Ég var að sjá þessa mynd aftur núna um daginn og hún hefur alltaf virkað á mig sem gífurlega sterk kvikmynd um magnaða atburði. Í byrjun myndarinnar er sagt að myndin sé byggð á sannsögulegum atburðum. Það er samt ýmislegt ekki með feldu hvað sannsögulegt gildi myndarinnar varðar en ég kem síðar að því.
Murder in the first fjallar um Henry Young(Kevin Bacon) sem var stungið inn í hið alræmda fangelsi Alcatraz árið 1936 fyrir að stela einungis 5 dollurum, sem átti að vera fyrir mat handa sér og litlu systur hans. Á Alcatraz-eyjunni ræður fangelsisstjórinn Milton Glenn(Gary Oldman) og rekur hann fangelsið með harðri hendi ásamt því að reka tvö önnur fangelsi. Henry Young reynir að flýja árið 1939 en það kemst upp um hann og hann settur í svartholið. Þar er hann látinn dúsa í hvorki meira né minna en 3 ár með smá pásum á ári hverju, en hámarkið á að vera 19 dagar. Þegar hann kemur úr svartholinu er hann að sjálfsögðu orðinn snargeggjaður og það fyrsta sem hann gerir er að drepa manninn sem kom upp um hann þrem árum áður. Hann ræðst á hann í matsalnum með skeið og drepur hann með skaftinu einu. Lögfræðingurinn James Stamphill(Christian Slater) er fenginn sem lögfræðingur Young í morðmálinu. Hann kemst að því að ekki er allt með feldu innan veggja Alcatraz og grunar fangaverði um harðræði og pyntingar.
Þar með byrjar réttarhöld yfir Alcatraz-fangelsinu og fangelsisstjóranum Glenn sem átti að hafa verið valinn sérstaklega af J.Edgar Hoover sjálfum í starfið. Myndin er full af sterkum leikurum og fara þeir Kevin Bacon og Gary Oldman á kostum, þá sérstaklega Bacon. Slater sleppur frá myndinni með sóma en mér þykir hann ekki merkilegur leikari. Myndin er mögnuð og mæli ég með því að fólk skoði hana. Það sem fer samt í taugarnar á mér er þessi “byggt á sannsögulegum atburðum” stimpill sem kemur í byrjun hennar. Ég kannaði aðeins málið nefnilega og þetta var það sem ég komst að.
Í myndinni er Henry Young lýst sem saklausum ungum manni sem var að reyna að fæða systur sína og var sendur á hræðilegan stað sem eyðilagði hann. Sannleikurinn er sá að Henry Young var bankaræningi sem misnotaði og barði gísla sína oft og mörgum sinnum og hann framdi morð þremur árum áður en hann var settur á Alcatraz. Alcatraz var hámarksgæslufangelsi þar sem enginn smáafbrotamenn voru innilokaðir, þarna voru alræmdir glæpamenn eins og Al Capone, George “Machine Gun” Kelly. Þrátt fyrir að Young hafi reynt að flýja 1939 var hann ekki settur í svartholið í 3 ár. Hann var innilokaður í venjulegum klefa með vatn,klósett og ljósaperu í nokkra mánuði. Atriðið þar sem fangelsisstjórinn Glenn sker á hásinar Young er allgjör uppspuni því hvorki var það leyfilegt né kom það fram á neinum sjúkraskýrslum, ekki einu sinni ör eftir skurðinn.
Í myndinni drepur Henry Rufus McCain strax þegar hann kemur úr einangruninni sem bendir til þess að þessi árásarhneigð hans sé bein afleiðing innilokunarinnar. Í rauninni drap Henry Rufus einu ári eftir að honum var sleppt úr nokkra mánaða innilokun í venjulegum klefa.Hann hljóp á eftir Rufus niður stiga og stakk hann með hníf ekki skeiðskafti og Rufus dó 5 tímum síðar. Það var aldrei gefinn útskýring fyrir því afhverju Henry Young drap Rufus. Það væri kannski hægt að spyrja hann að því í dag því hann er trúlegast ennþá lifandi. Það er rétt hann framdi ekki sjálfsmorð eins og kemur fram í myndinni og hann krotaði ekki victory á klefann sinn fyrir sjálfsvígið eins og kemur fram í myndinni. Í raunveruleikanum var Henry Young á Alcatrazeyjunni þar til 1948 og þá var hann fluttur á sjúkradeild í öðru fangelsi og byrjaði svo árið 1954 að afplána lífstíðardóm fyrir gamalt morðmál. Honum var sleppt á reynslulausn árið 1972 en sveik hana og nú til dagsins í dag er ekki vitað um ferðir hans síðan þannig að hann gæti kannski verið lifandi ennþá einhver staðar.
Það skal samt taka það fram að það hefur alltaf verið ákveðinn dulúð yfir Alcatraz-fangelsinu. Þar hélt fangelsisstjórinn á þeim tíma, sem hét í raun James A. Johnston, miklum aga uppi og honum tókst að halda fjölmiðlum algjörlega frá staðnum. Það ríkti alger þögn á aðalgöngum fangelsisins og sumir telja að það hafi gert suma fanganna ruglaða. Það er voða lítið vitað um hvernig aðferðum var beitt þar því það fékk engin reynslulausn frá fangelsinu aðeins voru sumir fluttir í önnur fangelsi til að klára dóma sína. Þeir örfáu sem hafa talað um lífið innan veggjanna hafa sagt frá barsmíðum og pyntingum. Þessar sögusagnir hafa samt ekki verið nógu sannfærandi og staðfastar til að gera mál úr því. Meira að segja Al Capone fékk enga stjörnumeðferð þegar hann var þar. Hann þurfti að vinna og gera allt eins og aðrir fangar. Hann lenti meira að segja í nokkrum slagsmálum og var stunginn einu sinni.
Það sem kom einnig fram í myndini var að fangelsisstjórinn Milton Glenn hafi verið valinn af J. Edgar Hoover og að hann réði yfir þrem fangelsum í einu. Í raun hafði Hoover ekki það vald að velja mann í starfið og það hefur aldrei neinn í sögu fangelsismála í USA séð um fleiri en eitt fangelsi í einu. Í réttarhöldunum í raunveruleikanum talaði lögfræðingur Young um barsmíðar og pyntingar og fékk nokkrar óljósar sögur um slíkt athæfi í Alcatraz. Kviðdómendurnir trúðu því og dæmdu Henry Young sekan eingöngu um svokallað “manslaughter” sem bætti nokkrum árum á viðurvist hans á Alcatraz-eyju.
Það er nokkuð ljóst að myndin er ekki 100% sannsöguleg. Styrkur myndarinnar þegar ég sá hana fyrst var sú tilhugsun að einhver maður hafi þurft að þola þetta. Samt sem áður er þetta mögnuð mynd, bara ekki sannsöguleg. Það er greinilegt að sagan hans Henry Young hefur verið krydduð hér klisjum á Hollywood-háttinn. Það ætti að standa í staðinn “virkilega lauslega byggð á sannsögulegum atburðum”. Það breytir því ekki að Kevin Bacon og Gary Oldman fara með leiksigur. Það er bara ekki sniðugt að taka alltaf mark á því þegar það kemur fram að mynd sé byggð á sannsögulegum atburðum
Ef fólk vill vita meira um Alcatraz og vill sjá mynd af Henry Young ætti það að skoða www.alcatrazhistory.com