Asíubúar eru farnir að minna heldur betur á sig í hryllingsmyndageiranum og vert er að minnast Ringu-myndanna sem kaninn þurfti endilega að endurgera og það illa. The Eye er mynd sem ég var búinn að lesa mikið um á erlendum kvikmyndasíðum og var ég því spenntur að kíkja á hana. Hún kom mér svo sannarlega á óvart og svei mér þá ef ég var ekki hræddari en þegar ég sá Ringu á sínum tíma. Eftir endalausa leit að henni fann ég hana að sjálfsögðu hjá snillingunum í Laugarásvideo og á DVD og allt.
The Eye fjallar um unga blinda stúlku sem er að fara í áhættusama augnhimnuaðgerð. Hún hefur verið blind síðan hún var 2 ára gömul. Hún lítur fyrst á þessa aðgerð sem kraftaverk og hlakkar til að taka af sér sárabindin. Þegar hún loks losnar við sárabindin á hún erfitt með að sjá því það tekur heilann smá stund að vinna með augunum. Hún þekkir allt ennþá eingöngu með að snerta það. Að öðru leyti sér hún allt í hálfgerðri móðu og úr fókus en sjónin batnar með hverri mínútu og loks fer hún að sjá almennilega. Það sem hún gerði sér hinsvegar ekki grein fyrir var að það fylgja ákveðnir nýjir hæfileikar með þessari guðsgjöf sem hún bað ekki um. Hún fer að sjá ýmsa óútskýranlega og óhugnalega hluti. Meira segi ég ekki fólk verður bara að upplifa það að sjá þessa mynd.
Það er langt síðan ég hef verið jafnhræddur að horfa á mynd heima hjá mér, oftast verður maður hræddari í bíó á hryllingsmynd. Það væri svakalegt að horfa á þessa í bíóhúsi held ég. Leikstjórar The Eye eru Pang-bræðurnir sem eru nokkuð þekktir í heimalandi sínu Kóreu og eiga að baki sér nokkrar myndir. Það sem kom mér mest á óvart varðandi þessa mynd var hversu fagmannlega unninn hún er. Hér er beitt krafti andrúmslofts eins og í Ringu, það eru ekki notuð auðveld bregðuatriði eða mikið gore. Atriðin þar sem stelpan sér ennþá allt úr fókus og fer svo að sjá drauga er meistaralega framkvæmt og ég lofa því að fólk verður skíthrætt. Svo er það þetta andskotans lyftuatriði sem sá til þess að ég fer aldrei aftur í lyftu á ævinni, þvílíkt snilldaratriði hef ég ekki séð í hryllingsmynd í langan tíma. Það er einnig nokkuð skemmtilegt plott í þessari mynd sem útskýrir á skemmtilegan hátt afhverju stelpan sér það sem hún sér.
Ég var hræddari að sjá þessa heldur en Ringu og finnst mér þessi í raun vera betri þannig að þeir sem fíluðu Ringu ættu að kíkja á þessa tvímælalaust. Þess má einnig geta að Tom Cruise og framleiðslufélagi hans Paula Wagner(þau framleiddu m.a. The Others saman) eru búinn að kaupa endugerðarréttinn að þessari mynd. Þannig að þessir Pang-bræður eiga eftir að vekja mikla athygli í framtíðinni að mínu mati. Þetta er brilliant mynd þrátt fyrir að leikararnir eru ekkert rosalegir nema sú sem leikur blindu stelpuna hún er ágæt(asíubúar hafa svolítið öðruvísi leiklistarstíl en vestrænir leikarar.)
-cactuz