Spike Lee er leikstjóri sem ég hef alltaf haft mikla trú á en út af einhverjum ástæðum hefur hann ekki sýnt sínar bestu hliðar frá árum Do The Right Thing og Jungle Fever í síðustu myndum. Í 25th Hour er þessi gamli kraftur kominn aftur og vel það. Ég fer ekki langt frá því að segja að hér með er kominn besta mynd Spike Lee hingað til. Hann fær allt rétta fólkið í hlutverkin og fær frekar þétt handrit og spilar rétt úr þessum spilum og býr hér til “instant klassík”. Ég var svo djúpt snortinn af þessari mynd að ég á ekki orð.
25th Hour er byggð á samnefndri bók eftir David Benioff. Myndin snýst í rauninni um mann sem þarf að gera upp líf sitt á einum degi áður en hann fer í fangelsi í 7 ár. Montgomery “Monty” Brogan, skírður í höfuðið á leikaranum fræga Montgomery Clift, er dópsali sem kunni sér ekki hóf og hætti ekki í bransanum fyrr en það var of seint. Hann sér eftir því að hafa verið gráðugur en hann sér í rauninni ekki eftir því að hafa selt dóp, sem gerir hann að hálfgerðri andhetju myndarinnar. Hann á góða íbúð og fallega kærustu og hann hjálpaði föður sínum að borga barinn sem hann rekur, faðir hans er fyrrverandi slökkviliðsmaður sem lifir í sorg ásamt öðrum slökkviliðsmönnum eftir 11 september. Hann á tvo “raunverulega” vini að hans eigin sögn sem eru þeir Frank og Jakob sem hann ætlar að eyða síðasta kvöldinu sínu, sem frjáls maður, með ásamt kærustu sinni Naturelle. Frank er verðbréfasali, sem hugsar mest um stelpur af þeim þrem og stærir sig af því að vera með stórt typpi en skilur ekki afhverju stelpur gráta alltaf eftir góðar samfarir með sér. Jakob er kennari og feimnastur af þeim en hann er skotinn í einum nemanda sínum sem er 17 ára. Hann er rödd skynseminnar í hópnum og vill ekki gera neitt siðsamlega rangt, þá á ég við varðandi þetta ímyndaða ástarsamband við nemandann.
Monty safnar þessum hóp saman og reynir að eiga skemmtilegasta kvöld ævi sinnar áður en ævi hans lýkur með fangelsisdómnum. Hann er hræddur og óundirbúinn fyrir fangelsisvist og grunar kærustu sína um græsku. Hann þarf einnig að gera upp við rússnesku mafíuna sem hann selur fyrir. Frank og Jakob eiga erfitt með að skilja hvernIG þeir eiga að hegða sér í kringum Monty því það er erfitt að fagna þegar Monty er á leið í fangelsið. Það er ýmislegt sem gerist þetta kvöld og Monty telur sekúndurnar í fangelsidóminn sem hann ræður ekki við.
Spike Lee er þekktur fyrir að þykja vænt um New York og hann leynir því ekki. Hann segir hér sögu um New York búa sem þarf að gleyma sumum hlutum og reyna að púsla saman lífi sínu, líkt og aðrir þurftu að gera eftir 11 september. Ein sena lýsir ástandi New York nokkuð vel þar sem Monty lítur í spegil og tala við sjálfan sig og blótar öllu fólki í New York af mismundandi kynþáttum,litarhafti,trúarbrögðum, stereotýpum og fólki eftir hverfum. Hann uppgötvar svo að það er hann sjálfur sem kom honum í þessi vandræði og að hann gæti ekki kennt neinum öðrum um.
Edward Norton er magnaður sem Monty og sýnir hér enn einu sinni að hann er leikari af guðsnáð sem ræður við öll möguleg hlutverk. Barry Pepper og Philip Seymour Hoffman er góðir sem vinir Monty, þá sérstaklega Hoffman sem fer á kostum sem Jakob og minnir hér svolítið á hlutverk sitt í Happiness. Hann er einfaldlega fæddur til að leika feimna,lúðalega aumingja greyið maðurinn.Ein sena þeirra er mögnuð þar sem þeir standa við glugga í íbúð hans Frank og Frank reynir að útskýra fyrir Jakob að líf Monty sé búið og að hann eigi það skilið fyrir að selja dóp, fyrir utan gluggann eru leifar Twin Towers(sem eiga stóran þátt í creditlistanum í byrjun myndarinnar þar sem tveir ljóskastarar kasta ljósi upp eins og draugar turnanna teggja). Rosario Dawson er fín í hlutverki Naturelle og hin magnaði leikari Brian Cox er frábær sem faðir Monty. Þetta er tvímælalaust mynd sem maður gleymir seint og á Spike Lee skilið mikið lof fyrir að loksins sýna hæfileika sína. Spike Lee getur gert meira en að búa til endalausar myndir um fátæka svertingja og vonandi verður þessi mynd til þess að hann sýni meiri víðsýni í vali á myndum í framtíðinni. Hann hefur fullkomnað stíl sinn og heldur manni við efnið með nett pirrandi tónlist út alla myndina sem svínvirkar í því að skapa togstreitu myndarinnar. Endirinn er líka magnaður á sinn hátt og þá á ég ekki við óvæntan enda ala Sixth Sense heldur prýðisgott uppgjör við áhorfandann sjálfann sem heldur honum hugsandi í dágóða stund eftir myndina.
Það fór í taugarnar á mér að heyra í fólki þegar ég gekk út úr salnum að þau töluðum um það að diskóteksatriðið hefði verið flott út af því að það voru svo flott ljós og tónlist en myndin ekki nógu góð, hvað er að sumu fólki. Þegar maður heyrir svona frá fólki þá vorkennir maður þessum kvikmyndagerðamönnum sem reyna að gera alvörumyndir í dag með metnað að vopni. Kannski að maður vari fólk við “Þetta er ekki hasarmynd með Vin Diesel eða grínmynd með Rob Schneider”!
Hún fær 7.7 á imdb.com og ég hefði viljað sjá hærri einkunn þar. Segi það enn og aftur BESTA MYND SPIKE LEE. Skylduáhorf fyrir aðdáendur Spike Lee og aðra sanna kvikmyndaáhugamenn.