Die Another Day
Það er erfitt að gagnrýna Bond myndir og sumir gætu jafnvel sagt að þær séu hafðar yfir gagnrýni. Það er líklegast best að dæma þær samanborið við fyrri Bond-myndir og ef síðustu Bond-myndir með Pierce Brosnan í hlutverki ofurnjósnara hennar hátignar eru hafðar til viðmiðunar þá ber nýjasta myndin, Die Another Day, höfuð og herðar yfir þær - þetta er besta Brosnan Bond-myndin til þessa. Það þarf jafnvel að fara aftur að upphafi Bond-ferils Rogers Moores eða til daga Seans Connerys til að finna sambærilega eða betri Bond mynd.
Sagan er frumleg og yfirdrifin eins og í góðri Bond mynd og ætla ég ekki að fara mjög náið út í þróun hennar. Bond byrjar baráttu sína í þetta sinn í Norður-Kóreu og er þar gripinn höndum og pyntaður í 14 mánuði eða svo. Þegar hann losnar er hann settur af sem njósnari en leitar hefnda og reynir að hafa uppi á þeim sem sveik hann í hendur illmennanna. Inn í söguna fléttast svo mikilmennskubrjálæðingurinn Gustav Graves (Toby Stephens) og skemmtilegt ferðalag til Íslands.
Það sem við viljum sjá þegar farið er á Bond mynd er martíní drykkja, hraðskreiðir bílar, einstaka heimsókn á spilavíti og flottar græjur sem bjarga hetjunni þegar hætta steðjar að. Einnig viljum við sjá flottar gellur sem í nýjustu myndunum eru farnar að berja örlítið frá sér. Hasaratriðin eru líka mjög mikilvæg og er hægt að lofa því að í þetta sinn verði enginn fyrir vonbrigðum.
Það kom mér á óvart að stór hluti myndarinnar gerist einmitt á jöklum Íslands en megnið af því auðvitað tekið í stúdíói. Íshöll Graves er afar áhugaverð og þó myndin sem dregin er upp af Íslandi gefi til kynna að þar sé lítið annað að finna en jökla og ís fylltist maður ósjálfrátt miklu þjóðarstolti í hvert sinn sem Ísland var nefnt. Ekki skemmir svo fyrir þegar þegar hasarinn nær hámarki sínu í bílaeltingaleik uppi á jökli. Bond og andstæðingur hans á svipuðum bílum að reyna að stúta hvor öðrum.