Hér á eftir koma dálitlir spillar, ef þið viljið ekkert vita um söguþráðinn í myndinni áður en þið sjáið hana skuluð þið hætta lestri hér.
Myndin fjallar um mann sem að missir minnið. Frumlegheitin eru hér greinilega í fyrirrúmi, hugsar maður (a.m.k. hugsaði ég það) þegar maður heyrir þetta, en það kemur smá flétta seinna.
Maður þessi er sofandi á bekk, af ástæðum sem maður veit ekki strax, þegar þrír menn ganga upp að honum og berja hann til sýnilegra óbóta og taka veski hans og allt sem hann á. Næst er hann sýndur á spítala þar sem læknir og hjúkka tala saman um hann og komast að þeirri niðurstöðu að hann sé látinn. En viti menn, hann stígur upp og næst veit maður af honum liggjandi í flæðarmálinu með sárabindi vafin um allt andlitið.
Fjölskylda sem býr í gömlum gámi nálægt taka hann að sér, fæða hann og klæða. Hann segir þeim (í mjög stuttu máli, þessi maður er ekki málglaður) að hann sé minnislaus og það eina sem hann man eftir sé lestarferð (hann kom til Helsinki með þessari lest). Hann kemur sér svo fyrir í þessu samfélagi fátækra og slær sér upp við konu sem vinnur hjá Rauða Krossinum í hjálparstarfi og verður fullkomlega hamingjusamur í þessu litla samfélagi.
Svo kemst hann að því hver hann er, og þá er spurningin um hvort hann vilji byrja að lifa “venjulegu” lífi eins og áður eða halda áfram að lifa fátækur en hamingjusamur, eins og þessi mynd sýndi vel að hægt er að vera.
Þessi mynd er með frábæran húmor og nokkur atriði eru algerlega óborganleg, gríðarlega fágaður húmor sem maður skellihlær hjartanlega að, eitthvað sem fær mann til að gleyma kynlífshúmor amerískra gamanmynda. Þó er þetta norræn mynd, og hefur dálítinn amatör brag yfir sér. Það eru mörg löng atriði sem er eiginlega enginn tilgangur í, og klipping er mjög furðuleg og oft slæm.
Leikur aðalleikarans er mjög góður, hann er í mjög tilþrifalitlu hlutverki sem hann skilar þó vel, en flestir aðrir eru hræðilegir. Allur leikur er mjög stirður, það er auðvitað bara stílsatriði en þetta fer samt dálítið í taugarnar á manni. Svo er aðalleikarinn skuggalega líkur Steven Seagal, en sú ímynd lýsir sem betur fer ekki leikhæfileikum hans.
Svo er alltaf spurningin hvort hann hafi virkilega dáið á spítalanum og restin hafi ekki gerst raunverulega. Það er óumdeilanlega nokkuð líklegt, þar sem maður sá greinilega að hjarta hans var hætt að slá á hjartariti spítalans. Hvernig gat hann risið uppfrá þessu?
Allt í allt er hægt að segja að myndin hafi ekki verið neitt sérstök frá kvikmyndalegu sjónarmiði, þ.e. slæm klipping og leikur en góður boðskapur og skemmtileg saga sem fær mann til að brosa, og fínn húmor. Ég mæli með þessari mynd, en það er álitamál hvort hún sé nógu góð til að sjá hana strax í bíói eða hvort það sé bara betra að bíða þangað til hún kemur á leigu.
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane