Það var árið 1966 í Beirút í Líbanon af öllum stöðum sem Keanu Charles Reeves fæddist í september mánuði. Faðir hans Samuel var jarðfræðingur sem var hálfur kínverji og hálfur Hawai-búi en móðir hans Patricia var ensk. Keanu þýðir á Hawai kaldur gustur yfir fjöllum. Kaldur gustur hefur hann ekki verið í kvikmyndaheiminum og virðist vera að vinna sér inn meiri virðingu með hverri kvikmynd sem hann leikur í.
Foreldrar hans skildu og hann fór með móður sinni og tveim systrum sínum til New York á meðan faðir hans fór til Hawai. Keanu fór og heimsótti föður sinn oft þar til hann varð 13 gamall því þá ákvað hann að útskúfa líffræðilegan föður sinn. Síðan hefur hann ekkert frétt að föður sínum sem fór víst í fangelsi árið 1994 fyrir að eiga eiturlyf og fékk 10 ára dóm. Móðir Keanu kynntist leikstjóra í New York að nafni Paul Aron og þau fluttu ásamt Keanu og systrum hans til Toronto þar sem þau gerðust kanadískir ríkisborgarar, sem Keanu er ennþá í dag. Samband móður hans við leikstjórann var stutt og hún hélt áfram að skipta um kærasta eins og sokka næstu árin. Keanu lýsir sjálfum sér á þessum tíma sem millistétta hvítum strák sem vantaði föðurímynd en hafði sterka móður og tvær gullfallegar yngri systur(Kim og Karina).
Keanu fór í grunnskóla í Toronto og fór samtals í fjóra menntaskóla áður en hann hætti allveg skólagöngu sinni þegar hann var 17 ára. Hann tók að sér allskonar mismunandi störf eins og t.d. að skerpa skauta á skautaverkstæði(Keanu er mikill hokkíáhugamaður eins og nánast flestir Kanadamenn), vegavinnu og matreiða á pastastað ásamt því að reka staðinn. Þá komst leiklistardellan að og hann lék í nokkrum leikverkum á fjölum leikhúsa í Kanada.
Fyrsta kvikmyndahlutverkið hans var í myndinni Youngblood í Bandaríkjunum. Hann keyrði til Hollywood með $3,000 í vasanum á gömlum Volvo og leitaði að frægð og frama. Hann fékk sér strax umboðsmann, sem bendi honum á möguleikann að breyta kannski nafni sínu sökum þess hve framandi það var. Hugmyndin K.C. Reeves var látinn flakka en hún entist ekki lengi og Keanu hélt sig við kalda gustinn. Keanu lék þá í mynd sem heitir Rivers Edge, sem er átakanleg sannsöguleg kvikmynd um morð í vinahóp og Keanu fékk góða dóma eins og myndin. Árið 1988 lék hann í nokkrum ómerkilegum myndum eins og The Flying, The Night Before og Prince og Pennsylvania ásamt því að leika á móti stórleikurunum John Malkovich, Michelle Pfeiffer og Glenn Close í mynd Stephen Frears, Dangerous Liasons. Þá var komið að vitleysunni Bill And Ted´s Excellent Adventure(1989) sem varð óskiljanlega vinsæl og það var gert ennþá verra framhald, Bill And Ted´s Bogus Journey(1991). Keanu lék líka lítið hlutverk í gamanmynd Ron Howard sem hét Parenthood, þar sem hann lék ökuþór sem skemmtir þá litlum polla Joaquin Phoenix. Hann lék einmitt næst á móti stóra bróður Joaquin, River Phoenix; í mynd Gus Van Sant sem hét My Own Private Idaho(1991) sem var eiginlega svona ljóðræn vegamynd um tvo stráka sem stunda vændi.
Það sama ár lék Keanu í hasarmynd eftir Kathryn Bigelow sem mér fannst alltaf mjög skemmtileg á sínum tíma og það er myndin Point Break. Þar leiða saman hesta sína Reeves og Patrick Swayze í hröðum lögguþriller þar sem Keanu leikur FBI mann sem eltist við brimbretta og adrenalínfíkla sem ræna banka. Fínasta spennumynd frá Bigelow en enginn leiksigrar þar á ferð. Keanu náði að fanga auga meistara Coppola sem leyfði honum að fara með hlutverk Jonathan Harker í meistaraverkinu, að mínu mati allavega, Dracula(1992). Magnaðar sviðsetningar og snilldarmyndartaka ásamt mögnuðum Gary Oldman í hlutverki rúmenska greifans lyfta myndinni á annað plan en mér fannst Keanu ströggla með breska hreiminn og það hefði mátt setja einhvern annan í hlutverk hans. Næst tók Keanu að sér að leika Jesse Conrad í mynd Bernardo Bertolucci, Little Buddha(1993). Jesse þessi er einn af mörgum sem gætu verið endurfæddur Siddharta eða öllu heldur Buddha sjálfur.
Þá var komið að straumhvörfum í ferli hans Keanu árið 1994. Þá var honum boðið að leika í spennumynd sem varð óvænt stórsmellur það sumarið. Ég er að sjálfsögðu að tala um Speed(1994) eftir Jan De Bont. Í Speed leikur Reeves lögguna Jack Traven sem kemst að því að sprengjuvargur(Dennis Hopper) hefur komið fyrir sprengju í rútu sem springur ef rútan fer niður fyrir 50 mílur á klukkustund. Myndin sló hressilega í gegn og gerði Reeves og Söndru Bullock að stjörnum. Myndin halaði inn yfir $300 milljónir og sá til þess að Keanu var komið fyrir á A-listann í Hollywood. Næst fylgdi heldur mislukkuð stórmynd sem hét Johnny Mnemonic(ekki stafsetningarvilla:) og fjallaði hún um mann í framtíðinni sem vinnur það að geyma ýmsar upplýsingar fyrir fólk í huga sínum. Í eitt skiptið geymir hann svakalegt magn af upplýsingum sem gætu kostað hann lífið og hann reynir að komast að því hvað kollur hans geymir. Furðuleg mynd byggð á smásögu eftir guðföður cyberpunkmenningarinnar William Gibson. Þá kom rómantísk drama frá stríðsárum A Walk In The Clouds og svo árið 1996 komu miðlungsspennumyndirnar Chain Reaction og Feeling Minnesota.
Það var svo árið 1997 að Keanu tók gífurlega skynsamlega ákvörðun að sleppa því að gera Speed 2 til þess að gera í staðinn þúsund sinnum betri mynd. The Devil´s Advocate(1997) var tvímælalaust sniðugari mynd til að leika í og er með betri myndum Reeves þar sem hann fékk að leika á móti goðsögninni Al Pacino. Reeves leikur þar lögfræðing sem er freistað til New York borgar til miskunarlausrar lögfræðistofu sem rekinn er af manni að nafni John Milton. Það kemur svo í ljós að Milton þessi er enginn annar en myrkrahöfðinginn sjálfur sem er að skipuleggja fæðingu anti-krist með óafvitandi aðstoð Reeves. Frábær mynd sem sýnir það og sannar að Keanu kann að velja og hafna þegar það á við. Devils Advocate sló í gegn en Speed 2 kolféll og er talinn vera með verri myndum sem undirritaður hefur þurft að fórna skynfærum sínum fyrir.
Næsti kafli í ferli Keanu Reeves er sá minnistæðasti því honum var boðið hlutverk í furðulegri sci-fi hasarmynd sem tölvuhakkarinn Neo undir leiðsögn þá frekar óþekktra bræðra að nafni Larry og Andy Wachowski. Reeves fór yfir um þegar hann las handritið og sló til. Hann hafði aldrei séð neitt líkt þessu og var spenntur að taka áhættuna og leika í svona óvenjulegri kvikmynd. Það var að sjálfsögðu tímamótaverkið The Matrix(1999). Hún sló hressilega í botninn á 20 öldinni í kvikmyndum og kvaddi með nýjum hugmyndum og nýrri tækni sem segja til um hvað koma skal í kvikmyndagerð. Hann fékk litlar $10 milljónir fyrir hlutverkið ásamt prósentum sem var svipuð upphæð. Nú var Keanu Reeves óneitanlega orðinn stórstjarna og partur af einhverju sem gleymist seint líkt og Star Wars.
Eftir The Matrix fékk Keanu fullt af tilboðum en honum tókst samt að velja tvö frekar misheppnuð verkefni árið 2000. Það voru myndirnar The Replacements og The Watcher. Sú fyrri var slöpp ruðningsmynd um gamlar kempur sem fá annað tækifæri til að spila amerískan fótbolta þegar alvöru liðið fer í verkfall. The Watcher var hinsvegar öðruvísi mynd fyrir Reeves því þar lék hann vonda kallinn ef þannig má að orði komast. Hann lék raðmorðingja sem eltir ungar stúlkur og tekur myndir af þeim og sendir lögreglunni til að fá þá til að reyna að stöðva sig áður en hann lætur til skarar skríða. Hann var bara engann veginn sannfærandi sem snargeggjaður maður og maður óttaðist hann ekki í sekúndubrot, auk þess að myndin var arfaslök og óspennandi. Honum líkaði greinilega að leika vonda menn því hann lék í endann á 2000 smáhlutverk í ágætis spennuhrollvekju sem heitir The Gift eftir Sam Raimi. Þar fór hann mun betur með hlutverk sitt sem hin grimmi sveitalúði Donnie Barksdale sem lúber Hilary Swank og ógnar henni. Annars er sú mynd um skyggnigáfu konu sem leikinn er af Cate Blanchett, fínasta mynd þar á ferð.
Svo kom önnur rómantísk drama Sweet November(2001) þar sem Keanu lék á móti Charlize Theron, sem hann lék áður á móti í The Devils Advocate. Hann lék einnig það sama ár í mynd sem heitir Hardball. Þar leikur hann stefnulausan mann sem eyðir tíma sínum í fjárhættuspil, drykkju og allskonar svik. Honum er sett það skilyrði frá vini sínum sem lánar honum pening að þjálfa hafnaboltaliðið í hverfinu. Ekki beint hans besta mynd en það skipti ekki máli því það var komið að framhöldum The Matrix næst. Ég sleppi því bara að segja eitthvað um þær myndir því fólk fær sinn skammt fljótlega og það verður mikið talað um þessar myndir á næstunni.
Hinsvegar er Keanu kominn með tvær eða þrjár myndir á verkefnalistann eftir The Matrix 2 og 3 þar á meðal myndin Constatine sem er byggð á frægum myndasögum frá Marvel Comics, hún kemur á næsta ári.
Hlutverk sem hann fékk ekki eða vildi ekki:
The Breakfest Club(1985)- Keanu sótti um en fékk ekki að vera með
Platoon(1986)- Oliver Stone bauð honum hlutverk Charlie Sheen en hann neitaði því vegna þess að honum fannst það of ofbeldifullt(slæm mistök þar).
The Fly II(1989)- Keanu var boðið aðalhlutverkið en Eric Stoltz(ojj hvað ég hata hann) fékk það í staðinn því Reeves sótti frekar um Dangerous Liason og skila því af sér og fá tífalt minna en það sem honum var boðið fyrir The Fly II, sem varð svo á endanum léleg mynd(góð ákvörðun).
Heat(1995)- Keanu neitaði Michael Mann um hlutverkið sem Val Kilmer fékk svo vegna þess að hann vildi frekar leika í Hamlet á sviði. Val Kilmer var með sömu umboðsskrifstofu Reeves og fékk óvænt hlutverkið.
Speed 2 Cruise Control(1997)- Samkvæmt leikstjóranum Jan De Bont var Keanu boðið $11 milljónir til að leika í þessari hörmung en hann neitaði því og sagðist ekki vita hvað hann vildi gera næst(besta ákvörðun hans á ferlinum) í staðinn kom Jason Patric.
Soldier(1998)- Keanu var boðið $9 milljónir fyrir aðalhlutverkið en hann vildi það ekki og í staðinn kom Kurt Russell og myndin kolféll og var mjög slöpp.(góð ákvörðun).
Showtime(2002)- Þessi mynd átti upphaflega að vera hasarmynd með Keanu Reeves og Chris Rock en í staðinn var ákveðið að gera grínmynd með Robert De Niro og Eddie Murphy.
Óskalisti Keanu Reeves:
Keanu sagði í viðtali í Ástralíu árið 1999 að honum langi til að leika í Lord of The Rings trílógíu Peter Jacksons. “Ég er að reyna að fá hlutverk Strider. Mig langar mikið til að vinna með Peter Jackson og vona að það gangi eftir” sagði Reeves. Hann fékk það ekki heldur, Viggo Mortensen hirti það hlutverk og fór vel með það. Í sama viðtali sagði hann að hann hefði áhuga á því að leika í X-Men og að hann hefði talað við Bryan Singer um það. Hann hefur lesið mikið myndsögurnar og er mikill aðdáandi þeirra.(veit ekki hvort hann hefði passað þar inn).
Keanu langar mikið til að leika einhvern tímann Dionysius, sem var mikill fræðimaður á 6. öld í Grikklandi. Keanu hefur einnig mikinn áhuga á því að leika einhvern tímann ljóðskáldið franska Rimbaud “hann höfðar til sjálfstortímingareðlis míns og listrænna hliða minna” segir Keanu.
Laun og fróðleikur:
The Matrix Revolutions: $15,000,000
The Matrix Reloaded: $15,000,000
The Replacements: $12,500,000
The Matrix: $10,000,000
The Devil´s Advocate: $8,000
*Keanu er örvhentur og myrkfælinn.
*Hann er í hljómsveit sem heitir Dogstar sem hefur verið starfrækt í yfir 10 ár. Keanu spilar á bassa í hljómsveitinni.
*Er hættur við að heimta prósentur af The Matrix 2 og 3 svo myndin gangi örugglega upp.
* Minnkaði launin sín fyrir The Replacements svo að það væri hægt að fá Gene Hackman í myndina líka.
*Áhugamál fyrir utan hokkí eru hestreiðar og brimbretti, bæði áhugamál sem hann fékk frá kvikmyndahlutverkum.
* Kærasta hans Jennifer Syme dó í bílsslysi í apríl árið 2001 á meðan Keanu var að byrja á The Matrix Reloaded tökum