Mér datt í hug að skrifa smá grein um kvikmyndahátíðina sem hófst í Regnboganum 10. apríl og lauk í gær. Ég náði að fara á 4 myndir og var almennt sáttur við þær allar og finnst mjög nauðsynlegt að bíógestir fái tækifæri til þess að sjá myndir sem koma ekki frá Bandaríkjunum eða eru aðeins merkilegri en það sem yfirleitt kemur frá Bandaríkjunum. En mér finnst það alltaf jafn sorglegt hvernig það er núorðið að það eru ekki þær myndir sem eru vel gerðar og virkilega áhugaverðar sem fá mestu aðsókn í bíóhúsum í heiminum heldur yfirleitt Hollywood formúlur af verstu gerð. Auðvitað eru fjölmargar undantekningar en það eru bara svo margar gæðamyndir sem fá aldrei það sviðsljós sem þær eiga skilið.
Nóg um það, myndirnar á kvikmyndahátíðinni voru mjög fjölbreytilegar og ætla ég að segja aðeins frá þeim sem ég sá.
Bowling for Columbine
———————–
Þessi mynd var sýnd oftast á hátíðinni og greinilegt að aðstandendur gerðu sér grein fyrir því mikla umtali sem þessi mynd hefur fengið allsstaðar. Fyrir þá sem það ekki vita þá er þetta heimildarmynd eftir Michael Moore um hina stórfurðulegu byssugleði í Bandaríkjunum og dregur myndin nafn sitt af hörmulegum atburði í Columbine skólanum þar sem tveir drengir á táningsaldri hófu skothríð dag einn sem olli dauða fjölda nemenda og eins kennara. Sá atburður er einhvers konar kjarni myndarinnar og mikill hluti myndarinnar fer í ýmsar hugleiðingar um það voðaverk. Moore veltir fyrir sér hvað það er sem gerir að morðtíðni af völdum skotvopna sé 150 sinnum hærri í Bandaríkjunum en hjá þjóðum af svipaðri stærðargráðu og tekur fyrir allar þær ástæður sem við oft heyrum nefndar s.s. tölvuleiki, kvikmyndir, hættulegar fyrirmyndir (t.d Marilyn Manson) o.s.frv.
Það furðulega var að eftir þessa mynd bar ég meiri virðingu fyrir Marilyn Manson heldur en Charlton Heston og mér finnst ótrúlegt að þessi þjóð skuli ekki enn vera búin að átta sig á þessu vandamáli sínu.
Virkilega vel gerð mynd sem heldur manni hugsandi í nokkra daga á eftir. Ætti að vera skylduáhorf fyrir alla Ameríkana.
3,5 / 4
Gamle mænd í nye biler
————————–
Þessi mynd er forsaga myndarinnar “I Kina spiser de hunde” og titlar myndanna byggjast á frösum sem koma einu sinni fram í myndunum. Hér segir frá glæpamanninum Harald sem er einstaklega ruddalegur maður og virðist ekki hafa umburðarlyndi gagnvart neinum. Einhver góðmennska situr þó í honum því þegar dauðvona vinur hans Munk biður hann um að ná í son sinn úr fangelsi í Svíþjóð er hann ekki að tvínóna við hlutina og neyðir kokkana Peter og Martin sem vinna hjá honum til að hjálpa sér.
Ég hlakkaði mikið til að sjá þessa mynd enda var ég mjög hrifinn af “I Kina spiser de hunde”. Og myndin olli ekki vonbrigðum, er ekki mikið síðri en “I Kina spiser de hunde” og er alveg meinfyndin. Salurinn var síhlæjandi að þessum kolsvarta húmór myndarinnar og það er ekki oft sem að ég sé bíógesti enn hlæjandi þegar það labbar út úr salnum. Maður skammast sín nú samt eiginlega fyrir það að hlæja að því þegar maður fær örbylgjuofn í hausinn. Handritið hefði reyndar getað verið betra og á köflum dálítið lélegt en myndin er bara svo fyndin að það skiptir ekki öllu.
3,5 /4
El Crimen Del Padre Amoro
———————
Mexíkönsk mynd sem fjallar eins og titillinn gefur til kynna, um glæp föður Amoro. En faðir Amoro er tiltölulega ungur prestur sem ráðinn er til smábæjar í Mexíkó til að aðstoða föður Benito og taka svo við starfi hans seinna (ef ég man rétt). Nýji presturinn lendir snemma í vandræðum þar sem að spilling í prestastéttinni í héraðinu virðist ætla að verða alvörumál og hann er frekar í vafa um hverjum hann eigi að fylgja að málum. Hann hefur svo ástarsamband við stúlkuna Ameliu þrátt fyrir að það sé brot á reglum kaþólsku kirkjunnar. Gael García Bernal fer með hlutverk föður Amaro og stendur sig mjög vel. Hann hefur einnig leikið í Amores Perros og Y tu mama tambien og er nokkuð spennandi leikari. Myndin skiptist í tvo hluta annars vegar hlutinn um ástarsambandið og hins vegar hlutinn um spillingu prestastéttarinnar. Því miður fannst mér þetta bara ekki takast nógu vel upp og komst til dæmis aldrei nógu góður botn í annan hlutann. En þrátt fyrir það þá er þetta vel gerð mynd sem maður lifði sig ansi mikið inn í.
3 / 4
28 days later
—————–
Fyrir utan Bowling for Columbine hafði ég mestan áhuga á að sjá þessa mynd enda er hugmynd myndarinnar lík hugmynd sem ég hef haft í kollinum um smá skeið og gaman væri að sjá kvikmynd um. Ég er sem sagt að meina hugmyndina um mann sem vaknar og uppgötvar að hann er að því virðist einn í heiminum. Reyndar byggðist mín hugmynd á að ástæðan fyrir því að allt fólkið væri horfið, væri óútskýrð til að byrja með, en í þessari mynd kemur strax ástæðan í ljós: vírus hefur herjað á mannkynið sem gerir alla sem smitast óða og árásargjarna. Smitaðir breytast satt að segja í villidýr. Nú Jim er sem sagt sá sem vaknar einn daginn á spítala þar sem hann hefur legið í 28 daga og uppgötvar að London borg virðist gjörsamlega tóm, ekkert mannlíf, ekkert sjónvarp, engin siðmenning. Því miður verður staðan verri þegar hann uppgötvar ástæðuna fyrir þessu öllu saman og að smitaðir einstaklingar eru ekkert sérlega vinsamlegt fólk, ef fólk skyldi kalla. Nú til að eitthvað gerist meira í myndinni en kvalafullur dauðdagi Jim þá er honum bjargað af tveimur einstaklingum sem hefur tekist að lifa af þessar fjórar vikur án þess að verða vírusnum eða smituðum að bráð. Mér leist mjög vel á þessa mynd í byrjun en þegar á leið varð ég eiginlega fyrir vonbrigðum. Þegar allt kom til alls þá var söguþráður myndarinnar ekkert mikið merkilegri en söguþráður fjölmargra vampíuru-, geimveru-, zombiemynda sem þegar hafa verið gerðar. Myndatakan ásamt tónlist og hljóð stóð samt fyrir sínu sem hækkaði myndina talsvert upp og gerði hana talsvert frábrugðna öðrum hrollvekjum. Það er þess virði að sjá þessa mynd einu sinni.
2,5 / 4