Mikið skelfilega er endurgerðin af Rollerball léleg. Frummyndin sem var gerð árið 1975 og skartaði James Caan, var barn síns tíma og afar “seventies”, en hún var hundrað sinnum betri en þessi ömurlega endurgerð sem John McTiernan gerði. McTiernan er reyndar eins og margir vita, þekktur fyrir nokkrar ágætis myndir eins og Die Hard, Die Hard 3, Hunt for Red October og Thomas Crown Affair.
Hvað hefur gengið að manninum meðan hann nauðgaði þessu rusli saman veit ég ekki, en leikaravalið er hörmulegt, tökurnar glataðar, vondu kallarnir fáránlegir, sviðsetningin í Khazakstan er út í hött og söguþráðurinn afar losaralegur og ótrúverðugur.
Chris Klein sem leikur aðaltöffarann líkist meira skátaforingja en snillingi í hættulegri jaðaríþrótt og vondu kallarnir þar sem meira að segja Jean Reno leikur illa, eru eins og úr grínmynd þar sem þeir gjóa augunum hver á annann og kinnka laumulega kolli.
Metnaðarleysið er algert og ég ráðlegg fólki sem hefur ekki enn sóað tíma sínum í þessa andstyggilegu flatneskju, að horfa frekar á gömlu myndina.