***Grein inniheldur spilla***
Titill myndar : Pulp Fiction
Framleiðsluár : 1994
Leikstjóri : Quentin Tarantino
Handrit : Quentin Tarantino og Roger Avary
Aðalhlutverk : John Travolta, Samuel L. Jackson, Bruce Willis, Ving Rhames og Uma Thurman
Tegund myndar : Thriller, glæpa- og spennumynd
Lengd myndar : 148 mín (á imdb.com er hún 154 mín..)
Árið 1994 sendi leikstjórinn Quentin Tarantino sína aðra (þriðju ef með er talin My Best Friend’s Birthday) mynd. Mynd þessi nefndist Pulp Fiction. Með nýfenginni frægð sinni eftir velgengni Reservoir Dogs reyndust honum allir vegir færir og gaf hann frá sér þessa stjörnum prýddu mynd með leikurunum John Travolta (Pulp Fiction gerði hann frægan aftur eftir nokkra kvikmyndalega lægð að mínu mati a.m.k.) og Samuel L. Jackson og frábærum leikurum í aukahlutverkum; Christopher Walken sem Captain Koons, hermaður sem var í fangabúðum ásamt föður Butch, Steve Buscemi sem þjónninn Buddy Holly á Jack Rabbit Slim’s og Harvey Keitel sem The Wolf.
Myndin segir þrjár aðskildar sögur sem bindast allar saman: Hún segir frá glæpamannaparinu Honey Bunny (Yolanda) og Pumkin (Ringo) þar sem þau eru á veitingastað, skiptir þaðan yfir á tvo menn, þá Vince og Jules sem vinna fyrir Marsellus Wallace og sú síðasta segir frá boxaranum Butch sem hefur nýlega gert með sér samning milli sín og Marsellus. Eins og áður segir, bindast þær allar snilldarlega saman.
Miðað við 148 mínútna mynd, er hún aldrei lengi að líða, má kannski þakka það handriti og leikstjórn Tarantino, frábærum leik og leikurum (Jules var samið með Samuel L. Jackson í huga) skemmtilegu “sándtrakki” sem inniheldur bæði góða tónlist og skemmtileg samtöl eða kannski góðri kvikmyndatöku.
Enn einni skrautfjöðurinni bætt í hatt Tarantino þó myndin hafi því miður einungis hlotið ein Óskarsverðlaun og það fyrir handrit. Annars hvet ég alla sem hafa ekki séð myndina að leigja sér hana strax og þeir sem hafa séð hana að horfa á hana aftur.
Tvímælalaust ein allra skemmtilegasta mynd sem ég hef séð. Annars væri ég til í að vita af hverju Samuel L. Jackson var tilnefndur fyrir aukahlutverk en John Travolta fyrir aðalhlutverk, svör vel þegin.
**** / ****