stór er hún. (Ég tippa á Matrix sem stærstu bíóupplifun ársins…) Áður en lengra er haldið, verð ég þó því miður að játa það að ég hef ekki séð fyrri myndina, og get því ekki borið þessar tvær saman. En af framhaldi af vera, stendur þessi sig mjög vel, og jafnvel betur en fyrirrennari sinn vilja margir meina.


Þegar hér er komið við sögu eiga hinir stökkbreyttu virkilega undir högg að sækja. Einn þeirra reynir að myrða Bandaríkjaforseta og eftir það vill herforingi nokkur, William Stryker (Brian Cox) að nafni, hrynda í framkvæmd áætlun sem miðar að því að eyða þeim öllum. Vegna þess verða fornir fjendur að standa saman.

X2 fer helvíti langt á coolinu, ekki spurning um það, enda erum við hér að tala um hrúgu af, reyndar stökkbreyttum, ofurhetjum, sem sumar hverjar eru ótrúlega svalar, og ber þar helst að nefna Wolverine (Hugh Jackman). Þar er komin fram hetja sem getur borið uppi heila mynd á coolinu einu saman, rétt eins og sá allra svalasti, Blade, eða ofur maðurinn Arnold Schwarzenegger. Wolverine er harður nagli, reykir feita vindla, keyrir um á mótórhjólum og kraftmiklum bílum, ekkert (eða a.m.k. mjög fátt) bítur á hann og að auki er hann með hárvöxt á við Austin Powers ;)

En coolinu lýkur nú ekki þar. Ekki má gleyma öllum hinum stökkbreyttu hetjunum, þó svo að Wolverine beri þar af. Leikarinn eru líka margir hverjir ágætir, ber þar helst að nefna Patrick Stewart, Ian McKellen og Halle Berry. Myndin er stútfull af glæsilegum tæknibrellum og sjónarspilið er oft gríðarlega mikilfenglegt og litlu hefur verið til sparað þegar kemur að brellunum.

Ákveðnir aðilar voru að skammast í mér fyrir að hafa gefið Dreamcatcher alltof góða dóma sökum hversu óraunveruleg hún er. Það er þá best að ég vari fólk við, þessi mynd er það líka. En af hverju á það að vera eitthvað slæmt? Þessi mynd er frábær skemmtun, og þar að auki gríðarlega svöl. Vel 800 króna virði, og eiginlega skilda að sjá hana í bíó, upplifunarinnar vegna!
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _